30.11.1978
Efri deild: 21. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1201 í B-deild Alþingistíðinda. (794)

106. mál, ráðstafanir til viðnáms gegn verðbólgu

Frsm. minni hl. (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Hér er til umr. frv. til l. um tímabundnar ráðstafanir til viðnáms gegn verðbólgu. Sá sem les þessa yfirskrift, en ekki efni frv., hlýtur að ímynda sér, að viðnámið verði varanlegt, verðbólgan aftur á móti á hröðu undanhaldi og ráðstafanirnar, sem til er gripið rétt til bráðabirgða, séu tímabundnar, en standi ekki til langframa. En allar þessar ályktanir yrðu rangar.

Hér er gert ráð fyrir því, að verðbólgan haldi sínu striki. Vöxtur hennar 1. febr. er undir ýmsu kominn, ekki síst því, hvernig fer um fiskverðshækkunina, hversu fljótt hinna gífurlegu og fyrirsjáanlegu olíuverðshækkana fer að gæta hér á landi, m.ö.o. hvort unnt reynist að draga óhjákvæmilega gengisfellingu fram yfir 1. febr. og láta gengissig sem svarar 6–10% duga eða ekki. Viðnám gegn verðbólgu er því næsta skrautlegur orðaleppur og meira sannmæli að kenna frv. við gálgafrest á verðbólgu, eins og nánar verða færð rök fyrir síðar í ræðu minni. Loks er talað um tímabundnar ráðstafanir.

Kjarni frv. og það eina, sem raunverulega skiptir máli, er að verðbótavísitalan er skert um 8% og ákveðið að hún skuli vera 151 stig. Í framkvæmdinni munn þrjú þeirra að vísu greidd niður, eða fyrirheit er a.m.k. um það gefið, en hversu svo sem því verður háttað er gengið út frá 8% skerðingu verðbótavísitölunnar. Þessi skerðing gengur svo út yfir bætur almannatrygginga, sbr. 5. gr. Um aðrar ráðstafanir er ekki að ræða, hvorki tímabundnar né ótímabundnar. Kaupskerðingin ein blífur, og svo eru einhvers konar fyrirheit, einhverjar hillingaborgir úti í blámóðu loforðanna sem seiða bug stjórnar Verkamannasambands Íslands og seiða í sólbjartri þrá, svo að henni sýnist lagasproti hæstv. forsrh. hafa opnað himininn blá. Nei, heiti þessa frv., sem hér liggur fyrir, er sannarlega rangnefni og hefði betur verið nefnt: „Frv. til l. um 8% skerðingu verðbótavísitölu til að fá gálgafrest á verðbólgunni.“

Í Landnámu segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Þeir Flóki sigldu vestur yfir Breiðafjörð og tóku þar land, sem heitir Vatnsfjörður við Barðaströnd. Þá var fjörðurinn fullur af veiðiskap, og gáðu þeir eigi fyrir veiðum að fá heyjanna, og dó allt kvikfé þeirra um veturinn. Vor var heldur kalt. Þá gekk Flóki upp á fjall eitt hátt og sá norður yfir fjöllin fjörð fullan af hafísum; því kölluðu þeir landið Ísland, sem það hefur síðan heitið. Þeir Flóki ætluðu brott um sumarið og urðu búnir litlu fyrir vetur. Þeim beit eigi fyrir Reykjanes, og sleit frá þeim bátinn og þar á Herjólf; hann tók þar sem nú heitir Herjólfshöfn. Flóki var um veturinn í Borgarfirði og fundu þeir Herjólf. Þeir sigldu um sumarið eftir til Noregs. Og er menn spurðu af landinu, þá lét Flóki illa yfir, en Herjólfur sagði kost og löst af landinu, en Þórólfur kvað drjúpa smjör af hverju strái á landinu, því er þeir höfðu fundið; því var hann kallaður Þórólfur smjör.“

Í Eiríks sögu hins rauða segir, með leyfi hæstv. forseta: „Það sumar fór Eiríkur að byggja land það, er hann hafði fundið og hann kallaði Grænland, því að hann kvað það menn mjög mundu fýsa þangað, ef landið héti vel. Svo segir Ari Þorgilsson, að það sumar fór hálfur þriðji tugur skipa til Grænlands úr Breiðafirði og Borgarfirði, en 14 komust út; sum rak aftur, en sum týndust.“

Nú kann sumum hv. þm. að þykja það undarlegt, að ég sjái ástæðu til að rifja upp Íslendingasögur af því tilefni að ég hef hér framsögu fyrir minni hl. fjh.- og viðskn. En tilefnið er það, að ekki segir alla sögu hvað hlutirnir eru kallaðir. Meira skiptir hvaða hugarfar liggur á bak við nafngiftina, hvort fyrir þeim, sem hana gefur, vakir að vera sem Herjólfur og segja kost og löst á landinu eða haga sér eins og Eiríkur rauði að skíra því nafni sem helst villir um fyrir mönnum. Það er háttur þeirra manna, sem ekki treysta sér til að vinna málstað sínum fylgis með efnisrökum, að skírskota til eins og annars sem tekið er úr samhengi, festa sig við eitt vísuorð í miklu kvæði. Gott dæmi um þetta var ræða hæstv. viðskrh. í Nd., þegar hann þóttist gera launasamanburð til þess að sanna ágæti og væntumþykju núv. hæstv. ríkisstj. í garð launafólks. Í þeim samanburði tók hann dæmi af maímánuði 1977, eins og krafa verkalýðshreyfingarinnar hefði staðið um það að halda þeim kaupmætti sem gilti áður en sólstöðusamningarnir voru gerðir. Í rauninni þarf ekki meira um þann samanburð að segja, hugarfarið á bak við hann var hið sama og hjá Eiríki rauða með Grænland á vörunum og frammistaðan að öðru leyti var sömu ættar. Þannig vék hann ekki einn orði að aðsteðjandi vanda, þótt hann þættist vera að gera grein fyrir afstöðu Alþb. til þess frv. sem hér liggur fyrir. Menn voru jafnnær og áður um viðskiptakjör þjóðarinnar og horfur í þeim efnum. staða atvinnuveganna var jafnóljós og áður að ekki sé minnst á hag ríkissjóðs. Erindi hæstv. viðskrh. í ræðustól hins háa Alþingis var ekki til þess að skýra frá viðhorfum í þeim efnum. Það var aukaatriði, en hitt þótti honum skipta meira máli, að tíunda kröfur Alþýðusambands Íslands til ríkisstj. í ótal liðum.

Þeir, sem á þingi hafa setið, hafa heyrt óskalista lesna upp áður og gera sér grein fyrir að hvorki er mögulegt né til þess ætlast að þeir séu allir framkvæmdir samtímis og fyrirvaralaust. Á hinu lék mönnum þess vegna forvitni, hver viðbrögð ríkisstj. hefðu orðið, hversu miklu fjármagni ríkisstj. hygðist kosta til þess að tryggja það sem kallað er vinnufriður, þótt stöðvun og ólögleg verkföll vofi yfir á þriggja mánaða fresti, jafnvel útflutningsbönn í því skyni gerð að koma sjávarútveginum um koll, eins og við munum dæmin um frá fyrri hluta þessa árs. Sú reynsla kenndi okkur þá lexíu, að ýmsir af forustumönnum verkalýðshreyfingarinnar eru ekki vanda sínum vaxnir, heldur fórna hagsmunum lægst launaða fólksins fyrir flokkspólitíska hagsmuni sjálfra sín, og má með sanni segja að metnaður slíkra manna þrútnar svo skjótt af metorðunum sem lítill lækur af miklu regni.

Í stefnuræðu sinni komst hæstv. forsrh. svo að orði, að það væri sjálf forsenda stjórnarsamstarfsins að komið yrði á traustu samstarfi fulltrúa launþega, atvinnurekenda og ríkisvalds, sem miðaði m.a. að því að treysta kaupmátt launatekna, jafna lífskjör og tryggja vinnufrið. Allt eru þetta falleg orð, skrautblóm á akri íslenskunnar.

En því miður hefur það reynst svo, að alvaran á bak við þau var engin. Hæstv. forsrh. hefur ekki lagt sig fram um samstarf við aðila vinnumarkaðarins. Þannig hefur hann aðeins haldið einn fund með samstarfsnefnd þessara aðila þar sem vinnuveitendur voru boðaðir, þótt tveir slíkir fundir hafi síðar verið haldnir með fulltrúum Alþýðusambands Íslands sérstaklega. Þessi þróun mála er athyglisverð. Hún sýnir ljóslega að hæstv. forsrh. telur að vinnuveitendur séu minni máttar í því stríði sem að undanförnu hefur farið fram hér á landi um skiptingu þjóðarkökunnar. Því kýs hann að halla sér frekar að launþegum og þá í þeirri þröngu merkingu sem eru þeir pólitísku fulltrúar sem Alþb. og Alþfl. eiga í launþegasamtökunum og beittu sér mest og best fyrir því á öndverðu þessu ári að eyðileggja þær annars heilbrigðu efnahagsráðstafanir, sem núv. hæstv. forsrh. stóð þó að, og spilla árangri þeirra.

