30.11.1978
Efri deild: 21. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1196 í B-deild Alþingistíðinda. (785)

Umræður utan dagskrár

Karl Steinar Guðnason:

Mér sýnist að óþarfi sé hjá þdm. að upphefja illgirnislegar aðdróttanir að samþm. sínum þó að gerðar séu athugasemdir um þingsköp. Ég vil taka undir skýringu Þorvalds Garðars á því, hvers vegna ekki er enn búið að kjósa nýjan forseta. Formlega séð erum við með forseta og deildin hefur ekki enn veitt honum lausn. Það verður hins vegar gert þegar þingflokkar stjórnarflokkanna eru búnir að fjalla um málið og þá einkum þingflokkur Alþfl.

Það er nú svo með þau þingsköp sem við störfum eftir, að það segir ekkert um hvernig skuli fara með svona mál. Það segir ekkert um það, að kjósa skuli nýjan mann í stað forseta. Það hefur verið umhugsunarefni fyrir starfsmenn þingsins, hvernig skuli fara með þetta. Ég býst samt við að menn reikni málin þannig, að það skuli gert, og verður það vafalaust gert á næsta fundi deildarinnar á mánudaginn, en þá verður búið að ganga frá þessu máli frá hendi a.m.k. þingflokks Alþfl.