30.11.1978
Efri deild: 21. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1194 í B-deild Alþingistíðinda. (781)

Umræður utan dagskrár

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Áður en umr. fer fram um þetta dagskrármál vil ég leyfa mér að spyrjast fyrir um atriði sem ég tel að miklu varði um störf þingsins.

Sá atburður gerðist hér fyrir nokkrum dögum, að forseti þessarar hv. d. sagði af sér störfum. Ég fæ ekki betur séð en verkefni næsta fundar strax á eftir hefði átt að vera í upphafi að kjósa nýjan forseta. Við höfum ágæta varaforseta, mér er það ljóst, en ég held samt að við komumst ekki fram hjá því að fullnægja þeirri grein þingskapa sem segir að deild skuli kjósa sér forseta. Aðalforseti á að hafa tvo varaforseta. Hér gegnir allt öðru máli heldur en þegar réttkjörinn aðalforseti deildar hefur forföll. Þá koma að sjálfsögðu sjálfkrafa í hans stað fyrri og annar varaforseti. En þegar svo stendur á sem hér er sýnist mér jafnsjálfsagt að kosinn sé nýr varaforseti. Mér þykir líklegt að stjórnarflokkarnir hafi þurft að ræða sín á milli um þetta mál. En þegar svo afdrifarík ákvörðun er tekin sem hér hefur gerst, þá sýnist mér lágmarksskylda þeirra að hafa í höndum aðra lausn þannig að Alþ. geti starfað með eðlilegum hætti.

Ég beini þessari fsp. til hæstv. forseta. Hafi hann ekki svör við þessari fsp. vil ég biðja hann að leita svara hjá þeim sem e.t.v. kynnu betur um þetta atriði að vita. En mér virðist að eðlilegast hefði verið að þessum fundi væri hreinlega slitið og settur nýr fundur þar sem fyrsta dagskrármál væri kosning forseta deildarinnar. Ég held að deildir Alþingis eigi ekki að starfa án þess að þær hafi rétt kjörinn aðalforseta.