Nú erum við aftur komin að því, hvort menn kjósa að nefna hlutina réttum nöfnum. Þegar hæstv. forsrh. lýsti því yfir í stefnuræðu sinni, að hann mundi hafa náið samráð við aðila vinnumarkaðarins, skildi þorri landsmanna það svo, að fyrir honum vekti að samræma ítrustu launakröfur greiðslugetu atvinnuveganna. Öðruvísi varð það ekki skilið. Í því samhengi er svo rétt að líta á það frv. sem hér liggur fyrir, lesa grg. þess vandlega og íhuga hvað að baki hennar liggur. Og þá vekur það strax athygli, að hvergi er gerð grein fyrir stöðu atvinnuveganna. En er það ekki einmitt vegna þess, hversu bág hún er, sem þessar efnahagsráðstafanir eru nauðsynlegar? Liggur ekki einmitt fyrir að atvinnureksturinn í landinu rís ekki undir því sem á hann hefur verið lagt? Ef svo væri ekki væri ekki heldur um neitt vandamál að ræða. Þá gætu verðlagsbæturnar óhindrað gengið yfir án þess að til stöðvunar og atvinnuleysis þyrfti að koma. Að þessu er því ekki ýjað einn orði. En áberandi er hitt, að hugmyndin er að binda atvinnurekstrinum nýja bagga og ekki litla fyrirferðar. Á hann á að leggja hátekjuskatt og veltuskatt á ýmiss konar rekstur, ásamt sérstökum fasteignaskatti og eignarskatti umfram það sem verið hefur. Gefur þetta sérstakt tilefni til þess að spyrja hæstv. forsrh. á hvaða rökum sú skoðun sé reist, að atvinnureksturinn geti fremur staðið undir slíkum útgjöldum en umsömdum launagreiðslum. Það gefur líka tilefni til að spyrja hæstv. forsrh. um það, hvað hann reikni með að hinar auknu álögur á atvinnureksturinn í landinu nemi mörgum verðbótavísitölustigum.

Staða atvinnuveganna um þessar mundir er í stuttu máli þannig: Fiskvinnslan er enn rekin með tapi þrátt fyrir gengisfellinguna í byrjun september. Stórfelldar hækkanir 1. des. og væntanlega 1. jan. n.k. munu leiða 3.5–4.5% halla samkv. gögnum Þjóðhagsstofnunar, gögnum sem aðilar í atvinnugreininni telja að vanmeti um minnst 2%, aðallega vegna vanmetinna vaxtagreiðslna þannig að áætlað tap í janúar yrði því um a.m.k. 6%. líkur á gengisfellingu í janúar yrðu því mun meiri en nú er.

Staða fiskveiðanna er sem þér segir: Bátar, án loðnu, um 11% tap, smærri skuttogarar um 1% tap, stærri skuttogarar um 8% tap. Þessar tölur eru byggðar á ársreikningum frá 1976, en samkv. upplýsingum aðila í atvinnugreininni varð rekstur útgerðarinnar 1977 mun þyngri en 1976. Því má svo bæta við, að miklar olíuverðshækkanir hafa átt sér stað að undanförnu, en til þeirra hefur ekki verið tekið tillit hér.

Í verksmiðjuiðnaðinum hefur afkoman farið versnandi og hagnaður eftir skatta minnkandi. Ekkert bendir til að þetta sé að breytast. Skattlagning þeirrar ríkisstj., sem þegar er komin til framkvæmda, kostar iðnaðinn milli 400 og 500 millj. kr. Nú er meiningin að auka skattheimtuna enn frekar, og er það gert á sama tíma og tollar af innfluttum iðnaðarvörum eru felldir niður. Afleiðinguna má sjá í hendi sér: Samkeppnisstaða íslenskra iðnaðarvara fer sífellt versnandi, gjaldeyriseyðslan eykst og viðskiptakjörin versna. Allt verður þetta til að ýta áfram undir frekari gengisfellingar.

Í byggingariðnaðinum horfir nú fram á lægð sem miklar líkur eru á að sé mun dýpri en sú venjulega árstíðarsveifla sem þekkist í þessari atvinnugrein. Helsta orsök þessa er stórfelldur fjármagnsskortur, og er því mikil hætta á atvinnuleysi, því að eins og allir vita er þetta atvinnugrein sem skapar mjög atvinnutækifæri.

Um járniðnaðinn er það að segja, að þessi grein er komin algerlega á heljarþröm. Skipasmíðaiðnaður er að leggjast niður og er nú svo komið, að einungis á tveimur stöðum í landinu, Akureyri og Akranesi, hafa skipasmíðastöðvar verkefni til nýsmíða á næsta ári. Skipasmíðastöðin Stálvík í Garðabæ hefur t.d. ekki fengist við nýsmíði í um hálfi ár nú. Lítið er nú um viðgerðir, og það, sem framkvæmt er, fæst ekki greitt vegna erfiðleika þeirra atvinnugreina sem járniðnaðurinn þjónar.

Eftirfarandi þróun sýnir vel hvert stefnir í versluninni, ef olíuverslun er tekin undan. Hér skal rakin þróun brúttóhagnaðar verslunar sem hlutfalls af tekjum síðan 1975. Þá var það 2.9%, 1976 2.8%, 1977 3.1%, 1978 1.6%. Þarna er miðað við júlískilyrði, en ekki hefur verið tekið tillit til áhrifa gengisfellingarinnar í september, en þá var 30% reglunni enn beitt og versnaði staðan enn frekar samkv. því. Þessi vonda staða hefur svo speglast greinilega í yfirlýsingum og ummælum forsvarsmanna Sambands ísl. samvinnufélaga nýverið, þar sem fram kemur að öll kaupfélög landsins eru rekin með halla.

Í stuttu máli: Staða atvinnuveganna er mjög slæm. sérstaklega lausafjárstaðan. Sífelldar breytingar á ytra umhverfi gera alla áætlunargerð úrelta á skömmum tíma, en það leiðir aftur til þess, að erfitt er að byggja upp til að auka framleiðni fyrirtækjanna. En það er eina raunhæfa leiðin til þess að tryggja landsmönnum öllum sambærileg kjör og þekkjast meðal nágrannaþjóða okkar.

Þegar rætt er um kaupmátt launa verða menn að gera sér grein fyrir því, við hvað eigi að miða þennan kaupmátt og hvernig sé eðlilegt að hann þróist. Allir hljóta t.d. að vera sammála um það, að hann þróist í takt við þróun þjóðartekna á hverjum tíma Ég vil leyfa mér að minna á að áætlanir Þjóðhagsstofnunar í þeim efnum eru ekki allt of bjartar. Aukning þjóðarteknanna var talin nema tæpum 8% á síðasta ári, en um 1% á því næsta, 1979, og er því augljóst að kjör þjóðarinnar eiga eftir að rýrna þar sem afborganir og vextir af erlendum lánum og fólksfjölgunin kalla á um 2.5% aukningu á hverju ári, einungis þessir tveir liðir.

Kjarninn í því frv., sem hér liggur fyrir, er að lögfesta það að kaupgjaldsvísitalan skuli vera 151 stig á tímabilinu frá 1. des. til 1. mars. Guðfaðir hæstv. ríkisstj., hv. 1. þm. Austurl., Lúðvík Jósepsson, lætur í veðri vaka að með þessari skerðingu verðbótavísitölunnar sé í rauninni ekkert tekið frá launþegum, af þeim sé að vísu tekinn digur sjóður, en peningalaun séu ekki allt, það geti komið sér vel fyrir verkamanninn í Norðfirði að upp rísi dagvistarheimili í Breiðholti, eða svo eiga orð hans að skiljast. Þessi hv. þm. var formaður á fundum fjh.- og viðskn. beggja deilda. Þar var hann inntur eftir því, í hverju hinar félagslegu umbætur væru fólgnar og hafði hann ekki eitt einasta orð um það að segja, ekki vildi hann heldur lýsa því, með hvaða hætti ætti að breyta tekjuskattslögunum í samræmi við 2. gr. Svo virtist sem hann hefði ekki minnstu hugmynd um fyrirætlanir stjórnarinnar í þeim efnum. Verður þá næsta örðugt að sjá hvernig hann getur haft forustu um það, að meiri hl. fjh.- og viðskn. beggja d. hefur nú komist að þeirri niðurstöðu, að þessar fyrirhuguðu ráðstafanir muni nema sem svarar 5 prósentustigum kaupgjaldsvísitölunnar. Hins vegar mættu fulltrúar Alþýðusambands Íslands á þessum fundi, og þeir virtust hafa nóg um þetta mál að segja og buðust meira að segja til að láta minni hl. í té upplýsingar um það, sem ríkisstj. og þeim hefði farið á milli. Var svo að skilja, að þeir vissu meira um þessi mál en hv. 1. þm. Austurl., Lúðvík Jósepsson, því að ekki hvarflar að mér að hann hafi af ásettu ráði leynt þn. upplýsingum sem svo beinlínis vörðuðu það mál sem á dagskrá var sem hinar félagslegu umbætur gerðu í þessu tilviki.

„Eldi heitari

brennur með illum vinum,

friður fimm daga,

en þá slokknar,

er hinn sjötti kemur,

og versnar allur vinskapur.“

Enginn er ég spámaður, en ekki get ég að því gert, að það hvarflar stundum að mér þegar ég frétti af þeim náin samskiptum, af þeirri eldheitu vináttu sem virðist vera milli hæstv. forsrh. og formanns Alþýðusambands Íslands, að vera megi að vinátta þeirra hafi ekki skotið djúpum rótum. Kröfugerð Alþýðusambands Íslands er að mörgu leyti ekki þann veg vaxin að ekki liggi meira undir. Það má því vel fara svo, áður en langt um líður, að hinn sjötti dagur renni upp og allur vinskapur versni, að hæstv. forsrh. þykist sárt leikinn og sjái eftir á hver brögð voru í tafli. Á þeirri stundu reynir á hvern mann hann hefur að geyma, hvort bann hefur þrek til að rísa öndverður gegn því sem hann hopar nú undan.

