05.12.1978
Sameinað þing: 30. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1278 í B-deild Alþingistíðinda. (863)

330. mál, atvinnumál aldraðra

Félmrh. (Magnús H. Magnússon):

Herra forseti. Þegar þetta mál kom síðast til umr. á Alþingi í mars 1977 var frá því skýrt, að utanrrn. hefði verið beðið að útvega lög og fáanlegar upplýsingar frá Norðurlöndum sem að gagni mættu koma ef til samningar lagafrv. í samræmi við umrædda þál. kæmi. Svör við þessari málaleitan hefðu borist frá sendiráðum Íslands í Danmörku, Noregi og Svíþjóð.

Danska félmrn. skýrði frá því, að þar í landi væru engin sérstök ákvæði um atvinnu fólks sem náð hefði ellilífeyrisaldri, sem er 67 ár, en þessum aldursflokki sé vísað á vinnu á sama hátt og öðru vinnandi fólki. Þess var einnig getið, að á vegum vinnumálaráðuneytisins í Danmörku væru tvær ellimálanefndir sem fjalla eiga um vandamál aldraðra í sambandi við atvinnu bæði hjá einkaaðilum og hinu opinbera og með það fyrir augum að halda öldruðu og miðaldra fólki í vinnu. Nefndirnar sinna þó næstum eingöngu þeim sem eru yngri en 67 ára.

Í svari frá sendiráðinu í Svíþjóð kom fram að þar í landi séu engin lög sem tryggi öldruðum vinnu eða rétt til vinnu og að engar upplýsingar séu um atvinnumál fyrir hendi þar er hægt væri að styðjast við við samningu umrædds lagafrv.

Í Noregi mun ekki heldur vera um að ræða neina löggjöf um þetta efni, en þaðan hafa borist nokkrar skýrslur um málefni aldraðra, þ. á m. um atvinnumál þeirra.

Félmrn. ræddi í mars 1977 við þá Björn Jónsson forseta Alþýðusambands Íslands og Ólaf Jónsson forstjóra Vinnuveitendasambands Íslands um málið og lagði til að samböndin tilnefndu fulltrúa til þess ásamt fulltrúa frá félmrn. að athuga og gera till. um atvinnumál aldraðra með tilliti til þál. Alþingis 14. maí 1975 og þeirra upplýsinga, sem aflað hefði verið um stöðu þessara mála í Danmörku, Noregi og Svíþjóð, og með hliðsjón af niðurstöðum og tillögum Jóns Björnssonar sálfræðings í skýrslu þeirri sem hann samdi fyrir Félagsmálaráð Reykjavikurborgar um vinnugetu og atvinnumöguleika aldraðra og hv. fyrirspyrjandi minntist á áðan.

Eins og fram kom í svari hæstv. fyrrv. félmrh. á Alþingi um sömu fyrirspurn sem hér er til umr. 15. mars í fyrra, kvað forseti Alþýðusambands Íslands sig vera hlynntan þessari hugmynd og mundi hann hreyfa henni í miðstjórn ASÍ og skýra rn. frá undirtektum þar. Forstjóri Vinnuveitendasambands Íslands tók í sama streng og lofaði að hreyfa fyrrgreindri hugmynd í framkvæmdastjórn Vinnuveitendasambandsins og skýra rn. frá skoðunum manna þar og undirtektum. Þar sem rn. hafði ekki heyrt neitt frá þessum samtökum um frekari viðbrögð þeirra við fyrrgreindri tillögu rn. hafði það samband við starfandi framkvæmdastjóra ASÍ og forstjóra Vinnuveitendasambands Íslands og fékk hjá þeim þær upplýsingar, að mál þetta hefði lítið verið rætt í miðstjórn ASÍ og framkvæmdastjórn Vinnuveitendasambands Íslands. Jafnframt tóku þeir fram að viðræður fulltrúa sambandanna um málefni aldraðs fólks hefðu að mestu eða öllu leyti snúist um greiðslu og verðtryggingu lífeyris til þess.

Herra forseti. Ég er sammála hv. fyrirspyrjanda um það, að þetta mál er vandasamt og viðamikið, og ég hef mikinn hug á því að taka þetta mál upp aftur og taka það föstum tökum, eins og hv. fyrirspyrjandi kom inn á. Það á vissulega fullan rétt á sér.