19.10.1978
Sameinað þing: 5. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 63 í B-deild Alþingistíðinda. (84)

Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Sjútvrh. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Góðir tilheyrendur. Alþingiskosningarnar á s.l. vori mörkuðu Alþfl. nýja stöðu í íslenskum stjórnmálum. Baráttumál flokksins hlutu ríkari hljómgrunn meðal þjóðarinnar en nokkru sinni fyrr og þingstyrkur Alþfl. nærfellt þrefaldaðist. Okkur þm. Alþfl. er ljóst, að hinn fjölmenni kjósendahópur gerir miklar kröfur til okkar. En við ætlum líka að gera miklar kröfur til sjálfra okkar og við munum ótrauð vinna að framgangi jafnaðarstefnunnar og stefnumála Alþfl. innan þings og ríkisstj.

Það er eðli allra samsteypustjórna, að enginn þátttakenda nær fram öllum stefnumálum sínum. Málefnasamstarf byggist á málamiðlun ólíkra sjónarmiða. Hver flokkur finnur því kost og löst á hinu málefnalega samkomulagi. Þetta á auðvitað við um samstarfsyfirlýsingu flokkanna sem að núv. ríkisstj. standa. Alþfl. hefur ekki komið fram öllum áhugamálum sínum, en mörg stefnumála hans er engu að síður að finna í samstarfsyfirlýsingu ríkisstj.-flokkanna. Ég vil minna á nokkur þessara stefnumála.

Ég minni á samstarf milli aðila vinnumarkaðarins og ríkisvaldsins um úrlausn efnahagsmála í því skyni að treysta kaupmátt launatekna og jafna lífskjör og koma þannig á raunverulegum kjarasáttmála. Þetta er einn af hyrningarsteinum núverandi stjórnarsamstarfs. Ég minni á gerbreytta fjárfestingarstefnu, sem við Alþfl.menn lögðum ríka áherslu á fyrir kosningar, og breytingu á fjárfestingarstjórninni, þannig að fjárfestingin beinist í þjóðfélagslega arðbær verkefni og treysti þannig undirstöðu lífskjaranna. Ég minni á endurskoðun vísitölukerfisins og raunhæfa baráttu gegn verðbólgunni. Ég minni á hlutverk áætlunarbúskapar við að halda heildarumsvifum í þjóðfélaginu innan hæfilegra marka og gerð þjóðarhags- og framkvæmdaáætlana í þessu skyni. Allt eru þetta stefnumál Alþfl. sem finna má í samstarfsyfirlýsingu stjórnarflokkanna.

Í samstarfsyfirlýsingunni er líka að finna þá stefnu Alþfl., að skipulag landbúnaðarins verði endurskoðað þannig að framleiðsla landbúnaðarafurða miðist fyrst og fremst við innanlandsmarkað. Hér er á ferðinni gamalt stefnumál Alþfl. sem hann hefur barist fyrir fyrir daufum eyrum árum saman. Og í samstarfsyfirlýsingunni er líka að finna hugmyndir Alþfl. um atvinnulýðræði, um endurskoðun á starfsháttum Alþingis, um endurbætur á húsnæðislánakerfinu og um verðtryggðar lífeyrisgreiðslur í ellinni til handa öllum landsmönnum. Síðast, en ekki síst má nefna þau stefnumið að vinna gegn spillingu, misrétti og forréttindum í þjóðfélaginu, að herða viðurlög gegn skatta- og bókhaldssvikum og gera sérstakar ráðstafanir gegn því, að einkaneysla sé færð á reikning fyrirtækja, svo og sérstakar endurbætur í dómsmálunum, en á öll þessi atriði höfum við Alþfl.menn lagt ríka áherslu í málflutningi okkar á undanförnum missirum.

Öll munu þessi stefnumál miða að auknu réttlæti í landinu og traustari afkomu og auknu öryggi allrar alþýðu. Hinu er svo ekki að leyna, að á endanum er það framkvæmd stefnumálanna sem ræður úrslitum.

Að framkvæmd þessara mála og ýmissa annarra stefnumála munum við þm. Alþfl. beita okkur eftir því sem kraftar og geta leyfa. Enginn má þó ganga þess dulinn, að árangur í hinum margvíslegustu umbótamálum er undir því kominn, hvernig tekst til um almenna stjórn efnahagsmála og þó fyrst of fremst hvernig tekst að hafa hemil á verðbólgunni sem geisað hefur með ógnvekjandi hraða á liðnum mánuðum og árum.