Eitt höfuðskilyrði fyrir því, að stjórn Alþýðusambands Íslands féllst á að láta kyrrt liggja nú þótt almenn kaunakjör yrðu skert svo mjög sem raun ber vitni, var það, að til Félagsmálaskóla alþýðu skyldu renna þegar á næsta ári 50 millj. kr. og 30 millj. kr. til Menningar- og fræðslusambands alþýðu, að því er heyrst hefur. En eins og fram hefur komið fékk minni hl. engin svör, hvorki til né frá, við flestum spurningum sínum í fjh.- og viðskn., þegar leitað var eftir nánari skýringum á því hvað raunverulega fælist í þessu frv. Nú er það svo um orðið alþýðu í ýmsum samböndum, að það minnir á lýsingarorðið grænn í merkingunni Grænland, þegar það í rauninni merkir ís og hjarn. Þó er orðið grænn eitt út af fyrir sig skylt gróandanum. Eins höfðar orðið alþýða til þess fólks hér á landi sem býr að sínu, gerir skyldu sína, er hrekklaust og umfram allt góður þegn, góður borgari hins íslenska ríkis. Á yfirborðinu virðist það sjálfsagt og eðlilegt, að Félagsmálaskóla alþýðu og Menningar- og fræðslusambandi alþýðu sé ætlað svo og svo mikið af ríkisfé. En málið er ekki svona einfalt. Ekkert félag, engin stofnun er annað og meira en þeir menn sem henni stjórna, ráða ferðinni og hafa í hendi sér hvað fram fer.

Skömmu eftir síðustu mánaðamót hélt verkalýðsmálaráð Alþb. ársfund sinn. Ekki þarf að efa að þar hafi verið mikið um dýrðir og ekkert til sparað að gera hann sem glæsilegastan, enda fer það ekki fram hjá neinum, að Alþb. hefur ekki skort fé til hvers konar fjárfestingar, útbreiðslu- og auglýsingastarfsemi. Mér hefur verið sagt, að það sé misskilningur minn að Alþb. fái fé erlendis frá, heldur sé fjársöfnun þess m.a. í því fólgin, að félagsmenn láti ótaldar fjárhæðir falla í plastfötu þegar fundir eru haldnir, með ólíkindum sé hversu mikið þeir fátækustu gefa, jafnvel ekkjurnar.

Allir muna líka þá miklu auglýsingaherferð sem kostuð var af verkalýðshreyfingunni á öndverðu þessu ári í þeim eina pólitíska tilgangi að klekkja á þeim flokkum sem þá voru í ríkisstj. Í sambandi við málaleitan Alþýðusambands Íslands nú um svo og svo marga tugi eða hundruð milljóna sér til handa af ríkisfé væri fróðlegt að fá upplýsingar um hverju auglýsingareikningar í Ríkisútvarpinu námu á öndverðu þessu ári, hversu miklu fé Alþýðusamband Íslands kostaði til alls konar ferðalaga og risnu í þeim flokkspólitíska tilgangi að hnekkja ríkisstj. Eins og hv. þdm. er kunnugt nema félagsgjöld verkalýðshreyfingarinnar 0.75% og upp í 1% af launum manna, auk sjúkra- og orlofsgjalda, þar sem um þau hefur verið samið. Þegar það er haft í huga, að heildarlaunagreiðslur í landinn, fyrir utan bændur og sjómenn, eru um 300 milljarðar kr. miðað við verðlag í dag, sést að þetta er ekki lítið fé, þótt jafnframt sé hliðsjón af því höfð, að misjafnar reglur gilda um það í hvaða mæli og hvort félagsgjöld skuli greidd af eftirvinnu, ákvæðisvinnu eða þeim yfirborgunum sem sérstaklega er um samið, svo að dæmi séu tekin. Varlega áætlað má þó gera ráð fyrir að stærðargráðan sé 1 milljarður kr. hjá félögum Alþýðusambands Íslands, miðað við það kaupgjald sem nú gildir í landinu, en þar er um 47–48 þús. félagsmenn að tefla. Af þessu fé drýpur drjúgur dropinn til Alþýðusambands Íslands eða um 80 millj. kr. á þessu ári eftir þeim upplýsingum sem ég hef. Svo á að heita að hin almennu stéttarfélög úti um landið eigi að fá svo og svo mikla þjónustu þar á móti, og eflaust er hún einhver. En þó er mikið kvartað undan því, að hún sé ekki borgunarinnar virði. Hitt er sönnu nær, að yfirbygging Alþýðusambands Íslands vaxi með hverju árinn og er tilgangurinn ekki alltaf sá að gefa launþegum sem fyllstar upplýsingar um það hvers sé að vænta, né gæta hagsmuna þeirra, segja kost og löst, svo sem Herjólfur forðum. Í þeim efnum er farið eftir pólitískri yfirstjórn Alþýðusambandsins fremur en faglegri. Hin pólitísku markmið hafa orðið þar ofan á hin síðustu missiri.

Vegna kröfu Sjálfstfl. voru aðilar vinnumarkaðarins kvaddir til fundar hjá fjh.- og viðskn., og fannst þar á ýmsu að allir voru ekki sértaklega hrifnir af því. Þar kom það m.a. fram, að fulltrúi Verslunarráðsins spáði því, að verðbótavísitalan mundi hækka um 11 stig 1. febr. Þegar ég svo spurði hagfræðing Alþýðusambands Íslands um það, hvaða spá hann hefði gert í þessum efnum, fékk ég þau svör, að Alþýðusambandið yrði að bíða eftir 1. febr.

Ég hef ekki við höndina öll þau línurit og dreifibréf sem Alþýðusambandið gaf út á öndverðu þessu ári um verðlagsþróunina, til þess að það yrði lýðum ljóst að óvinir fólksins í landinu sætu þá í ríkisstj. En mér kom í hug sagan af karlssyni, sem átti Lítil og Trítil og fuglana að og var þess vegna umkominn þess að reka fjaðrirnar þrjár upp í nefið á tröllskessunni. Fyrir réttu ári, eða hinn 26. nóv., kom sambandsstjórn Alþýðusambands Íslands saman og gerði svofellda ályktun, með leyfi hæstv. forseta:

„Kjarasamningarnir frá s.l. vori voru að sjálfsögðu gerðir í trausti þess, að við þá yrði staðið í einu og öllu af ríkisvaldinu og samtökum atvinnurekenda. Bregðist það hafa þessir aðilar fyrirgert því trausti sem til þeirra hefur verið borið sem heiðarlegra viðsemjenda og það því fremur sem engar forsendur samninganna hafa breyst til hins lakara frá því er þeir voru undirritaðir. Ef svo færi hlyti það að leiða til mikilla átaka á vinnumarkaðinum sem mundu magna allan efnahagslegan vanda og auka á verðbólgu. Sambandsstjórnin hlýtur því að vara bæði ríkisvaldið og atvinnurekendur mjög alvarlega við því að hrófla í nokkru við þeim skuldbindingum sem samningarnir fela í sér.“

Þessi ályktun var síðan ítrekuð á miðstjórnarfundi Alþýðusambandsins hinn 2. febr. — 8 dögum síðar komst forseti Alþýðusambands Íslands svo að orði í Þjóðviljanum, með leyfi hæstv. forseta:

„Ég gerði forsrh. og öðrum viðstöddum á fundinum grein fyrir því, að í efnahagsráðstöfunum ríkisstj. fælist alger grundvallarbreyting á vísitölukerfinu, ætlun þeirra væri greinilega að svipta verkalýðshreyfinguna frelsi til samninga um þessi mál til frambúðar og í þessum ráðstöfunum fælist meiri kjaraskerðing en nokkurn viti borinn mann hefði getað órað fyrir. Ég álít að þetta hljóti að þýða að verkalýðshreyfingin grípi til harðari aðgerða en ella og þær komi fyrr.“

Hinn 23. febr. samþykkti Alþýðusamband Íslands, með leyfi hæstv. forseta:

„Með tilvísun til ályktunar miðstjórnar 10. febr. s.l., formannaráðstefnu Alþýðusambands Íslands 15. febr. s.l., samráðsfunda samtaka launafólks og þeirra ráðstefna, sem haldnar hafa verið í öllum landshlutum undanfarna daga, samþykkir miðstjórn Alþýðusambands Íslands og 10 manna nefnd þess að skora á öll aðildarsamtök Alþýðusambands Íslands og félagsmenn þeirra að leggja niður vinnu 1. og 2. mars n.k. sem fyrstu aðgerðir til að mótmæla þeirri gífurlegu kjara- og réttindaskerðingu, sem felst í lögum þeim um efnahagsráðstafanir sem meiri hl. Alþ. hefur nýverið samþykkt fyrir forgöngu ríkisstj. Kjörorð baráttunnar er: Samningana í gildi.“

Hinn 4. mars er birt í Þjóðviljanum ræða núv. formanns Alþýðusambands Íslands, sem lýkur með þessum orðum, með leyfi hæstv. forseta:

„Sameinuð, hönd í hönd, skulum við ganga til þeirrar baráttu, sem fram undan er, undir kjörorðinn: Samningana í gildi.“

Í ávarpi útifundar á vegum Alþýðusambands Íslands, Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, launamálaráðs Bandalags háskólamanna, Farmanna- og fiskimannasambands Íslands og Iðnnemasambands Íslands á Lækjartorgi 1. mars 1978 segir svo m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Áform ríkisstj. um að takmarka samningsrétt með skerðingu á vísitöluákvæðum kjarasamninganna er tilræði við frjálsan samningsrétt launþegasamtakanna á Íslandi. Íslensk alþýða! Sýnum órofa samstöðu, sameinumst öll undir kröfuna: kjarasamningana í gildi.“

Í yfirlýsingu Alþýðusambands Íslands frá því í mars segir m.a., með leyfi hæstv. forseta: „Bráðabirgðalausn, sem veltir byrði verðbólgunnar á

launafólk, leysir ekki vandann, heldur magnar hann.

