04.12.1978
Neðri deild: 26. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1250 í B-deild Alþingistíðinda. (836)

90. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er lagt fram um breyt. á l. nr. 30/1970, um Húsnæðismálastofnun ríkisins, miðar að því að húsnæðismálastjórn verði veitt heimild til að veita sveitarfélögum, launþegasamtökum og öðrum félagslegum aðilum lán til byggingar dagvistarheimila fyrir jafnt yngri sem eldri borgara.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að dagvistarheimili hafa setið mjög á hakanum í þjóðfélaginu. Þjóðfélagsþróunin hefur orðið sú, að konur hafa undanfarin ár í vaxandi mæli tekið meiri þátt í atvinnulífinu. Þar kemur einkum tvennt til: Þröngur fjárhagur heimilanna samfara vaxandi dýrtíð og verðbólgu ýtir konunum meira og meira út á vinnumarkaðinn auk þess sem þátttaka kvenna í langskólanámi hefur aukist verulega undanfarin ár og þær hafa því engu minni þörf fyrir að nýta þekkingu sína á hinum ýmsu sviðum þjóðlífsins. En þjóðfélagið hefur ekki að sama skapi komið til móts við að þessi aukna þátttaka kvenna í atvinnulífinu krefst þess einnig, að samhliða verði stóraukin uppbygging dagvistarheimila og leikskóla.

Einnig er það veigamikið atriði, að réttur barnanna verði ekki fyrir borð borinn, því að uppeldi þeirra er vísirinn að farsælu þjóðfélagi. Hagur þeirra og velferð verða því ævinlega að sitja í fyrirrúmi. Enn fremur, þegar minnst er á rétt barnsins, verður að miða uppbyggingu t.d. leikskóla við að ekki eingöngu börn foreldra, sem bæði þurfa að vinna úti, geti notið þeirra, heldur ættu öll börn að eiga þess kost. Það hlýtur að efla bæði persónulegan og félagslegan þroska hvers barns að skapa þeim þau skilyrði, að þau geti verið hluta úr degi á leikskólum og notið leiðbeininga sérmenntaðs starfsliðs í uppeldismálum, og ætti það að vera ótvíræður réttur þeirra.

Ég tel ekki ástæðu til að orðlengja frekar um þá nauðsyn, sem er á uppbyggingu dagvistarheimila, aða þann skýlausa rétt, sem hvert barn ætti að hafa til þess að þjóðfélagið skapi því þá aðstöðu, að það geti hluta úr degi dvalið á dagvistarheimili, sem óumdeilanlega hlýtur að örva þroska þess og gegnir því mikilvægum þætti í uppeldi þess. Ég vil þó í örfáum orðum draga upp mynd af því, hve brýn nauðsyn er hér á stórátaki með tilliti til þess hve mikið vantar á að eftirspurninni eftir dagvistarheimilum og leikskólum sé fullnægt. Þær tölur, sem ég hef, eru þó eingöngu fyrir Reykjavíkurstæðið, en ég tel að þær séu samsvarandi tölum fyrir hin einstöku byggðarlög.

1. des. 1977 voru börn á aldrinum 0–2 ára 3913 og 3–5 ára 4251, eða samtals 8164. Á árinu 1977 voru tæplega 780 börn á dagheimilum og tæplega 1700 á leikskólum eða samtals tæplega 2500 börn, þ.e.a.s. um 30% barna á forskólaaldri. Samkv. upplýsingum Félagsmálastofnunar Reykjavíkurborgar voru nú í nóv. samtals 345 börn á biðlista á dagvistarheimili, en það gefur þó engan veginn rétta mynd af þörfinni, því að börn, sem tekin eru á dagvistarheimili allan daginn, eru eingöngu börn svokallaðra forgangshópa, þ.e. einstæðra mæðra eða námsfólks. Auk þess eru svo 1200 börn á biðlista á leikskóla. Sú tala um biðlista fyrir leikskóla segir þó ekki nema hálfa sögu um þá miklu auknu þörf, sem er á plássum fyrir börn á forskólaaldri á leikskólum. Fjölmargir foreldrar, sem bæði vinna úti, reyna ekki að sækja um dagvistun fyrir börn sín vegna langra biðlista og reyna því að leysa vandræði sín á annan hátt. Og þá er einnig ótalinn sá hópur barna, sem eru börn heimavinnandi húsmæðra sem vegna uppeldislegs þroska ættu líka að hafa rétt á slíkri dagvistun hluta úr degi.

