04.12.1978
Efri deild: 23. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1235 í B-deild Alþingistíðinda. (824)

Kosning forseta deildarinnar í stað Braga Sigurjónssonar

Bragi Sigurjónsson:

Herra forseti. Það er aðeins út af orðum síðasta ræðumanns að ég vil árétta það, að það getur enginn misskilið það, þegar flokkar taka upp samvinnu um stjórn og síðan kosningu á aðalforsetum, eins og ótvírætt var hér í haust, forseti Sþ. er valinn úr hópi eins flokksins, forseti Nd. úr hópi annars flokksins og forseti Ed. úr hópi þriðja flokksins, — það getur engum leynst að þetta er gert að höfðu því samráði að þessir flokkar mynda ríkisstj. Þess vegna endurtek ég, að vegna misþóknunar minnar á því, að þessir þrír ríkisstjórnarflokkar gátu ekki komið sér saman um betri niðurstöðu en þau lög voru sem hér voru samþ. fyrir fáum dögum, þá sé ég ekki að það sé nokkuð við það að athuga, þegar mín skoðun er þessi, að ég segi við þd.: Ég vil ekki sitja í forsetastól, sem samstarfstákn þessara þriggja flokka.

Fyrst ég er kominn hér upp í stólinn þykir mér rétt að taka fram, að þessi orð mín voru mistúlkuð t.d. í blaðinu Tímanum og sagt að ég vildi ekki vera einingartákn. Ég veit ósköp vel að ég var ekki einingartákn flokkanna, enda getur maður úr einum flokki ekki verið einingartákn fyrir þrjá flokka. En ég var ótvírætt kosinn í þetta starf sem samstarfstákn þessara þriggja flokka, og ég endurtek það, það vil ég ekki vera eftir þessar samþykktir sem ríkisstjórnarflokkarnir stóðu að.