Vísitölukerfið veitir stjórnvöldum nokkurt aðhald í verðlagsmálum.“

Og hinn 13. maí segir núv. formaður Alþýðusambands Íslands í Þjóðviljanum, með leyfi hæstv. forseta:

„Við setjum tvö grundvallarskilyrði fyrir einhvers konar samkomulagi: annars vegar að verðbætur komi á kauptaxta og hins vegar að launaleiðréttingar nái til það mikils hluta af félögum Alþýðusambands Íslands að yfirleitt sé nokkur glóra að hvika frá kröfunum um samningana í gildi yfir línuna.“

Allar þessar tilvitnanir sýna að á öndverðu þessu ári vakti það fyrst og fremst fyrir forustumönnum Alþýðusambands Íslands að beita sér í þeim flokkspólitíska tilgangi að koma ríkisstj. á kné og ljá ekki máls á neinni lausn þess verðbólguvanda sem yfir vofði. Fyrir þeim vakti að greypa þá mynd af ríkisstj. í hugum fólksins, að þar væru vondir menn sem af illu innræti ættu sér ekki aðra ósk heitari en níðast á hinum almenna launamanni. Að öðrum kosti hefði orðið kauprán ekki orðið þeim jafntungutamt og raun ber vitni. Rán og ribbaldaháttur er gjarnan nefnt í sömu andránni og þykir ekki lýsa þokkalegum mannkostum, allra síst þegar slíkar gripdeildir ganga fyrst og fremst og eingöngu út á það að ræna menn arði vinnu sinnar, en láta hina í friði sem betur mega sín. Nú má vera að sumum hv. þm. þyki slíkar mannlýsingar léttvæg orð, sögð í hita kosninga, að ómerk séu ómagaorðin og að ekki beri að skilja þau eftir merkingu þeirra. En það er þá ekki við þá að sakast sem á hlýða og þýða fyrir sjálfum sér orðanna hljóðan.

Framhaldið kunna allir. Í síðustu alþingiskosningum vannst frægur sigur undir kjörorðinu „samningana í gildi“. Menn skyldu því vænta þess, að hagur Strympu hafi hækkað.

Allir vita að hæstv. ríkisstj. er fjarstýrð frá „kontor“ Alþýðusambandsins að Síðumúla. Nú ætti að vera vandalaust að tryggja öllum launþegum refjalaust þann kaupmátt sem fólst í sólstöðusamningunum og þeirri samningagerð sem síðar fór fram. „En ef gullið er ógnægra til en viljinn að gefa, þá láttu eigi ástina minnka þótt fækki gjafirnar. Með fögrum heitum skaltu lokka liðið að þér og efna það er þú heitir þegar föng eru á.“ Þvílík ráð kenndi Aristóteles Alexander mikla og öll varðveitti hann þau sér í brjósti. Nú girnist hann einskis annars en ryðja sér til ríkis með oddi og eggju, og segir þar, með leyfi hæstv. forseta: „Og það gerir hann sér þegar í bug, að ekki vætta mundi við honum rönd reisa, svo geisar nú og hátt hans ofsi, að hann þykist nú öllum heiminum stýra.“ Það er fjarri mér að líkja þeim mönnum, sem standa í forsvari fyrir Alþfl., Alþb. eða Alþýðusambandið við þá Aristóteles og Alexander mikla. En stundum er óhjákvæmilegt að lyfta hlutunum upp í annað veldi til þess að þeir séu skýrari fyrir mönnum.

Í þessu samhengi er nauðsynlegt að menn átti sig á hvaða skýringar forustumenn Alþb. gefa á úrslitunum í vor, og vitna ég í þeim efnum til ræðu hæstv. viðskrh. Svavars Gestssonar á ársfundi verkalýðsmálaráðs Alþb. 4. nóv. s.l., en þar sagði hann, með leyfi hæstv. forseta:

„Með því að stilla saman verkalýðshreyfinguna, flokkinn og blaðið tókst að ná glæsilegum árangri í bæjarstjórna- og þingkosningunum s.l. vor.“ — Ég endurtek, með leyfi hæstv. forseta: „Með því að stilla saman verkalýðshreyfinguna, flokkinn og blaðið tókst að ná glæsilegum árangri í bæjarstjórna- og þingkosningunum s.l. vor.“

Svo mörg voru þau orð og innihaldsrík að því leyti, að ekki þarf héðan af að vera ágreiningur um að verkalýðshreyfingunni hafi verið beitt í pólitísku skyni, a.m.k. að því marki, sem Alþb. hafði afl til. Þarna er berlega sagt. að pólitísk yfirstjórn hafi verið á aðgerðum þessara þriggja aðila: verkalýðshreyfingarinnar, Alþb. og Þjóðviljans. Hin faglega verkalýðsbarátta var látin lönd og leið og skellt skollaeyrum við því, þótt lægst launaða fólkið í landinu yrði og verður enn í dag að sæta verri lífskjörum en ella, eingöngu vegna þessa að það hentar þeim mönnum, sem hafa það að pólitísku markmiði að koma á sósíalistískum búskaparháttum hér á landi.

Það var ljóst strax með efnahagsráðstöfunum ríkisstj. í sept., að þeir menn réðu ferðinni sem höfðu annað að markmiði en að skapa atvinnuvegunum þann rekstrargrundvöll sem einn dugir til þess að tryggja betri kaupmátt í landinu. Þetta lýsir sér enn betur í því frv. sem hér liggur fyrir. Fjandskapurinn í garð hins frjálsa framtaks leynir sér ekki, og óðfluga stefnir í þá átt að grundvallaratvinnuvegir þjóðarinnar verði ekki reknir nema með opinberum styrkjum sem fyrst og fremst munu ganga til þeirra sem eru yfirvöldunum þóknanlegir. Þetta kom m.a. fram á fundi fjh.- og viðskn. í fyrirspurn eins af stuðningsmönnum hæstv. ríkisstj. þegar hann spurði formann Landssambands ísl. útvegsmanna að því, hvort það gæti ekki komið útveginum til góða ef opinberar styrkveitingar yrðu veittar honum til handa. Ekki voru gefnar á þessu nánari skýringar, enda komið svo að alþm. frétta það síðastir allra hvað ríkisstj. hyggst fyrir þótt eftir svörum sé leitað.

Nú kynnu menn að spyrja hvort Eyjólfur sé ekki að hressast~, hvort forustumenn Alþýðusambands Íslands séu ekki að vitkast og þess megi vænta, að þeir hafi meiri skilning á því en áður að þjóðareining þurfi að nást til þess að vinna bug á verðbólgunni. Þessu er því til að svara, að nú fyrir þessar aðgerðir stóð hvorki á Framsfl. né Alþfl. að marka stefnu í efnahagsmálum til frambúðar, en Alþb. stóð þar í vegi fyrir og samstillti svo krafta verkalýðshreyfingar, flokks og blaðs að því varð ekki um þokað. Bráðabirgðaráðstafanir skyldu það vera.

Í þessu sambandi skulum við gera okkur grein fyrir því, að innan Alþb. og verkalýðsfulltrúa þess eru sterk öfl sem ekki mega til þess hugsa að ríkisvaldið, hvað þá atvinnurekendur, eigi aðild að Félagsmálaskóla alþýðu. Þessir menn líta ekki á þá stofnun sem fræðslustofnun í þeim skilningi, að trúnaðarmenn í stéttarfélögum, hvar sem þeir standa í flokki, geti sótt þangað þá fræðslu sem þeir vilja leita eftir. Þvert á móti er tilgangurinn að annast þar pólitískt uppeldi í því skyni að festa Alþb. í sessi innan verkalýðshreyfingarinnar og í krafti þess að brjóta niður það frjálsa þjóðskipulag sem við höfum búið við hér á landi. Þessi viðhorf Alþb. komu skýrt fram í ræðu hv. 3. landsk, þm., Ólafs Ragnars Grímssonar, hinn 22. nóv. s.l. þegar hann sagði m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Ég held að það sé nauðsynlegt að menn geri sér grein fyrir því alveg skýrt og skorinort, að Félagsmálaskóli alþýðu er ekki aðeins almenn menntastofnun, er ekki aðeins ætlað að vera almennur liður í fræðslukerfi landsins, fullorðinsfræðslu, eins og hv. síðasti ræðumaður, fyrrv. menntmrh. Vilhjálmur Hjálmarsson, fjallaði um, heldur hefur honum hingað til og verður í framtíðinni fyrst og fremst ætlað það hlutverk að vera baráttutæki samtaka launafólks fyrir breyttu þjóðfélagi, fyrst og fremst til þess að manna verkalýðsfélögin á þann veg með þekkingu og þjálfun að þau geti náð betri árangri í baráttu gegn samtökum atvinnurekenda, í baráttu gegn fjandsamlegu ríkisvaldi, heldur en þau hafa náð hingað til. Þess vegna held ég að það sé höfuðatriði fyrir alþýðusamtökin í þessu landi að þau fari sjálf með óskorað forræði yfir menntunarmálum sinna meðlima.“

Síðar í ræðu sinni lét þessi hv. þm. í ljós ótta sinn við það, að annar meiri hl. kynni að vera á Alþingi en nú, þannig að það gæti orðið hættulegt fyrir verkalýðssamtökin í landinu að félmrh. skipaði einn stjórnarmann af þremur. Fjölmargir af helstu forustumönnum verkalýðshreyfingarinnar væru sama sinnis, en sjálfur kvaðst hann hafa staðnæmst við 100 millj. kr. sem hæfilegt framlag ríkissjóðs til handa Félagsmálaskóla alþýðu þó svo ríkisvaldið hefði ekkert um það að segja hvað þar færi fram.