Þetta frv. gerir einnig ráð fyrir að það fé, sem veitt yrði að láni úr Byggingarsjóði ríkisins, næði einnig til uppbyggingar dagvistarheimila fyrir aldrað fólk. Öldruðu fólki, sem skilað hefur sínu dagsverki, er nauðsyn að geta haft eitthvað fyrir stafni, ef það hefur heilsu til. Slík dagvistarheimili gætu haft aðstöðu fyrir ýmsa tómstundaiðju eða jafnvel létta vinnu fyrir aldraða. Vegna fjárskorts ríkissjóðs og sveitarfélaga hefur þessum nauðsynlegu verkefnum verið ýtt til hliðar, en ekki verið sett á bekk með nauðsynlegum forgangsverkefnum í þjóðfélaginu, eins og þau tvímælalaust ættu að vera. Fjárframlög ríkis eða sveitarfélaga hafa hvergi nærri nægt til þess að mæta þeirri brýnu þörf, sem er á uppbyggingu slíkra heimila, og litlar sem engar horfur á að unnt verði að ráðast í byggingu þeirra að einhverju marki nema alger stefnubreyting verði. Þess vegna mun að öllu óbreyttu dragast mjög á langinn að viðunandi lausn fáist þar á verði ekki til annarra ráða gripið.

Með frv. þessu er lagt til að húsnæðismálastjórn fái heimild til þess að veita sveitarfélögum, launþegasamtökum og öðrum félagslegum aðilum lán úr Byggingarsjóði ríkisins til byggingar slíkra heimila. Hér er um mikið hagsmunamál að ræða, bæði fyrir hið opinbera, atvinnufyrirtækin og siðast en ekki síst launþegana sjálfa. Gert er ráð fyrir, að ekki verði notað það fjármagn, sem Byggingarsjóður hefur nú undir höndum og notar til lánveitinga vegna íbúðabygginga og kaupa á eldri íbúðum, heldur verði notað til þess það fjármagn, sem hann getur aflað sérstaklega í samvinnu við lífeyrissjóðina í landinu með sölu skuldabréfa til þeirra, einkanlega lífeyrissjóði stéttarfélaganna. Ekki er óeðlilegt að slík samvinna gæti tekist því að hér er um mikið hagsmunamál að ræða, bæði fyrir yngri og eldri félaga í hinum ýmsu stéttarfélögum.

Reynslan sýnir að lífeyrissjóðirnir hafa í vaxandi mæli keypt skuldabréf af Byggingarsjóði ríkisins, og hafa t.d. á þessu ári keypt skuldabréf af honum langt umfram það sem lánsfjáráætlun ríkisstj. frá því í des. 1977 gerði ráð fyrir. Var þar reiknað með að sjóðurinn fengi að selja lífeyrissjóðunum skuldabréf fyrir 500 millj. kr., er hann notaði í almennar lánveitingar, en nú mun hann hafa selt þeim skuldabréf fyrir 800–900 millj. kr. Er talið að áður en árið er úti hafi hann selt þeim skuldabréf fyrir 1300–1400 millj. kr. Vegna þessara auknu skuldabréfakaupa gæti verið um að ræða fé sem ætla mætti að lífeyrissjóðirnir kynnu vel að meta að notað yrði til þess að komið yrði upp þeim félagslegu byggingum sem dagvistarheimili yngri og eldri borgara eru og eru mjög í þágu þeirra eigin félagsmanna.

Flm. leggja til að í reglugerð verði um þetta settar nánari reglur, og leggja til að m.a. verði Húsnæðismálastofnun ríkisins gert skylt að leggja á það ríka áherslu að fylgjast með og tryggja það, að hönnun og framkvæmd þessara bygginga verði með sem allra hagstæðustum hætti.

Benda má á að gegnum skuldabréfakaup lífeyrissjóðanna hefur Byggingarsjóði reynst kleift í nokkrum mæli að lána fé til íbúðarbygginga dvalarheimila aldraðra víðs vegar í landinu, sem ella væri ekki komið eins vel á veg. Með sama hætti gæti frv. þetta, ef að lögum verður, orðið sú lyftistöng sem nauðsynleg er til þess að hraða uppbyggingu dagvistarheimila.

Herra forseti. Ég vil svo að lokum vona að þetta brýna mál hljóti jákvæðar undirtektir þm. og verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. félmn.