04.12.1978
Neðri deild: 26. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1275 í B-deild Alþingistíðinda. (855)

114. mál, dómari og rannsóknardeild í skattamálum og bókhaldsmálum

Páll Pétursson:

Herra forseti. Að gefnu tilefni og vegna þess að hv. 1. flm. misskildi orð mín kemst ég ekki hjá því að taka til máls.

Hann gerði að umræðuefni söguna um úlfinn, en hann misskildi söguna um úlfinn. Hyggnir búmenn leggja svona sögur á minnið og nota þær ef þeir fá ýtna og hávaðasama smala sem eru að vekja athygli á sér. Úlfarnir eru alls staðar á sveimi og menn geta verið hræddir um smalana, að það verði ekkert tekið mark á þeim þegar þeir loksins sjá úlfana. Þeir eiga nefnilega að passa sig, hafa augun hjá sér, en ef þeir vilja láta taka mark á sér þegar þessir voðalegu úlfar koma, þá mega þeir ekki vera búnir að gera húsbændur sína og samstarfsfólk leitt á þessum upphrópunum.

Ég vil undirstrika það sem hér hefur komið fram, að viðhorf fólks til skattamála þarf að breytast. Menn þurfa að vanda framferði sitt allt og siðgæði. Hæstv. kirkjumrh. hefði getað minnt menn á hið sígilda boðorð: „Þú skalt ekki stela,“ því að það á við í þessu tilefni. Ég er ekki ánægður með það orðalag sem hér var viðhaft áðan, að stjórnvöld ættu að rækta hugarfarsbreytingu. Þetta minnir mig á innrætingarkenninguna frá í vor. Það er betra, að „kona úr Vesturbænum“ heyri ekki svona orðalag.