29.11.1978
Efri deild: 20. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1191 í B-deild Alþingistíðinda. (777)

106. mál, ráðstafanir til viðnáms gegn verðbólgu

Karl Steinar Guðnason:

Það mun hafa verið Fouché, sá slægvitri og kaldrifjaði lögreglumálaráðherra Napóleons, sem sagði þegar Napóleon lét myrða hertogann af Enghien og menn voru að óskapast yfir því níðingsverki: Þetta var ekki bara glæpur, þetta var skyssa.

Ég er þess fullviss, að dómur sögunnar verður eitthvað svipaður um þann ósóma, þá rangsleitni og svíðingsverk er fyrrv. ríkisstj. beitti verkalýðshreyfinguna. Á undanförnum árum hefur ríkisvaldið látið einskis ófreistað í baráttu sinni gegn verkafólki og sjómönnum. Verkalýðssamtökin hafa háð nær sífellt varnarstríð, verið sniðgengin og ögrað af valdhöfum. Síðasta kveðja fyrrv. ríkisstj. var einhver sú beittasta kjaraskerðing er þekkst hefur. Í lögunum var m.a. gert ráð fyrir því, að laun fyrir eftir- og næturvinnu verkafólks lækkuðu í áföngum. Hefðu þessi lög gilt áfram hefði íslenskur verkalýður verið dæmdur til að vinna myrkranna á milli án sérstakrar þóknunar fyrir yfirvinnu. Þessi lög hefðu ýtt Fátækasta fólkinu, sem mesta þörf hefur fyrir yfirvinnu sér til lífsviðurværis, út í ystu myrkur réttindaleysis.

Verkalýðshreyfingin barðist gegn þessum ráðstöfunum. Þeim varð ekki hrundið, en ríkisstj. hlaut fyrirlitningu launafólks. Það var ekki aðeins að samskipti ríkisvalds og verkalýðshreyfingar væru í rúst, heldur var atvinnulíf allt lamað. Þegar núv. ríkisstj. tók við voru allir hugsanlegir sjóðir tómir. Fiskvinnslunni var haldið gangandi með framlögum úr ríkissjóði, því Verðjöfnunarsjóður, sem stjórnvöld höfðu eyðilagt, var ekki lengur megnugir þess að standa undir eðlilegum greiðslum. Atvinnuleysi var hafið. Frystihúsum á Suðurnesjum hafði verið lokað og fleiri fyrirtæki voru að stöðvun komin. Í ríkisfjármálum ríkti andi uppgjafar og krankleika. Eyðsla í óarðbærar framkvæmdir, sóun og spilling einkenndu stjórnkerfið. Þetta var arfurinn er núv. ríkisstj. tók við.

Það er því sem maður sjái hv. þm. Sjálfstfl. í gervi kameljóns við umr um það frv. til I. er hér liggur fyrir, frv. um rímabundnar ráðstafanir til viðnáms gegn verðbólgu.

Að kosningum loknum hafði flokkur alþýðunnar, hinn ábyrgi flokkur verkalýðshreyfingarinnar, Alþfl., unnið glæsilegri sigur en þekkst hafði í sögu lýðveldisins. Það hlaut því að koma í hlut Alþfl. að hafa frumkvæði um myndun nýrrar ríkisstj. Það var skoðun okkar, að þeir flokkar er mest höfðu gagnrýnt eyðimerkurgöngu fyrri ríkisstj., ættu að hafa frumkvæði að viðreisn efnahagslífsins.

Okkur til sárra vonbrigða var það ekki skoðun lukkuriddara og flokkaflækinga Alþb. Þeim var meira virði að sinna ímynduðum flokkshagsmunum. en þeirri hugsjón að mynda breiða, sterka hreyfingu vinstri manna til baráttu við þau afturhaldsöfl er þjóðin hafði hafnað. Það var ekki fyrr en Verkamannasamband Íslands hefði sent frá sér áskorun og hvatningu um að taka á, láta hagsmuni sértrúarvillinga í utanríkismálum þoka fyrir hagsmunum launþega, að þessi ríkisstj. komst á laggirnar. Fyrir þeirri áskorun gafst Alþb. upp.