Ég skal ekki að sinni fjölyrða frekar um misbeitingu Alþb. á verkalýðshreyfingunni né heldur þá lítilsvirðingu sem þeir með henni sýna hinum almenna launamanni og þá ekki hvað síst hinum lægst launuðu. Hina miklu verðbólgu hér á landi má þannig að verulegu leyti rekja til þessarar misbeitingar, og tvískinnungshátturinn kemur hvað best fram í samþykkt borgarstjórnar Reykjavíkur frá 15. júní s.l. Ekkert einstakt atvik undirstrikar jafnvel þau orð hæstv. viðskrh. Svavars Gestssonar sem ég áður vitnaði til og skal nú endurtaka, með leyfi hæstv. forseta:

„Með því að stilla saman verkalýðshreyfinguna, flokkinn og blaðið tókst að ná glæsilegum árangri í bæjarstjórna- og þingkosningunum s.l. vor.“

Samþykkt borgarstjórnarfundarins var svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Með hliðsjón af bréfi Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar frá 1. mars s.l. og kröfum annarra launþegasamtaka um greiðslu vísitölubóta á laun samþykkir borgarstjórn eftirfarandi:

Frá og með 1. júlí n.k. verði öllu starfsfólki borgarinnar og fyrirtækja borgarinnar, sem hefur 151.700 kr, í mánaðarlaun í dagvinnu eða lægra, greiddar fullar verðbætur samkv. ákvæðum kjarasamninga á öll vinnulaun. Starfsfólki með hærri laun skulu greiddar verðbætur jafnháar í krónutölu og greiðast á ofangreind mörk, þó þannig að þegar verðbætur samkv. lögum nr. 3/1978 nema hærri upphæð, þá skal greiða samkv. þeim. Þann 1. sept. skal með sama hætti greiða öllu starfsfólki borgarinnar og fyrirtækja borgarinnar, sem hefur 170 þús. kr. í mánaðarlaun og lægra, fullar verðbætur og sömu bætur í krónutölu á hærri laun með sama hætti og áður. Þann 1. nóv. hækkar þetta mark í 210 þús. kr. Ofangreindar upphæðir eru miðaðar við laun 1. júní 1978 án verðbótaviðauka. Öllu starfsfólki borgarinnar verði frá og með næstu áramótum greiddar óskertar verðbætur samkv. ákvæðum kjarasamninga.“

Þessi ályktun virðist svo skýlaus að naumast verður á betra kosið í þeim efnum. Eigi að síður liggur nú fyrir að þeir, sem að henni stóðu, vilja nú taka aftur hin stóru orðin og svíkjast þannig aftan að starfsmönnum Reykjavíkurborgar, eða eins og forseti borgarstjórnar Reykjavíkur hefur komist að orði, með leyfi hæstv. forseta: „Ég sé ekki annað en með þessu móti greiðum við þá vísitölu að fullu sem eftir stendur, þegar tekið er tillit til laganna.“

„Sem eftir stendur þegar tekið er tillit til laganna“ eru yfirlætislaus orð, en afhjúpa þó einhver mestu brigðmæli sem um getur í stjórnmálabaráttu hér á landi, minna á fyrirheitið um hið græna land þar sem jökull og hjarn tóku við að leiðarlokum, en þá varð ekki aftur snúið.

Eins og fram hefur komið felst kjarni þess frv., sem hér liggur fyrir, í 4. gr. þess. Þar er verðbótavísitalan ákveðin 151 stig, sem felur í sér 8% skerðingu miðað við gildandi samninga. Það er út af fyrir sig fagnaðarefni, að hæstv. forsrh. hefur tekið af öll tvímæli um það, að í þessari grein felst ekki bann við því, að greiddar séu hærri verðbætur en þar greinir, t.d. í samræmi við gildandi kjarasamninga. Nauðsynlegt var að sú yfirlýsing kæmi fram við afgreiðslu málsins.

2. og 3. gr. frv. eru nýstárlegar að því leyti, að ekki felast í þeim nein lagafyrirmæli og eru þær því merkingarlausar í lögum. Hæstv. forsrh. hefur komist svo að orði, með leyfi hæstv. forseta:

„Það er rétt, að þetta eru frekar óvenjuleg lagaákvæði, svokölluð loforðsparagraf eða loforðsgreinar, og eru þekktar og þær er m.a. að finna í okkar merkustu löggjöf, okkar hátíðlegasta plaggi, sjálfri stjórnarskránni. Þar eru slíkar greinar, þannig að þetta byggist á nokkrum misskilningi, það sem sagt er um 2. og 3. gr.

Nú gat ég ekki fundið í stjórnarskránni neitt sambærilegt við það sem hér stendur: Ríkisstj. mun beita sér fyrir lagasetningu eða ríkisstj. mun beita sér fyrir aðgerðum og lagasetningu. Á hinn bóginn má kannske breyta 1. gr. stjórnarskrárinnar frá því sem nú er eða úr: „Ísland er lýðveldi með þingbundinni stjórn“ í: Íslendingar munu beita sér fyrir að á Íslandi sé lýðveldi með þingbundinni stjórn — eða eitthvað því um líkt. En naumast yrði það talið til bóta né neinnar fyrirmyndar í lagasetningu.

Í 2. gr. er því heitið, að ríkisstj. muni beita sér fyrir lagasetningu til lækkunar skatta og gjalda á lágtekjufólki, sem metnar eru sem 2% af verðbótavísitölu þeirri sem gildir fram að 1. des. Þetta eru hin grænu orð, en hjarnið og jökullinn koma ekki í ljós fyrr en flett er upp í grg., en þar er þessu bætt við, með leyfi hæstv. forseta:

„Vegna þeirra aðgerða, sem frv. þetta gerir ráð fyrir, verði lögð fram fyrir áramót frv. til l. um tekjuöflun. M.a. komi til athugunar hátekjuskattur og veltuskattur á ýmiss konar rekstur. Einnig komi til athugunar í þessu skyni fjárfestingarskattur og eignarskattur.“

Ekki hafa fengist neinar skýringar á því, hvað hér er gert ráð fyrir mikilli tekjuöflun, og gefur það ástæðu til að spyrja hæstv. forsrh., hvort við það verði miðað í væntanlegum skattafrv, að álögurnar verði ekki meiri en svo að svari þeim útgjöldum sem þetta frv. leggur ríkissjóði á herðar. Það er mikilvægt að það komi fram, vegna þess að eins og allur aðdragandinn er hlytu frekari skattaálögur að teljast brigð við þau fyrirheit sem hér eru gefin. Ég vil enn fremur vekja athygli á því, að fyrirheitin í þessu frv. verða ekki skilin öðruvísi en svo, að tekjuskattsgreiðendum eigi að fækka á næsta ári borið saman við það sem nú er, þ.e. launþegahluta tekjuskattsgreiðenda. Þannig er gert ráð fyrir því, að launahækkunin nemi um 51% frá síðasta ári, svo að trauðla getur orðið um það að ræða að skattgjaldsvísitalan verði undir 151 stigi. Allt það, sem þar yrði fram yfir, kæmi þá til með að standa undir fyrirheitum 2. gr. um lækkun tekjuskatta. Ég tel mig þó hafa ástæðu til að ætla að við þetta verði ekki staðið.

Hv. fyrrv. stjórnarandstæðingar og núv. hv. stjórnarsinnar, ekki síst hv. 5. þm. Reykn., Karl Steinar Guðnason, halda því mjög á loft að í efnahagsráðstöfunum fyrri ríkisstj. hafi fullar verðbætur ekki komið á eftir- og næturvinnu né akkorðstaxta. Hafa um þetta verið höfð hin stóru orðin og fyrrv. hæstv. ríkisstj., sérstaklega þó forsrh. hennar, verið brigslað um að í þessum aðgerðum kæmi fram fjandskapur í garð láglaunafólks og sjómanna. Látum það vera. En þá spyr ég hvers vegna þessir sömu menn hafi nú skuldbundið sig til þess að standa að verulegri hækkun tekjuskatts launafólks sem allur kemur á eftir- og næturvinnu og á aflahlut sjómanna. En það er einn munur á vinnubrögðum fyrrv. og núv. stjórnar og hann ekki lítill. Fyrrv. ríkisstj. gekk hreint til verks, sagði kost og löst, en núv. hæstv. ríkisstj. ætlar sér að koma aftan að launþegum í landinu, eins og gert var með skattaukanum í haust. Það mun á sannast, þegar nýju skattafrv. verða lögð fram, og verður þá tilefni til að gera þessum þætti frekari skil. Sérstök ástæða er til að vekja athygli á því, að gert er ráð fyrir að Leggja sérstakan veltuskatt á fyrirtæki auk fjárfestingarskatta.

Nú er náttúrlega augljóst að með þessu er freklega farið inn á tekjuöflunarleiðir sveitarfélaga, þar sem aðstöðugjaldið er í raun veltuskattur og fasteignaskattar eru orðnir verulegur hluti af tekjuöflun sveitarfélaganna. Það má því búast við að ýmis sveitarfélög treysti sér ekki til að nýta sér þessa skattstofna í þeim mæli sem þau ella hefðu gert. Í þessu sambandi er enn fremur ástæða til að minna á að sveitarfélögunum hefur ekki verið bættur sá tekjumissir sem þau urðu fyrir með afnámi söluskatts á ýmsum vörutegundum. Hér gægist fram gamli fjandskapurinn í garð sveitarfélaganna sem hefur verið eitt höfuðeinkenni vinstri stjórna hér á landi.

Hæstv. forsrh. hefur látið svo ummælt oftar en einn sinni, að atvinnuvegirnir eigi að taka á sig 2% kauphækkunarinnar, það sé þeirra hlutur í þessum ráðstöfunum til viðnáms gegn verðbólgu. En hvað þá um veltu- og fjárfestingarskattana? Einhvern veginn hefur hefur honum skotist yfir þá í umfjöllun sinni um þetta frv. að þessu leyti.

