05.12.1978
Sameinað þing: 30. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1283 í B-deild Alþingistíðinda. (872)

98. mál, raungildi olíustyrks

Kjartan Ólafsson:

Herra forseti. Það voru ákaflega fróðlegar upplýsingar sem fram komu í svari hæstv. viðskrh. við þeirri fsp. sem við hv. 3. þm. Austurl. bárum hér fram varðandi olíustyrkinn.

Eins og þær tölur, sem hæstv. ráðh. gerði hér grein fyrir, bera með sér, hefur þróunin orðið sú, að í stað þess að hlutdeild olíustyrksins nam rétt um 60% á árinu 1974, þá var þessi sama hlutdeild komin niður í aðeins þriðjung þeirrar upphæðar eða um 20% nú í sept. 1978. Þessi þróun á stjórnartímabili fyrri ríkisstj. er vægast sagt átakanleg. Sannleikurinn er sá, að það, hversu kjör manna eru gífurlega mismunandi hvað snertir hitunarkostnað húsnæðis eftir því hvar á landinu fólk er búsett, er með öllu óþolandi. Það verða varla fundin nokkur önnur útgjaldasvið fjölskyldna í landinu þar sem mismunun eftir búsetu er jafngeigvænleg og hvað varðar húshitunarkostnaðinn. Ég hygg að það sé alls ekki of mikið sagt, að það kosti svo sem fimmfalt meira að hita upp húsnæði með olíu annars vegar, sem fólk verður að búa við víða úti um landið, eða að hita það upp með þeim kostnaði sem hér er um að ræða hjá Hitaveitu Reykjavíkur.

Þetta misrétti verður að sjálfsögðu að leiðrétta. Það er trúlega ekki hægt að gera með einu stökki, en ég vil vænta þess, að við fjárlagaafgreiðslu nú eigi sér stað hvað varðar olíustyrkinn mjög veruleg breyting frá því sem tölur fjárlagafrv. gera ráð fyrir. Það er sanngirnismál, og þar dugar ekki nein smávægileg leiðrétting.

Ég vil aðeins minna á það, að eins og hér hefur komið fram samþ. verkalýðshreyfingin á sínum tíma að þetta eina prósentustig í söluskatti, sem upphaflega átti að verja til greiðslu olíustyrks, gengi ekki út í kaupgjald. Verkalýðshreyfingin afsalaði sér réttinum til þess að fá þetta eina prósentustig greitt í kaupi. En á móti var því lofað, að þessi upphæð, sem söluskattsstigið gæfi, rynni í heild til greiðslu á olíustyrknum til að jafna þarna lítillega milli þegna þjóðfélagsins.

En aðalatriði málsins í þessu sambandi er það, að eins og mál standa nú greiðir það fólk, þeir þegnar þjóðfélagsins sem þurfa að kynda hús sín með olíu og þeir eru ekki langt frá að vera þriðjungur þjóðarinnar, — þeir greiða sem slíkir a.m.k. 1/3 af þeim heildartekjum sem inn koma fyrir þetta söluskattsstig. En það er hins vegar orðið minna en 1/3 af þeirri upphæð sem inn kemur fyrir söluskattsstigið sem rennur til greiðslu á olíustyrk. Í raun og veru fær þetta fólk því ekki eina einustu krónu í styrk eins og málið stendur. Þetta fólk borgar í þessu söluskattsstigi sinn hluta, og sú upphæð er hærri en það sem það fær til baka.