Við Íslendingar erum í rauninni þjóð í vanda. Erlend skuldasöfnun, óðaverðbólgan og missirislegar efnahagskreppur undangenginna ára eru nægur mælikvarði á umfang þessa vanda. En af verðbólgunni hefur leitt misrétti og aðstöðubrask sem grefur undan siðferðilegum styrk þjóðarinnar og efnahagslegum mætti þjóðarbúsins. Hættan er reyndar ekki einasta fólgin í vandanum sjálfum, heldur ekki síður í viðhorfum okkar til vandans. Það má fá stundargrið með því að flýja frá vandanum ellegar í ástundum ábyrgðarlausra yfirboða. En slíkt ráðslag mun einungis auka á vandann til lengdar og bjóða hættunni heim.

Ég held að of margir hafi gert sér of litla grein fyrir þeim vanda og þeirri hættu sem verðbólgan skapar í þjóðfélaginu, hafi gert sér of litla grein fyrir því, hvernig verðbólgan fæðir sjálfa sig og leiðir þannig til enn frekari verðbólgu.

40–50% verðbólga, eins og við höfum mátt búa við að undanförnu, ruglar allt verðmætamat. Allar peningalegar ákvarðanir, hvort heldur þær eru teknar í fyrirtækjum eða á heimilunum við þetta verðbólgustig, eru brenglaðar. Peningatekjur launþega nýtast illa. Fjárfestingarákvarðanir fyrirtækja eru ruglaðar. Verðbólgan hefur alið af sér argasta óréttlæti, þar sem braskarar auðgast á kostnað alþýðunnar. Verðbólgan felur í sér stjórnlausa eignatilfærslu frá þeim, sem spara með einum eða öðrum hætti, og til hinna, sem eiga óeðlilegan aðgang að lánastofnunum. Verðbólgan þýðir einfaldlega að það er gróði að skulda. Bankar og aðrar lánastofnanir geta þannig ráðið miklu um lífskjör fólksins. Verðbólgan skapar vitaskuld engin verðmæti. Braskarar græða, en allur almenningur tapar.

En verðbólgan hefur líka önnur afgerandi og afdrifarík áhrif. Hún hefur afdrifarík áhrif á fjárfestinguna. Hin raunverulega arðsemi hverfur í skuggann. Fjárfestingin leitar í hinn auðtekna verðbólgugróða sem svarar ekki til neinna raunverulegra verðmæta. Einstaklingurinn kann að auðgast, en þjóðarbúið í heild er verr búið en ella til þess að þjóna þegnum sínum, og undirstaða lífskjaranna hefur rýrnað af fjárfestingunni í stað þess að vaxa og eflast. Verðbólgan er þannig tekin að stjórna fjárfestingunni og hagkerfið er farið að ganga fyrir verðbólgunni. Þetta er ein af orsökum þess, að lífskjör hafa ekki batnað sem skyldi á Íslandi á undanförnum árum.

Að þessu samanlögðu má ljóst vera, að eitt af meginverkefnum næstu mánaða verður að vera að brjótast úr vítahring núverandi óðaverðbólgu jafnframt því að byggja upp sterkara atvinnu- og efnahagslíf sem verði grundvöllur aukins stöðugleika og bættra lífskjara. Hin gerbreytta fjárfestingarstefna er veigamikill þáttur þessarar uppbyggingar og mikilvægur liður í baráttunni gegn verðbólgunni. Með öllum tiltækum ráðum verður að beina fjárfestingunni úr óarðbærum verðbólguframkvæmdum í tæknilega uppbyggingu í atvinnuvegunum. Fjárfestingin á að fara til þeirra verkefna sem auka afköst vinnandi handa og skila þannig auknum afrakstri í þjóðarbúið og til vinnandi fólks. Þetta er mikið verkefni, og árangurinn af því mun skila sér smám saman. En það er líka ljóst, að meðan á þessu stendur verða ýmsar að mörgu leyti ágætar framkvæmdir að bíða ellegar draga verður úr hraðanum við framkvæmd þeirra, því að heildarumsvifum í þjóðfélaginu eru vitaskuld takmörk sett. Og þar á ofan er erlend skuldasöfnun orðin svo geigvænleg, að á hana er ekki bætandi ef efnahagslegu sjálfstæði þjóðarinnar á ekki að vera stefnt í frekari voða.