Um veltuskattinn er það sérstaklega að segja, að hann tekur ekki tillit til afkomu fyrirtækja frekar en aðstöðugjaldið, og verður ekki séð að það breyti neinu fyrir fyrirtækin hvort þau greiði slíka skatta eða laun séu hækkuð að sama skapi. Hér er því um það að ræða að kjaraskerðingin er höfð meiri en ella til þess að afla tekna í ríkissjóð. Hinn væntanlegi veltuskattur verður í raun greiddur af launafólki sjálfu með lækkuðu kaupgjaldi. Í 6. lið aths. segir svo með leyfi hæstv. forseta:

„Heildarfjárfesting á árinu 1979 verður ekki umfram 24–25% af vergri þjóðarframleiðslu. Breytingar í fjárfestingarmálum eru í undirbúningi og er gert ráð fyrir lagafrv. um þau mál innan tíðar. Gert er ráð fyrir því að fjárfestingu verði beint frá verslunar- og skrifstofubyggingum í tækni- og skipulagsumbætur, m.a. í fiskvinnslu og iðnaði. Í landbúnaði verði dregið úr fjárfestingu, sem leiðir til aukinnar framleiðslu, en áhersla lögð á hagræðingu og á uppbyggingu vinnslustöðva landbúnaðarins. Útlánareglum fjárfestingarlánasjóða og útlánum banka verði breytt í samræmi við þessa stefnu.“

Greinilegt er af þessu, að hugmyndin er að taka upp skömmtunarstefnu í fjárfestingarmálum og með því að hverfa tvo áratugi aftur í tímann miðað við okkar sögu, en aftur í gráa forneskju í hugsunarhætti. Það hefur alltaf verið sterk viðleitni hjá vinstri flokkum að gera sig að skömmtunarstjóra yfir fólkinu í landinu, takmarka möguleika þess til að nýta þá fjármuni sem það vinnur sér inn í sveita síns andlits og þröngva því þannig til að ráðstafa peningunum öðruvísi en það hefði kosið, ef það hefði verið sjálfrátt gerða sinna. Með þessu á að innleiða á ný þá gömlu framsóknarsiðvenju, að einhverjir pólitískir pótintátar séu settir upp á stall og útdeili þaðan með leyfum upp á eitt og annað. Þannig þykjast þeir hafa búið sér til pólitíska aðstöðu til að gera fólkinn greiða og hyggjast tryggja sig í sessi um leið.

Það er að sjálfsögðu nauðsynlegt að draga úr fjárfestingunni. En það verður best gert með því að breyta svo peningakerfi landsins að fólk geti ávaxtað sparifé sitt, eins og hv. 5. þm. Norðurl. v., Eyjólfur Jónsson, gerði rækilega grein fyrir í ræðu sinni í gærkvöld. Ef þeim hugmyndum yrði hrundið í framkvæmd er ekki vafi á að verulega drægi úr fjárfestingu í landinu þannig að hún kæmist í jafnvægi og miðaðist við arðsemi fyrst og fremst, gagnstætt því sem nú er, þar sem verðbólgan og lágvaxtastefnan hafa í sameiningu valdið því, að hvers konar steinsteypa er í rauninni eini verðtryggði gjaldmiðillinn í landinu. Þetta ástand hefur ekki hvað síst valdið því, að lífskjör hafa ekki batnað í þeim mæli hér á landi sem orðið hefði ef arðsemin hefði ráðið ferðinni í fjárfestingarmálum. Hið sama verður uppi á teningnum, ef pólitískir pótentátar eiga á ný að útdeila leyfum til fjárfestingar, í hvaða formi sem það verður. Hætt er við að annarleg sjónarmið verði þar þung á metunum, en síður gætt að arðseminni, auk þess sem fyrir liggur að stjórnarflokkarnir hafa í orði og verki sýnt hinu frjálsa framtaki ýmist beinan fjandskap eða agnúast út í það, en leynt og ljóst stefnt að opinberri forsjá í flestum efnum. Einstaklingurinn í þjóðfélaginu gengur því ekki að því gruflandi, við hverju hann má búast á næstu missirum ef Rauðka verður uppistandandi.

Ástæða er til að vekja sérstaka athygli á því, að ríkisstj. hyggst afnema eða a.m.k. draga verulega úr jarðræktarstyrkjum til bænda, auk þess sem á þá verða lagðar nýjar álögur, svo sem fóðurbætisskattur, eftir því sem næst verður komist. Ráðstafanir af þessu tagi munu að sjálfsögðu fyrst og fremst verka til lækkunar á launalið bóndans, en eins og menn muna var það mjög að orði haft fyrir síðustu kosningar, bæði af þm. Framsfl. og Alþb., að bændur væru launalægsta stétt landsins, og einkanlega lögðu þeir síðarnefndu, frambjóðendur Alþb., áherslu á að við offramleiðsluvandamál væri ekki að stríða í landbúnaði.

Sjálfstæðismenn hafa lýst andstöðu við hinar auknu niðurgreiðslur. Hæstv. forsrh. gefur í skyn, að það sé vegna þess að við viljum fara dýpra ofan í vasa launamannsins en hann, og varð harla glaður við. Hitt á hann erfiðara með að skilja, að fyrir afstöðu okkar liggja efnisrök, nefnilega þau, að of miklar niðurgreiðslur rugla allt verðskyn, ekki síst eins og nú er komið, þegar útsöluverð er orðið verulega miklu lægra en innleggsverð sömu afurða. Þetta minnir á það, þegar 50 kg af kartöflum voru komin niður í 100 kr. fyrir nokkrum árum. Virðingin fyrir þessum matvælum var ekki sérlega mikil meðan það verð stóð.

En hæstv. forsrh. getur ekki afgreitt niðurgreiðslurnar með fúkyrðum í garð sjálfstæðismanna. Ný verðbólguskriða fellur 1. mars — og hvað ætlar hann þá að gera? Er meiningin að hefja þá niðurgreiðslur á smjörlíki og styrkja þannig iðnaðinn í samkeppninni við landbúnaðinn og hið lága smjörverð? Eða stendur kannske til að hefja niðurgreiðslur á erlendum vörum sem þyngst vega í vísitölunni eins og t.a.m. kaffi? Eða telur hæstv. forsrh. að niðurgreiðslurnar séu nú komnar í það mark sem hæfilegt sé?

Hv. 1. þm. Austurl., Lúðvík Jósepsson, kvartaði undan því í Nd., að hækkað verð á blöðum hefði haft óeðlilega mikil áhrif á kaupgjaldsvísitöluna. Kannske er meiningin að greiða niður dagblaða- og bókaverð í landinu. Við þekkjum það frá þeim löndum þar sem hinir marxísku búskaparhættir eru, að stjórnvöld ráða eftirspurninni í landinu með því að ákveða vöruverðið án samhengis við tilkostnaðinn. Hér á landi hafa slík opinber afskipti af vöruverði þótt næsta fáránleg fram að þessu. En vissulega hefur ríkisstj. sýnt viðleitni í þessa átt, bæði með hinum óhóflegu niðurgreiðslum og hátollunum á þær vörutegundir sem hæstv. ríkisstj. telur til óhófsmunaðar, og er lítill ágreiningur um það meðal landsmanna að hún hafi sýnt litla smekkvísi í því vali.

Í 3. gr. frv. er fjallað um margvíslegar félagslegar umbætur sem ógerningur hefur verið að fá skýringar á, þótt á hinn bóginn sé til þess ætlast að menn meti þær til 3% lækkunar á kaupgjaldi. Við fáum ekki einu sinni að vita hversu miklu fjármagni ríkisstj. hyggst verja til þess arna.

Ég skal ekki lengja mál mitt með því að gera allri upptalningunni í 7. lið grg. skil, en nefni húsnæðismálin sérstaklega. Við umr. um stefnuræðu forsrh. komst hæstv. félmrh., Magnús H. Magnússon, m.a. svo að orði. með leyfi hæstv. forseta:

„Í þeim kafla samstarfsyfirlýsingarinnar, sem fjallað er um húsnæðismál, er vikið að nokkrum mikilsverðum málum sem í minn hlut kemur að hrinda í framkvæmd. Vil ég því gera nokkra grein fyrir því, hvernig þar miðar.

Nú er að ljúka störfum nefndar sem fjallað hefur um endurskoðun laga um byggingu svokallaðra félagslegra íbúða, einkum verkamannabústaða og leiguíbúða á vegum sveitarfélaga. Vænti ég þess, að frv. um þennan mikilsverða þátt í starfsemi Húsnæðismálastofnunar ríkisins geti komið fyrir Alþ. strax í haust. Þá hef ég nú nýlega skipað starfshóp og fengið það hlutverk að endurskoða alla aðra þætti í starfsemi Húsnæðismálastofnunar. Er þessum hópi m.a. ætlað að kanna möguleika á því, að lánum stofnunarinnar verði breytt þannig að þau verði ákveðið hlutfall af byggingarkostnaði nýs húsnæðis, innan hóflegra stærðarmarka þó, og lán til kaupa á eldra húsnæði verði hlutfall fjármagnsþarfar kaupenda. Í því væri fólgin gerbreyting ef hægt væri að efla sjóði Húsnæðismálastofnunar svo, að lán hennar nægðu til að fullnægja að mestu eða öllu eðlilegri lánsþörf húsbyggjenda og að útborgun þess fjár gæti haldist í hendur við framkvæmdahraðann. Eigi slíkt markmið að nást verður að koma til gagnger endurskoðun á teknaöfluninni og ný tengsl við hinn almenna fjármagnsmarkað í landinu, ekki síst lífeyrissjóðina. En þess verður þá jafnframt að gæta, að þessum sjóðum sé ekki sóað á verðbólgubálinu þannig að eilíflega verði að ausa í þá nýju fjármagni. Hér á ég við það, að lánin verði verðtryggð að fullu, en vextir hins vegar færðir mjög niður, verði sennilega aðeins 2–3%. Jafnframt verður svo að varast að fjármagnsbyrðin verði lántakendum ofviða, svo sem með lengingu lánstímans og sveigjanleika í sambandi við endurgreiðslur, t.d. með takmörkun þeirra við ákveðið hlutfall af ráðstöfunartekjum lántakandans. Koma hér raunar ýmsar aðrar leiðir til greina.

