04.12.1978
Neðri deild: 26. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1261 í B-deild Alþingistíðinda. (848)

114. mál, dómari og rannsóknardeild í skattamálum og bókhaldsmálum

Dómsmrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Í frv. þessu kemur fram lofsverð viðleitni til þess að taka alvarleg afbrotamál í þjóðfélagi okkar fastari tökum. Við það hef ég sannarlega ekkert að athuga og tek undir það. Ég get einnig tekið undir það, sem kom fram hjá hv. frsm., að skattsvik eru tvímælalaust allt of mikil. Ekki skal ég segja hvort það er rétt tala sem komið hefur fram, að skattsvik séu 27 milljarðar. Ég hef að vísu, eftir að ég heyrði þá tölu, reynt að afla mér upplýsinga um hana, en ekki getað fengið hana staðfesta hjá neinum fróðum manni um þessi mál. Raunar verðum við að hafa í huga, að mikið af því, sem við köllum skattsvik eða óeðlilega skattgreiðslu, má eflaust rekja til skattalaganna, þar sem því miður finnast, þrátt fyrir ítrekaða viðleitni, ýmsar glufur sem ýmsum tekst að sleppa í gegnum að því er virðist. Ég vona því að töluvert af þessari ískyggilegu upphæð sé þannig til komið og megi lagfæra með ítrekaðri athugun á skattalögunum.

Engu að síður eru skattsvik allt of mikil og sérstaklega alvarlegt að iðulega tekur meðferð þeirra nokkuð langan tíma í því kerfi sem við búum við, og auðvelt er að sýna fram á í verðbólguástandi eins og okkar að skattsvik geta jafnvel verið arðvænleg, þ.e.a.s. ef málarekstur tekur langan tíma og sektir eru ekki nógu miklar. Nú er það hins vegar staðreynd, að í þeim lögum, sem koma til framkvæmda eftir áramótin, er tekið miklu harðar á þessu en áður var og skattsvik færð undir svipuð ef ekki sömu refsiákvæði og önnur skyld afbrot. M.a. er í lögunum heimild til fangelsunar eftir ítrekuð brot, ef ég man rétt í allt að 6 ár. Ég hygg því, að segja megi að refsiákvæði séu orðin fullnægjandi eins og þar er gert ráð fyrir.

Núverandi ástand er þannig, að þessi mál fara um hendur skattayfirvalda og skattsektanefnd úrskurðar um refsiákvæði við skattsvikum. Gert er ráð fyrir að leggja hana niður og sameina hana ríkisskattanefnd. Hvort það breytir þessu ástandi eitthvað skal ég ekki um segja. Þó hygg ég að það hljóti að gera það, því að nefndin verður föst stofnun með fast starfslið og á að hafa meiri möguleika til þess að hraða meðferð þeirra mála sem þangað koma. Síðan geta mál að sjálfsögðu farið fyrir dómstóla.

Undan því hefur verið kvartað að mál, sem fara fyrir dómstóla, sem eru mjög fá, — ég bið menn að taka eftir því að þau mál eru mjög fá, sem áfrýjað er til dómstóla, — taki þar langan tíma og skattsvik fái ekki þar þá meðferð sem nauðsynleg er, jafnvel í þessum fáu tilvikum. Þar hygg ég að sé fyrst og fremst um tvennt að ræða. Álag er ákaflega mikið á saksóknara ríkisins sem fær slík mál, og hjá dómstólum. sem fjalla um málin, er ekki sú sérfræðiþekking fyrir hendi, sem nauðsynleg kann að vera í þessu sambandi. Nú er það spurningin, hvernig eigi að ráða bót á þessu.

Í þessu frv. er gert ráð fyrir að setja á fót sérstakan dómstól sem fjalli um rannsókn og dæmi í slíkum málum. Ég hef lýst því áður opinberlega, að ég er mótfallinn því að setja á fót sérstakan dómstól. Ég tel að þetta megi leysa með því að skapa þá sérfræðiþekkingu hjá saksóknara og dómstólum, sem nú eru, að hraða megi meðferð slíkra mála. Ég óttast og reyndar veit að sérstakur dómstóll muni hafa í för með sér miklu meiri kostnað. Það liggur í hlutarins eðli, en þyrfti að skoðast nánar, m.a. í tengslum við þetta frv. Upplýsingar þurfa að koma fram um slíkan kostnað. Sérhver sérstakur dómstóll hefur meiri kostnað í för með sér en efling þeirra dómstóla og stofnana innan ríkiskerfisins sem þegar eru fyrir.

Einnig hefur athygli verið vakin á því, að mál sem þessi eru einnig oft flækt inn í önnur afbrotamál, sem þá mundu ekki falla undir slíkan dómstól. Því yrði málið að vera mál fleiri aðila, kannske fleiri rannsóknaraðila og fleiri aðila í dómsmeðferð, sem að sjálfsögðu mundi verða þyngra í vöfum. Auk þess gengur þessi hugmynd gegn þeirri hugmynd. sem fylgt hefur verið upp á síðkastið, að aðskilja rannsókn og dóm, en um það hefur verið almenn samstaða. Hygg ég að allir, sem að þessum málum starfa nú, séu mjög á þeirri skoðun, að sá aðskilnaður, sem orðinn er á þessu með rannsóknarlögreglu ríkisins nú, sé verulega til bóta og stuðli að hraðari meðferð mála í rannsókn og betri rannsókn þeirra. Ég lýsi því einnig efasemdum mínum um það atriði að sameina beri rannsókn á skattsvikamálum og dómsmeðferð.

Ég vil þó endurtaka að lokum að þessi mál þarf vitanlega að lagfæra og þau þurfa að fá ákveðnari meðferð í kerfinu. Þau eru ekkert betri afbrotamál en hver önnur fjársvik og mér virðist að því miður hafi ekki verið þannig á málin litið í ýmsum tilfellum.a.m.k. bera sektir ekki vott um það, finnst mér. Þetta þarf vitanlega að breytast. Þetta er þjófnaður, engu betri en hver annar þjófnaður í þjóðfélaginn. Því hafa þessi mál nú verið tekin til endurskoðunar.

Frsm. sagði að allir stjórnmálaflokkar hefðu lofað bót og betrun. Ég skal ekkert segja um það, en ég vil leggja á það áherslu, að dómsmrn. er ákveðið því að stuðla að endurbótum á þessu sviði. Fulltrúi þess vinnur með fulltrúum skattyfirvalda og fjmrn. að þessari skoðun nú, og ég geri mér fastlega vonir um að niðurstöður af þeirri athugun liggi fljótlega fyrir. Getur þá sú n., sem þetta mál fær til meðferðar, að sjálfsögðu fengið aðgang að þeim. Ég geri jafnframt ráð fyrir því að þær niðurstöður leiði til stjfrv. um bætta meðferð á þessum málefnum.