Með markvissri fjárfestingarstefnu og aðhaldssemi í peningamálum má þannig treysta lífskjaragrundvöllinn í landinu og jafnframt hamla gegn verðbólguáhrifum. Þetta mun þó hrökkva skammt nema fleira komi til. Möguleikar ríkisstj. til þess að vinna gegn verðbólgunni með þessum og öðrum aðgerðum eru hins vegar takmarkaðir. Fyrstu aðgerðir ríkisstj. fólu í sér mikla niðurfærslu vöruverðs til þess að hamla gegn verðbólguáhrifum af gengisfellingunni. En satt best að segja er svigrúm til frekari aðgerða á þessu sviði mjög takmarkað. Þess vegna þarf til að koma sameiginlegt átak ríkisins og aðila vinnumarkaðarins til að fylgja þessum fyrstu aðgerðum eftir. Þar þarf til að koma sameiginleg viðurkenning allrar þjóðarinnar á því, að það sé einhvers virði að losna úr vítahring verðbólgunnar. Allir verða að vera við því búnir að leggja eitthvað af mörkum í þessari baráttu. Allir þjóðfélagshópar verða að slá af ítrustu kröfum sínum til að þessu markmiði verði náð.

Við höfum búið við efnahagslega óstjórn árum saman. Ef við ætlum að komast úr þeim farvegi verðum við að greiða það gjald sem það kostar. Fyrstu aðgerðum í niðurfærslu vöruverðs var mætt með aukinni skattheimtu og niðurskurði á útgjöldum ríkisins. Framkvæmda- og rekstrarútgjöldum ríkisins verður enn að stilla mjög í hóf á næsta ári til að mæta framhaldi þessara aðgerða. En svigrúmið til frekari tekjuöflunar við núverandi aðstæður er nánast þrotið. Það er skoðun okkar Alþfl.-manna, að tekjuskatturinn sé t.d. svo ófullkominn og óréttlátur skattur að ekki sé fært að þyngja hann til að mæta auknum útgjöldum ríkisins. Frekar er reyndar ástæða til þess að afnema hann af almennum launatekjum, svo óréttlátur er hann að ýmsu leyti, eins og margoft hefur verið rakið.

Á hinn bóginn er úr vöndu að ráða við núverandi vísitöluviðmiðun launa, þar sem gert er upp á milli skatttekna ríkisins við útreikning á vísitölubótum á laun, þannig að auka má tekjuskatt án þess að það leiði til launahækkana, en öll hækkun óbeinna skatta hefur bein áhrif á kaupgjald í landinu. Með þessu kerfi eru ekki einasta hendur ríkisins bundnar í viðureigninni við verðbólguna, heldur er beinlínis boðið heim þeirri hættu, að skattkerfið brenglist og verði sífellt óréttlátara. Öllum er okkur nefnilega ljóst, að vissir hópar fólks hafa komist undan því að greiða sinn eðlilega þátt í tekjuskattinum með einum eða öðrum hætti, og kemur það berlega fram í samanburði á skattgreiðslunni og þeim lífsstíl og þeirri eyðslu sem þessir hópar tileinka sér. Vissulega ber að grípa til allra tiltækra ráða til þess að koma í veg fyrir slíkan undandrátt undan skatti. En hitt er þó augljóst, að eyðsluskattar ná alla vega best til þessa hóps. Þess vegna eru það augljósir hagsmundir launafólks, að svigrúm sé skapað til þess að breyta skattkerfinu í þá átt. Það eru nefnilega einmitt launþegar sem eru skilvísastir tekjuskattsgreiðendur, og tekjuskatturinn hvílir einmitt þyngst á launafólki. Árangurinn í baráttunni við verðbólguna og í viðleitninni til þess að ná fram réttlátara skattakerfi er m.a. undir því kominn, hvaða skilningur ríkir um þessi sjónarmið.

Vísitöluviðmiðun launa hefur verið vörn launþeganna í viðleitninni til þess að vernda kaupmátt launatekna. Á hinn bóginn hefur reynslan sýnt að sú viðmiðun er viðsjál ef uppbygging atvinnuvega og aukning þjóðarframleiðslu fylgist ekki að við þann kaupmátt sem að er stefnt. Verðbólgan tekur þá jafnharðan til baka þann kaupmátt sem stefnt var að því að ná. Vélgengi kauplags og verðlags virðist nánast sjálfvirk við þessar aðstæður, og 60–70% árleg aukning peningatekna skilar e.t.v. fáeinum prósentum í kaupmáttaraukningu, eins og hún er mæld í opinberum gögnum. Það er hins vegar mikil spurning, hvort þar er um neina raunverulega kaupmáttaraukningu að ræða, með tilliti til þess, hve illa launþegum nýtast tekjurnar við þetta háa verðbólgustig. Eigi að ná tökum á verðbólgunni er augljóst að draga verður úr þessu vélgengi. Það má gera við endurskoðun á viðmiðun launa við vísitölu, eins og ríkisstj. hefur nú beitt sér fyrir að athugað verði í samráði við aðila vinnumarkaðarins. Sú niðurstaða, sem dregur úr víxlganginum, kann að hafa yfirbragð fórnar og hún kann að fela í sér fórn. En sú fórn á að skila sér í betra þjóðfélagi og auknum stöðugleika sem leiðir til þess að peningatekjur nýtist betur. Með hliðsjón af því óréttlæti, sem verðbólgan skapar, og þeirri lífskjararýrnun, sem felst í áhrifum hennar á þjóðfélagið, er þó greinilega til mikils að vinna.