Ég trúi því, að þessar breytingar megi gera í skynsamlegum áföngum og að þær muni í raun koma öllum til góða og — það sem kannske er mest um vert — verða mjög öflugt vopn í baráttunni gegn verðbólgunni. Ég hef í skipunarbréfi til þessa starfshóps óskað eftir athugun á ýmsum fleiri atriðum sem ég tel að betur megi fara. Má þar til nefna stofnun nýs lánaflokks sem ætlað er það hlutverk að veita lán til endurbóta og viðhalds á eldra húsnæði. Hef ég beðið um að gerð verði sérstök athugun á lánveitingum til byggingar húsnæðis fyrir aldraða og fólk með sérþarfir og að kannaðir verði möguleikar á stuðningi við nýjungar í byggingariðnaði, stöðlun húshluta og margvíslega hagræðingu sem horft gæti til lækkunar á byggingarkostnaði. Ég hef lagt fyrir þennan starfshóp að hraða störfum sinum eftir föngum og vænti þess, að hægt verði að kynna hv. alþm. niðurstöður hans fyrir þinglok næsta vor og helst ef tækist að samþykkja lög um þetta efni strax á þessu þingi.

Loks má geta þess undir þessum lið, að nú hefur tekið til starfa nefnd sem ég skipaði til að semja frv. að nýrri löggjöf um leiguhúsnæði. Er mikil þörf orðin á slíkum lögum sem gætu komið fastari skipan á þessi mál en nú er, eytt margvíslegri réttaróvissu og tryggt betur réttarstöðu leigutaka og raunar einnig leigusala. Ég vænti þess, að þessi n. ljúki störfum fyrir n.k. áramót.

Ég hefði viljað ræða hér um heilbrigðismál, sem eru mjög stór og flókinn málaflokkur og um verkefnaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, en til þess vinnst ekki tími að þessu sinni.“

Nú er spurningin, hvað felst í fyrirheitum aths. um sérstakar aðgerðir í húsnæðismálum og varðandi leigjendavernd umfram það sem hæstv. félmrh. lýsti þegar hinn 19. okt. Hvað eru launþegar að kaupa í þessum efnum nú sem meta skal þeim til sérstakrar 3% launalækkunar?

Varðandi málefni lífeyrissjóða og eftirlaun aldraðra sagði hæstv. félmrh. í stefnuræðu sinni:

„Ef hægt er að segja að eitthvert eitt mál hafi öðrum fremur skipað öndvegi í stefnumörkun Alþfl., þá eru það almannatryggingarnar. Það er og hefur verið stolt okkar Alþfl.-manna að hafa frá öndverðu skipað forustusveit þeirra sem barist hafa fyrir réttarbótum til handa öldruðum, sjúkum og öryrkjum. Á þessu sviði hafa margir sigrar unnist, þótt hér verði aldrei unninn neinn fullnaðarsigur. Breyttir tímar og breyttar aðstæður kalla sífellt á ný úrræði í þessum efnum. Í dag stöndum við þar, að við búum við tvíþætt lífeyriskerfi: annars vegar almannatryggingar og hins vegar hina svokölluðu frjálsu lífeyrissjóði.

Almannatryggingakerfið veitir vissulega mikilsverð réttindi, ekki síst eftir að lífeyrisgreiðslur þess voru með lögum tengdar kauphækkunum. Stöðugt er í gangi endurskoðun á þeirri löggjöf sem um almannatryggingar fjallar. Er það ætlun mín að þar verði hvorki staðnæmst né hægt á ferðinni. Hinn þáttur lífeyriskerfisins eru frjálsu lífeyrissjóðirnir sem gegna ákaflega mikilsverðu hlutverki við að bæta stöðu þeirra sem verða fyrir fjárhagslegu áfalli ef starfsorka til tekjuöflunar glatast eða fyrirvinna fellur frá. Raunar er þá þýðing þeirra þegar orðin slík, að þeir eru orðnir ómissandi þáttur í þeirri viðleitni að tryggja afkomu öryrkja, aldraðra og sjúkra. Því er hins vegar ekki að neita, að ýmsir ágallar hafa komið fram á þessu kerfi. Er slíkt ekki að undra þegar þess er gætt, að hér á landi er nánast engri löggjöf til að dreifa um starfsemi þeirra. Sjóðirnir, sem eru fjölmargir, hafa þess vegna sjálfir sett sér sín lög og er því að vonum afar mismunandi á hvern hátt þeir tryggja réttindi félagsmanna sinna. Það bil, sem þarna hefur víða myndast, verður að brúa og tryggja öllum lífeyrisþegum ákveðin samræmd lágmarksréttindi, m.a. með því að verðtryggja allan lífeyri og samræma reglur um réttindaöflun og greiðslur, m.ö.o. að búa einnig til innan þessa þáttar lífeyriskerfisins eitt samfellt réttindakerfi sem taki til allra landsmanna. Er í þessu sambandi nauðsynlegt að hafa í huga, að þrátt fyrir mikla fjölgun lífeyrissjóðanna á síðustu árum á þó enn meira en helmingur allra lífeyrisþega enga aðild að lífeyrissjóðum.

Þessu mikla misrétti hefur ríkisstj. sett sér að bæta úr með því að stefna að einum lífeyrissjóði fyrir alla landsmenn. Framkvæmd þessa mikilsverða stefnumáls hefur lent í mínum höndum og mun ég einskis láta ófreistað til að það geti komist sem allra fyrst í höfn. Vonast ég raunar til að geta um næstu mánaðamót lagt fram frv. til l. um almenn eftirlaun til aldraðra. Það frv. nær að vísu ekki því lokamarki sem að er stefnt, enda er málið ákaflega flókið og viðkvæmt. Þetta frv. mun þó rétta verulega hlut sem allra flestra þeirra sem hafa fram til þessa einungis notið óverðtryggðs lífeyris eða verið alveg utan lífeyrissjóða, og verður það því umtalsverður áfangi að þessu lokamarki.“

Ástæða er til að spyrja einnig nú, hvaða fyrirheit felist í aths. um sérstakar aðgerðir varðandi málefni lífeyrissjóða og eftirlaun aldraðra umfram það sem hæstv. félmrh. hafði lýst hinn 19. okt. s.l.? Hvað eru launþegar að kaupa í þessum efnum sem nú skal meta þeim til sérstakrar 3% launalækkunar?

Í fyrstu þrem liðum aths. er almenn stefnumörkun ríkisstj. í verðlags- og kjaramálum næstu þrjá mánuði. Þar er m.a. talað um að verðlagshækkanir verði ekki nema 5% 1. mars. Samkv. spám. Þjóðhagsstofnunar mun verðbótavísítalan þó hækka um 8% 1. febr., og með hliðsjón af ástandi efnahagsmála má gera ráð fyrir að þessi áætlun sé of lág. Raunhæfara væri að nefna 11% hækkun verðbótavísitölunnar að ýmissa dómi. Á hinn bóginn eiga ekki nema 5% að koma til hækkunar á peningalaunum, svo að notað sé bið nýja orð Alþb.manna, sem m.a. var fundið upp í þeim tilgangi að reyna að glepja launamönnum sýn. Hér er því enn gert ráð fyrir 3–6% skerðingu á verðbótavísitölunni. Athygli vekur að í 3. lið er því slegið föstu, að vísitöluviðmiðun launa skuli breytt fyrir 1. mars að höfðu samráði við fjölmennustu heildarsamtök launafólks. Það, sem hæstv. forsrh. kallaði hornstein sjálfs stjórnarsamstarfsins, samráðið við aðila vinnumarkaðarins, er ekki lengur fyrir hendi. Hæstv. forsrh. hefur sett Vinnuveitendasambandið og Vinnumálasamband samvinnufélaga út í horn og vill ekkert við þau tala, þótt þessir aðilar hafi sýnt fyllsta samstarfsvilja. Svo talar hæstv. forsrh. um að nauðsyn sé á þjóðarsamstöðu, allir þurfi að leggjast á eitt, gagnkvæmur skilningur og virðing þurfi að vera fyrir hendi.

En er það trúverðugt að þetta markmið náist, að um það náist samkomulag við verkalýðshreyfinguna að vísitöluviðmiðun launa verði breytt launþegum í óhag fyrir 1. mars m.a. með því að viðmiðun verði höfð við viðskiptakjör og fleira? Eftir viðbrögðum fulltrúa Alþýðusambands Íslands og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja á fundi fjh.- og viðskn. er þess ekki að vænta, því miður, að um neina slíka hugarfarsbreytingu sé að ræða. Forseti Bandalags starfsmanna ríkis og bæja sagðist ósammála liðum 1–3 í aths. frv. og af hálfu BSRB kæmi ekki til greina að fallast á það sem þar væri lýst. Samtökin eru ekki tilbúin til neinna samninga um að lögbinda skerðingu á kjörum, sagði hann. Alþýðusamband Íslands hefur ekki tekið afstöðu til þeirra aðgerða, sem í frv. felast, og fyrir liggur, að um það eru skiptar skoðanir innan stjórnar ASÍ. Forseti Alþýðusambands Íslands lét svo ummælt, að hann teldi að tilraunin hefði misheppnast ef ríkisstj. þyrfti aftur að koma til launþegasamtakanna fyrir 1. mars. Hann var þó jákvæður að því leyti, að stjórn Alþýðusambands Íslands mundi samt meta það, hvað hefði verið gert annars staðar í kerfinu, eins og hann orðaði það. Þá taldi hann að ráðstafanir yrði að gera í sambandi við verðbólguna til þess að tryggja at vinnu í landinn.

