05.12.1978
Sameinað þing: 30. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1280 í B-deild Alþingistíðinda. (868)

89. mál, Vesturlína

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Ástæðan fyrir því, að ég féll frá orðinu áðan, var sú að ég var búinn að gleyma hvað var til umr., en það rifjaðist upp fyrir mér þegar ég hlustaði á hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson, 5. þm. Vestfl., hvað það var, nefnilega Orkubú Vestfjarða. Um það hef ég ýmislegt að segja og þá stefnu sem þar var tekin í raforkumálum. Það er auðvitað enginn tími til að fara í umr. um slíkt mál á þeim tíma sem ég hef hér til umráða, svo ég ætla að láta nægja að varpa fram þeirri spurningu til umhugsunar alþm., hvernig þeir haldi að raforkumálum landsins verði komið þegar öll kjördæmin eru komin með sín orkubú, þegar öll kjördæmin eru búin að fá afskrifaðar skuldir, þegar öll kjördæmin eru búin að fá 20% af verðjöfnunargjaldi, ef það væri hægt að skipta því þannig, og hvernig væri ástatt ef allir ættu skaðabótakröfur vegna þess að þeir fengu ekki rafmagn á þeim tíma sem aðrir hafa fengið það. Ég ætla að þá yrði illa komið raforkumálum landsins.

Af deilum núv. og fyrrv. hæstv. iðnrh. ætla ég ekkert að skipta mér, en ég kannast auðvitað ekki við neinn kvöldfund sem hér var mikið til umr. fyrir hálfum mánuði, enda var hann enginn. Það hefur verið upplýst síðar, og ber að fagna því, að það a.m.k. er þó ekki lengur ásteytingarsteinn.