Nú er viðreisnarstarfið hafið. Nú er verið að takast á við vandann. Nú er ríkisstj. í samráði við launastéttirnar í landinu að reisa efnahagslífið úr rústum. Verkefnið er vandasamt. Það er erfitt og tekur tíma. En verði kjarkurinn í fyrirrúmi, fullvissan um að við stefnum inn í betri framtíð, þá er björninn unninn. Þetta verkefni má ekki mistakast. Það yrði ekki aðeins áfall ef þessi tilraun mistækist. Það mundi riðla röðum vinstri manna meira en nokkuð annað.

Því frv. til l., er hér hyggur fyrir, er ætlað að hafa áhrif til lækkunar á verðbólgu. Verðbólgan er fyrirbæri sem hefur tröllriðið íslensku efnahagslífi um árabil. Síðustu árin hefur hraði verðbólgunnar verið geigvænlegri en fyrr og stefnir nú í algert hrun verði ekkert að gert. Menn deila um orsakir verðbólgunnar. Allir þykjast vilja hana feiga, en ekkert gengur glíman við þessa óvætti.

Verkalýðshreyfingin hefur í ályktunum sínum gert tillögur til úrbóta, og engum er það ljósara en hinum almenna launamanni og því fólki, sem á ævikvöldi er bitið af grimmri verðbólgu, að stórvirkasta kjaraskerðingin, illvígasta kaupránið fer fram á báli verðbólgunnar. Verðbólgan er tæki eignatilfærslunnar. Verðbólgan er eftirlæti aðstöðubraskara og eignamanna.

Það er umhugsunarefni, sem reyndar oft er rætt hjá Verkamannasambandi Íslands, að frá árinu 1974 hafa kauptaxtar hækkað um 318,5%, en kaupmáttur verkamannalauna hefur á þessu tímabili aðeins vaxið um 1–2% frá árinn 1974 til dagsins í dag. Þetta segir okkur að krónutöluhækkanir launa segja ekkert til um kaupmáttinn.

Núverandi ástand kallar á aðgerðir og nýjar baráttuaðferðir fyrir auknum kaupmætti. Við sjáum að núverandi ástand er óþolandi. Það er óþolandi fyrir láglaunafólk, fyrir þá sem minnst mega sín, að ekki skuli betur til takast í kjarabaráttunni. Færustu hagfræðingar landsins halda því fram, að verðbólgan éti ofan í sjálfa sig 25% kaupmáttar. Kaupmáttur verkamannalauna eykst því um 25% ef okkur tekst að ná verðbólgunni niður.

Það standa reyndar öll spjót á verkalýðshreyfingunni í dag. Hið eina, sem menn sjá þegar rætt er um verðbólguna, er vísitölubinding launa. Við í verkalýðshreyfingunni teljum að höfuðorsök verðbólgunnar sé stjórnleysi. Vísitala er mælitæki verðlagshækkana. Vísitölunni er ætlað að tryggja umsaminn kaupmátt. Það er umdeilanlegt, hvort vísitalan hafi dugað nógu vel, hvort ástæða sé til breytinga. Það er ekki vilji verkalýðshreyfingarinnar að samningar og vísitala hafi verðbólguhvetjandi áhrif. Okkar vilji er að vernda kaupmáttinn.

Ég tel og reyndar fjölmargir forustumenn Verkamannasambandsins að nú þurfi að brjóta upp á nýjum vinnubrögðum. Verkalýðshreyfingin þarf að taka upp frumkvæði í umr. um vísitöluna og vera opin fyrir breytingum á henni, t.d. að taka tillit til viðskiptakjara. En eitt er víst, að kaupmátt lægstu launa verður að tryggja.