Af framansögðu er ljóst að verkalýðshreyfingin mun reynast ósamvinnuþýðari 1. mars en nú, eins og fram hefur komið frá stuðningsmönnum ríkisstj. hér á hinu háa Alþ. Það liggur líka fyrir, að naumast er hægt að tíunda stefnuskrá ríkisstj. í félagsmálum þriðja sinni og fara síðan fram á að launþegar gefi eftir verulegan hluta af umsömdum verðbótum af því tilefni, einungis til þess að leikurinn verði svo enn endurtekinn 1. júní.

Loks er með markvissum hætti vegið að rótum atvinnulífsins í landinu. Miðað við rekstrarstöðu atvinnuveganna eru þeir fjarri því nú að geta tekið á sig nokkrar kostnaðarhækkanir án þess að hleypa þeim umsvifalaust út í verðlagið, hvað þá að þrem mánuðum liðnum. Sá, sem er þrautpíndur fyrir, má ekki við miklu til þess að hann lognist út af.

Ástandið fram undan er því síður en svo glæsilegt. En hæstv. forsrh. lætur það ekki mikið á sig fá. Hann hefur þá sérstöðu að vera eini maðurinn sem setið hefur í ríkisstj. allt það tímabil sem hömlulaus verðbólga hefur geisað hér á landi, eða síðan viðreisnarstjórnin fór frá völdum. Þó telur hann sig hafa ráð á því að tala um að aðrir hafi ekki vitkast, á sama tíma og hann hrökklast nú frá einum ársfjórðungnum til annars, í þetta skipti frá 1. des. til 1. mars, án þess að gera alvarlega tilraun til þess að einhver stefna sé mörkuð í efnahagsmálum til frambúðar. Þar fer hann á sömu sveifina og Alþb., enda var raunar alltaf við því búist, að hann mundi neyta færis ef honum þætti Alþfl. liggja vel við höggi. Það stendur ekki heldur á því nú að Alþfl. sé kallaður kaupránsflokkur af samstarfsmönnum sínum í ríkisstj., og sýnir það eitt út af fyrir sig hvort við því sé að búast, að þeir, sem standa utan hjá og virða þetta fyrir sér úr fjarlægð, hafi á ríkisstj. sérstakt traust eða dálæti.

Við 1. umr. þessa máls komst hæstv. forsrh. svo að orði:

Ríkisstj. hefur sett sér það meginmarkmið að vinna að hjöðnun verðbólgu í ákveðnum áföngum og aðgerðir, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, eru mikilsverð skref á þeirri leið. Ég verð að segja, að mér finnst furðulítið samræmi á milli athafna sjálfstæðismanna, þ.e.a.s. stjórnarandstæðinga nú, þegar þeir annars vegar eru í stjórn og hins vegar í stjórnarandstöðu. Þeir settu febrúarlögin, og að því stóð ég og minn flokkur af því að nauðsyn bar til að okkar dómi. Þá var Sjálfstfl. í stjórn. Nú er Sjálfstfl. andvígur þessum ráðstöfunum. Hann vill að 14% hækkun fari út í kaupgjald og verðlag. Hann vill meira að segja að aukin niðurgreiðsla, hvort heldur er 3 eða 2.5%, komi ekki til frádráttar verðbótavísitölu þeirri sem reiknuð hefur verið út og á að ganga í gildi 1. des., greiddi atkv. beinlínis gegn þeirri grein í hv. Nd. Nú er hann í stjórnarandstöðu. Því hefur verið lýst yfir af talsmönnum hans, að hann vildi sýna ábyrgð í stjórnarandstöðu. Hvar er nú ábyrgðartilfinningin? Nánari tími gefst ekki til útlistunar á þessu fyrirbæri. Það skýrir sig sjálft og sannar að þeir sjálfstæðismenn hafi ekkert lært frá því á vordögum 1974.“

Hæstv. forsrh. ber sig vel að vanda, er drýgindalegur. Mér þykir rétt að reyna að vera það líka og svara fullum hálsi.

Allir vita að það voru vissir menn í verkalýðshreyfingunni, en ekki Ólafur Jóhannesson, sem mynduðu þessa ríkisstj. og fengu svo hv. 1. þm. Austurl., Lúðvík Jósepsson, til þess að gerast guðfaðir að króganum. Við þær aðstæður, sem þá sköpuðust, myndaðist svigrúm til þess að gera varanlegar níðstafanir gegn verðbólgunni, af því að fólkið í landinu var búið að sjá í gegnum þann lyga- og blekkingavef sem haldið var á lofti fyrir síðustu kosningar. Þetta svigrúm var ekki notað í september, heldur ráðist í bráðabirgðaráðstafanir í flaustri sem kyntu undir verðbólgunni í stað þess að draga úr henni. Þótt þessi mistök hafi veikt trúna á getu vinstri flokkanna til þess að slökkva það verðbólgubál sem þeir sjálfir kveiktu, hélst nokkurt svigrúm fram undir þetta sem hefði verið hægt að nýta til varanlegri ráðstafana en felast í því frv. sem hér er til umr., ef hæstv. forsrh. hefði stutt tillögur Alþfl. og hæstv. fjmrh. í stað þess að glúpna fyrir Alþb.

Hæstv. forsrh. heldur því fram. að Sjálfstfl. hafi viljað láta 14% hækkun fara inn í kaupgjald og verðlag. Þetta eru úrslitakostir frá hans hendi, þeir sömu og hann veifaði framan í Alþfl. með þeim árangri að hv. þm. hans, að einum undanskildum, urðu að veimiltítum frammi fyrir alþjóð. Og svo hælist hæstv. forsrh. um eftir á. En upp á hvað bauð forsrh. Sjálfstfl. með því frv. sem hér liggur fyrir? 8% skerðingu á kaupgjaldsvísitölu, stóraukin útgjöld ríkissjóðs, sem engin grein hefur verið gerð fyrir, hvað þá þeim auknu álögum sem leggjast á launþega og atvinnureksturinn í landinu. Ekki var gefinn kostur á því að hafa áhrif til lagfæringar á einu einasta atriði frv. né þeirra fyrirheita sem í aths. eru gefin, enda naumast við því að búast þegar engri spurningu er svarað sem snertir innihald þessa loforðalista, hvorki stórri né smárri. Fyrir liggur að atvinnureksturinn er rekinn með tapi eða stendur í járnum þegar best lætur, sem þó heyrir til algerra undantekninga. Samt á að halda áfram að~vega í þennan sama knérunn. Og svo spyr hæstv. forsrh. Sjálfstfl., en ekki sjálfan sig: Hvar er nú ábyrgðartilfinningin?

Nei, sannleikurinn er sá, að hæstv. forsrh. getur ekki búist við fulltingi Sjálfstfl. til aðgerða sem óhjákvæmilega hljóta að leiða til stöðvunar atvinnurekstrarins til lengri tíma litið, — aðgerða sem beinast gegn einkaframtakinn í landinu og er ætlað að torvelda möguleika einstaklingsins í uppbyggingu nýrra atvinnugreina, — aðgerða sem valda hægari hagvexti og það í þeim mæli að af því leiðir minnkun kaupmáttar. Og svo er það spurning til annarrar jafnlangrar ræðu, hvers konar sjálfsblekking, sjálfssefjun það er, þegar menn gera hvort tveggja í senn að telja sig sérstaka vini verkalýðsins, en eru þó ófáanlegir til að beita ríkisvaldinu með þeim hætti að frumkvæði þjóðarinnar sjálfrar til góðra verka njóti sín öllum til góðs.

Þegar hinir fyrri stjórnarandstæðingar og núv. stjórnarsinnar, kaupránsflokkarnir tveir, Alþfl. og Alþb. eru að lýsa því nú, að með þessu frv. standi ekki til að skerða lífskjör verkalýðsins, í því felist ekki kauprán, minna þeir óneitanlega á Eirík rauða þegar hann kallaði bið nýfundna land Grænland, af því að hann kvað menn mjög mundu fýsa þangað ef landið héti vel. Á hinn bóginn svipar hæstv. forsrh. til Þórólfs smjörs, þegar hann gerir nú úr því langar ræður að lítil takmörk séu fyrir því hvað atvinnuvegirnir geti borið, að þar drjúpi nú smjör af hverju strái. Við sjálfstæðismenn förum á hinn bóginn að dæmi Herjólfs, segjum kost og löst og minnum á það til viðvörunar, að þeir Hrafna-Flóki gáðu eigi fyrir veiðum að fá heyjanna, og dó allt kvikfé þeirra um veturinn. Í þessu er sú aðvörun fólgin, að á hverjum tíma verður að gæta þess að eyða ekki umfram það sem aflað er, og það sem maður hefur lífsframfæri sitt af krefst endurnýjunar og fyrirhyggju. Sé þessa ekki gætt gengur fljótt á höfuðstólinn og þá vofir hrunið yfir.

Eins og fram kemur í nál. minni hl. og með skírskotun til þess sem ég hef nú sagt telur minni hl. eðlilegt að greiða atkv. gegn 1. gr. frv., en láta stjórnarsinnum eftir að bera ábyrgð á lagasetningunni að öðru leyti.