04.12.1978
Efri deild: 23. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1249 í B-deild Alþingistíðinda. (834)

94. mál, fuglaveiðar og fuglafriðun

Stefán Jónsson:

Örstutt, herra forseti, þar sem mér er ljóst að slíta þarf fundi fimm mínútum fyrir klukkan fjögur.

Hv. síðasti ræðumaður, hv. þm. Halldór Blöndal, sagði sér ekki koma það á óvart að ég vildi leyfa að drepa fleiri fugla en vargfugla. Ég hef oft heyrt hv. þm. tala langt mál af lítilli vitneskju, en sjaldan eins og nú við umr. um þetta frv. um fuglaveiðar og fuglafriðun. Hann er kannske einn af þeim mönnum sem háma í sig jólarjúpurnar af hvað mestri lyst, en gagnrýna hörðum orðum þá sem veiða rjúpurnar og segist ekkert skilja í slíku, eins og sé auðvelt að fá þær keyptar hjá Tómasi. Hvernig í ósköpunum getur hv. ræðumaður talað um veiði með tilliti til hagsmuna fugla. Það er sannarlega hagsmunamál fuglsins að hann sé drepinn áður en hv. þm. étur hann.

Veiði var stunduð á jörðu hér um milljónatugi áður en akuryrkjumaðurinn varð til, og manninum er raunar fátt eðlilegra af því, sem honum er nú ekki ætlað að gera, en það að veiða. Kynnum við að geta komið inn á það nánar, þegar tími gefst til, í sambandi við það sem kallað er hegðunarfræði manna.

Hv. ræðumaður sagðist hafa orðið þess var, að lítið væri orðið af öndum, og talaði um aðstöðu andarinnar til þess að koma upp ungum sínum fyrir vargfugli. Svo vill til, að ýmsum andartegundum hefur fjölgað á landi hér hinn síðari árin og það einmitt þeim andartegundum sem leyft er að veiða, svo sem stokkönd, rauðhöfðaönd og urtönd. Þeim hefur fjölgað hin síðari árin. Það er ákaflega misjafnlega á komið með aðra andarstofna og er umdeilanlegt hvernig á því stendur. En samúð hans virtist nú helst vera með litlu andarungunum, og hann efaðist um hvaða afstöðu hann tæki til þess, hvort leyfa ætti aftur að veiða álft. Ég get einnig sagt varðandi álftaveiðar, að ég á dálítið erfitt með að ímynda mér ánægju af því sem sportveiði að skjóta þennan hálslanga, andkannalega fugl á hægu flugi. En sé það afsökun fyrir því að taka heiftarlega afstöðu gegn vesalings hettumáfinum, að hann étur smáfuglaunga, og gegn hrafninum og svartbaknum, að þeir éta andarunga, þá getur hv. ræðumaður bætt álftinni við því hún étur einnig andarunga. Og varðandi álftafellinn, að við eigum e.t.v. af mannúðarástæðum að leyfa skotveiði á álft, vegna þess að ella muni hún falla úr hungri, þá mun það eiga við fleiri fugla og þ. á m. einmitt við rjúpuna sem við vorum að ræða um áðan, að dauði rjúpunnar að vetrinum telst vera að ákaflega miklu leyti af fæðuskorti. Þarna kemur úrval náttúrunnar til.

Aftur á móti verð ég aðeins í lokin að koma því hér að, að þrátt fyrir allt eru það viðhorf manna eins og hv. þm. Halldórs Blöndals til skotveiði á fuglum sem ég virði. Það er sjónarmið þeirra manna, sem af tilfinningalegum ástæðum og eðlilegum eru á móti því að láta skjóta fugla, að menn stundi það sem sport, því það er rétt, sem hv. þm. sagði, að það er ekki nauðsyn lengur til framfærslu. Það er virðing fyrir slíkum tilfinningum og slíkum viðhorfum einstaklinga sem ég vil taka tillit til, og mér finnst að þurfi einmitt í lagafrv., sem hér liggur fyrir, að kveða á um rétt einstakra manna, bænda, landeigenda, sem bera ábyrgð á lífríki jarðar sinnar, til þess að banna þar veiðar algjörlega eftir vilja. En aftur á móti ef hvatirnar til þess arna eru aðrar, þá vil ég að réttur þegna til þess að njóta þeirra gæða, við skulum segja í fjalllendi, á afréttum og í almenningum. — að réttur þegnanna verði jafnaður til þess að njóta þessara gæða þar sem slíkt er leyft. En ég ítreka það: viðhorf þeirra manna virði ég, þó það hafi komið í ljós við rannsókn á bréfum Jónasar Hallgrímssonar sem „Óhræsið“ orti, að hann gekk býsna hart eftir því við Tómas og fleiri sem hann frétti að komnir væru frá Íslandi og hafði grun um að flutt hefðu til sín rjúpur þaðan til Danmerkur, að þeir afhentu honum þær: „því þú veist það, Tómas, að mér þykja rjúpur góðar.“

Herra forseti. Ég hef ekki tíma til þess að ræða þetta lengur núna, en vildi gjarnan, ef hægt væri, að ræðu minni yrði frestað, þar sem ég á enn nokkuð órætt í þessu máli og vildi gjarnan fá að halda því áfram. þar sem ég er nú byrjaður að tala í annað sinn. — (Frh.]