En kjör eru fleira en launin ein. Aðstaðan til þess að eignast þak yfir höfuðið og búa í góðri íbúð eru snar þáttur í kjörum okkar. Sama gildir um aðstöðu foreldra til þess að koma barni eða börnum í dagvistun. Í sumum tilvikum verða kjör hinna lægst launuðu frekar bætt með félagslegum aðgerðum en beinni aukningu peningatekna. Þetta getur einmitt átt við bæði í húsnæðismálum og í ýmsum öðrum fétagsmálum. Á sama hátt er það snar þáttur í kjörunum að búa við öryggi í ellinni. Aðbúnaður á vinnustað og öryggi í vinnunni eru líka hluti lífskjara sem allt of lítill gaumur hefur verið gefinn. Á öllum þessum sviðum er mikið verk að vinna. Á öll þessi atriði höfum við Alþfl.-menn lagt ríka áherslu, og það er von okkar og trú, að þessari ríkisstj. muni takast að ná verulegum árangri í þessum þætti lífskjarabóta.

Um þessi atriði og lífskjörin öll í víðtækasta skilningi vill ríkisstj. hafa sem nánast samráð við aðila vinnumarkaðarins. Einn hlekkur þess eru peningalaunin og viðmiðun þeirra við vísitölu. En stefnan í skattamálum, tryggingamálum og verðlagsmálum er ekki síður mikilvæg í þessu efni að dómi okkar Alþfl.-manna.

Ríkisstj. mun fyrir sitt leyti leggja allt það af mörkum sem hún má til að vinna gegn verðbólguþróuninni, og með samstilltu átaki ríkisstj. og aðila vinnumarkaðarins — og einungis með þannig samstilltu átaki — er von á verulegum árangri. Á því, hvernig til tekst í þessum efnum, veltur líka árangur á öllum öðrum sviðum þjóðlífsins.

Herra forseti. Margvíslegt misrétti er að finna í þjóðfélagi okkar. Vissir þjóðfélagshópar virðast ævinlega geta matað krókinn meðan aðrir bera skarðan hlut frá borði. Í skjóli aðstöðu er auði safn að. Á sama hátt virðast ýmsir aðilar standa utan og ofan við dómskerfið í landinu. Fjármálaleg afbrot liggja óafgreidd í dómskerfinu árum saman. Skattsvik eru bæði algeng og almenn. Hér þarf að eiga sér stað aukið aðhald af hálfu ríkisins og endurbætur í meðferð þessara mála. En fleira þarf til að koma. Hér dugar ekkert minna en viðhorfsbreyting stjórnvalda og þjóðarinnar allrar. Það er von okkar Alþfl.-manna að takast megi að varða veginn til þessarar áttar með starfi okkar á Alþ. og í ríkisstj. á þessu kjörtímabili.

Margvísleg verkefni er við að fást. Ég leyfi mér að trúa því, að innsta og einlægasta ósk okkar allra, hvar sem við stöndum í flokki, sé að vinna þjóðfélagi okkar vel, að ætlun okkar allra sé að bæta þjóðfélagið og gera það réttlátara. Vitaskuld greinir menn á um það í ýmsu greinum í hverju réttlæti og framfarir séu helst fólgin. Því skiptast menn í stjórnmálaflokka, en ekki síður þá vegna hins, að skoðanir eru skiptar um hvaða leiðir skuli velja að settum markmiðum.

Við Alþfl.-menn stefnum að því, að á Íslandi verði til þjóðfélag sem byggist á samhug allra, þar sem hæfileikar og áhugi einstaklinga fái notið sín þeim sjálfum og þjóðfélaginu í heild til heilla. Jafnaðarstefnan er jafnréttisstefna sem berst gegn forréttindum í hvaða mynd sem þau birtast. Hún er baráttutæki þeirra sem engra forréttinda njóta í baráttunni gegn forréttindahópunum. Alþfl. vill efla mannúð og mannréttindi, tryggja persónufrelsi einstaklinganna og stuðla að efnahagslegum framförum í þágu heildarinnar. Með þessi viðhorf að leiðarljósi munum við starfa í þessari ríkisstjórn. — Góðar stundir.