Menn hafa deilt hér um tillögur Alþfl. til úrlausnar á þeim efnahagsvanda er við blasir. Þær tillögur hafa þann stóra kost, að þær eru raunhæfar, sem ekki verður sagt um tillögur þeirra Alþb.-manna. Þeirra framlag er því miður skrum og blekkingar sem er einungis til þess fallið að ala á tortryggni milli samstarfsflokkanna. Ef farið yrði eftir tillögum Alþb. mundi það kosta sömu verðbólguna, meira kauprán, enn meiri kjaraskerðingu en áður hefur þekkst.

Við jafnaðarmenn viljum og ætlum okkur að slást við verðbólguna. Það verður ekki gert með því að ræna þá lægst launuðu. Það verður gert með álögum sem snerta alla og mest þá er mest bera úr býtum. Við jafnaðarmenn höfum bent á að laun þeirra lægst launuðu eru ekki orsök verðbólgunnar. Við viljum að gerðar verði róttækar aðgerðir: að dregið verði úr verðhækkunum búvöru í samræmi við launastefnuna, að tekjuskaflar á almennum launatekjum verði lækkaðir, að verðlagsaðhald verði strangt, en stefnt að nýju kerfi þar sem horfið verði frá prósentuálagningu. Verðlagshækkanir fylgi ekki strax í kjölfar launahækkana. Meðal annarra orða, við viljum ekki Coca-Cola-stefnu í verðlagsmálum.

Við viljum að fjárfestingarstefnunni verði gerbreytt og verði ekki umfram 24–25% af vergri þjóðarframleiðslu. Við viljum að fylgt verði aðhaldssamri stefnu í peningamálum.

Verði þessum tillögum framfylgt vinnum við bug á verðbólgunni. Í raun er það hégómi að deila um það hvort kaup á að hækka um 4% eða 6%. Aðalatriðið er að vernda kaupmáttinn og atvinnuöryggið til frambúðar.

Við Alþfl.-menn viljum enga sýndarmennsku og glamuryrði þegar um launakjör fólksins er að ræða, heldur fullvissuna um að það, sem gert er, verði launþegum til hagsbóta. Í samráði við verkalýðshreyfinguna mun ríkisstj. vinna að hinum ýmsu hagsmunamálum verkafólks og sjómanna, ég endurtek: og sjómanna, því það er skylda okkar að auka og treysta réttindi þeirra til jafns við annað verkafólk.

Á flokksþingi Alþfl. gerði verkalýðsmálanefnd ályktun um þær félagslegu umbætur sem nú er rætt um. og var þess jafnframt krafist að þær fengju forgang í komandi ráðstöfunum. Verkalýðshreyfingin hefur og margoft bent á að slíkar úrbætur yrðu metnar til kjarabóta. Í fyrirliggjandi frv. er myndarlegur kafli um slíkar umbætur sem heitið er að framkvæma. Og eitt er víst, að það verður efnt fái Alþfl. ráðið.

Það er bryddað á því, einkum af sjálfstæðismönnum, að félagslegar úrbætur væru lítils virði sem ekki mætti meta í kaupi. Þær hugrenningar mótast sjálfsagt af því, að í fyrri ríkisstj., sem Sjálfstfl. stýrði, var verkalýðshreyfingin margblekkt til samninga um slík mál sem jafnharðan voru sviknir.

Það frv., en hér liggur fyrir, er áfangi í baráttunni við verðbólguna. Við Alþfl.-menn teljum það ganga of skammt því taka ætti fastara á málum, stýra í beitivind verðbólgunnar. En þessi ríkisstj. hefur aðeins haft þriggja mánaða starfstíma til að reisa úr þeim rústum er hún kom að. Við samþykkjum þetta frv. í von um að næst sjái menn fleira en launamálin, að næst megi betur til takast. Við skulum hafa það í huga, að verði ekkert gert tryllist verðbólgan enn þá meira.

Alþfl. mun því nú sem fyrr taka ábyrga afstöðu. Við stefnum að betra þjóðfélagi, þjóðfélagi réttlætis og jafnaðar, þjóðfélagi betri lífskjara og atvinnuöryggis. Þótt við höfum ekki enn náð því takmarki munum við ótrauðir halda baráttunni áfram, skref fyrir skref þar til sigurinn vinnst. — Góða nótt.