05.12.1978
Sameinað þing: 30. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1282 í B-deild Alþingistíðinda. (870)

98. mál, raungildi olíustyrks

Viðskrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Talið er að olíunotkun til upphitunar íbúðarhúsa sé að meðaltali 12–15 lítrar á ári á hvern rúmmetra húsnæðis. Notkun er misjöfn eftir landssvæðum, veðráttu, aldri og gerð húsa, ketilnýtingu o.fl. Í Reykjavík og nágrenni er meðalnotkun talin 12–13 lítrar á rúmmetra á ári, en viða úti á landi er hún meiri, 14–15 lítrar, og sums staðar miklu meiri eða yfir 20 lítra á rúmmetra. Ekki eru til nákvæmar tölur um meðalstærð íbúða í landinu né um meðalfjölda íbúa á íbúð.

Í eftirfarandi tölum, er gengið út frá því, að stærð íbúðar sé 300 rúmmetrar, ca. 100 fermetrar, íbúafjöldi sé hjón með tvö börn og olíunotkun sé 14 lítrar á rúmmetra á ári. Reiknað er með að meðalnotkun á heitu vatni sé 1.9 rúmmetrar á hvern rúmmetra í íbúð á ári.

Miðað við ofangreindar forsendur hefur hlutdeild olíustyrks í kyndingarkostnaði með olíu á ári, miðað við olíuverð í mars ár hvert, verið sem hér segir: 1974 nam þessi hlutdeild 59.6%, 1975 nam hún 37.7%, 1976 nam hún 36.1%, 1977 nam hlutdeildin 31.4%, 1978 25.5% og í sept s.l. 20.1%.

Eins og hv. fyrirspyrjandi gat um eru tölur um olíustyrk í fjárlagafrv. fyrir árið 1979 miðaðar við sömu fjárhæð og í ár, þ.e.a.s. 10 500 kr. á mann eða alls 42 000 kr. á ári miðað við þá fjölskyldustærð sem hér var reiknað með. Miðað við núverandi olíuverð nemur olíustyrkur því um 20% af þeim meðaltalskyndingarkostnaði sem hér var gerð grein fyrir. Olíuverð til húsakyndingar að frádregnum olíustyrk hefur 81/2-faldast frá 1974 til sept. 1978. Á sama tíma hefur olíuverð án olíustyrks rúmlega fjórfaldast. Hitaveituverð í Reykjavík hefur á sama tíma fjórfaldast.

Það er einnig fróðlegt að velta því fyrir sér í þessu sambandi , þó ekki sé um það spurt í fsp., hverju olíustyrkurinn þyrfti að nema árið 1979 til þess að halda hlutföllum af kyndingarkostnaði undanfarandi ára. Miðað að við verðlag á olíu og olíustyrk í mars ár hvert verða niðurstöðurnar þessar, ef gengið er út frá núgildandi olíuverði á árinu 1979:

Ef olíustyrkurinn ætti að nema því á mann sem hann nam 1974 sem hlutfall af olíuútgjöldum til kyndingar, þá ætti hann að vera 31 140 kr. á mann. Ef hann ætti að halda hlutfallinu frá 1975 þyrfti hann að vera 19 700 kr. á mann. Ef hann ætti að halda hlutfallinu frá 1976 þyrfti hann að vera 18 840 kr. á mann. Miðað við árið 1977 þyrfti hann að vera 16 390 kr. á mann. Og miðað við 1978 þyrfti hann að vera 13 330 kr. á mann.

Það er sem sagt alveg augljóst af þessum tölum, sem ég hef hér rakið, að veruleg öfugþróun hefur átt sér stað varðandi hlutfall olíustyrks af kyndingarkostnaði. Þess vegna hefur það verið tekið upp þegar í ríkisstj., að gerð verði nokkur bragarbót á í þessum efnum áður en fjárlög verða afgreidd fyrir árið 1979. Ég kann því miður ekki vegna fsp. hv. fyrirspyrjanda að nefna ákveðnar tölur í því sambandi, en umr. eru í gangi um það mál innan ríkisstj. milli viðskrn. og hæstv. fjmrh.

Í tengslum við þetta vil ég gjarnan koma því á framfæri, sem ekki hefur verið rætt áður á hv. Alþ. nú á þessum haustdögum, að veruleg hækkun hefur átt sér stað á olíu- og bensínvörum á undanförnum mánuðum. Þannig hefur bensín hækkað um 40.86% frá 24. júlí til 1. nóv. 1978. Gasolía hefur á sama tíma hækkað um 34.29% og fuelolía hefur hækkað á sama tíma um 14.8%. Ef menn velta því fyrir sér hvað þessi mikla hækkun á olíu þýðir í okkar þjóðarbúskap, þá kemur í ljós að þessi hækkun á bensíni, sem ég gat um áðan, hefur í för með sér um 5.7 millj. dollara hækkun á ársgrundvelli og heildarhækkunin á ári fyrir íslenska þjóðarbúið, sem stafar af þessum breytingum á verði á bensíni og olíum, er hvorki meira né minna en 6.3 milljarðar kr. í viðbótarútgjöldum í beinhörðum gjaldeyri. Þetta eru tölur sem er ákaflega nauðsynlegt fyrir alla, sem velta fyrir sér horfum í íslenskum efnahagsmálum, að hafa í huga. Einnig er vert að minna á að búist er við enn frekari hækkun á olíu og bensíni á fyrra missiri næsta árs a.m.k.