05.12.1978
Sameinað þing: 30. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1279 í B-deild Alþingistíðinda. (865)

89. mál, Vesturlína

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þá umr. sem hér varð um daginn varðandi Vesturlínu, en taldi þó rétt vegna þeirra ummæla, sem hér féllu eftir að ég talaði síðast í málinu að greina í örstuttu máli frá vissum þáttum sem ég hef aflað mér upplýsinga um síðan.

Það liggur fyrir, að 28. ágúst ritaði fjmrn. iðnrn. bréf þar sem svarað var neitandi beiðni iðnrn. um tiltekna fjárveitingu í Vesturlínu þannig að unnt væri að ljúka henni á næsta ári.

Þetta er síðasta gagnið sem snertir þetta mál sem fyrir liggur í iðnrn. Það bárust því engin frekari gögn þar að lútandi frá fyrrv, ríkisstj. Ég hef kannað þetta mál í fjmrn. og fjárlaga- og hagsýslustofnun. Í fjárlaga- og hagsýslustofnun liggja fyrir vinnugögn sem dags. eru 28. ágúst, þar sem byggðalínur eru sýndar ýmist með fjárveitingunni 1953 millj. kr. eða 4533 millj. kr. varðandi fjárveitingu á komandi ári, og hvað hærri upphæðina snertir er vísað neðanmáls til Vesturlínu með 3980 millj. kr. fjárveitingu. Þetta síðara vinnugagn varð til, eftir upplýsingum sem ég hef aflað mér, að kvöldi 31. ágúst, að kallaður var út starfsmaður fjárlaga- og hagsýslustofnunar til þess að ganga frá vinnugagni sem síðan var lagt fyrir ríkisstjórnarfund, síðasta fund fráfarandi ríkisstj., að morgni 1. sept. og um málið var þar bókað:

„Fjmrh. lagði fram yfirlit yfir lánsfjármagnaðar framkvæmdir, dags. 28. ágúst 1978.“

Önnur afstaða var ekki tekin af fráfarandi ríkisstj. um þetta og þessari afgreiðslu var ekki komið lengra. Um hana hafa engin gögn borist iðnrn. og ekki heldur til stjórnar Rafmagnsveitna ríkisins, sem eins og hér var upplýst í umr. um daginn hefur það fyrir venju, að leggja ekki út í efnispantanir nema staðfesting liggi fyrir á fjárhagslegum skuldbindingum þar að lútandi.

Þetta vildi ég að hér kæmi fram, en skal ekki orðlengja þetta frekar.