19.10.1978
Sameinað þing: 5. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 77 í B-deild Alþingistíðinda. (88)

Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Félmrh. (Magnús H. Magnússon):

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Ef eignarskattsaukinn kemur eins harkalega niður á lágtekjufólki og hv. síðasti ræðumaður tók dæmi um, þá er það aðeins sönnun um vitlaus skattalög sem nú eru í gildi og núv. ríkisstj. hefur ákveðið að breyta.

Ég mun í máli mínu aðallega ræða nokkur atriði úr samstarfsyfirlýsingu stjórnarflokkanna, sem heyra undir þau rn. sem ég hef starfað við. Í lokin mun ég þó einnig lýsa viðhorfi mínu til efnahagsmálanna almennt og skýra þá megináherslu, sem ég legg á að samstaða náist á næstu mánuðum um ákveðnar og varanlegar aðgerðir gegn verðbólgunni.

Ef hægt er að segja að eitthvert eitt mál hafi öðrum fremur skipað öndvegi í stefnumörkun Alþfl., þá eru það almannatryggingarnar. Það er og hefur verið stolt okkar Alþfl.-manna að hafa frá öndverðu skipað forustusveit þeirra sem barist hafa fyrir réttarbótum til handa öldruðum, sjúkum og öryrkjum. Á þessu sviði hafa margir sigrar unnist þótt hér verði aldrei unninn neinn fullnaðarsigur. Breyttir tímar og breyttar aðstæður kalla sífellt á ný úrræði á þessu sviði. Í dag stöndum við þar, að við búum við tvíþætt lífeyriskerfi: annars vegar almannatryggingar og hins vegar hina svokölluðu frjálsu lífeyrissjóði.

Almannatryggingakerfið veitir vissulega mikilsverð réttindi, ekki síst eftir að lífeyrisgreiðslur þess voru með lögnum tengdar kauphækkunum. Stöðugt er í gangi endurskoðun á þeirri löggjöf sem um almannatryggingar fjallar. Er það ætlun mín að þar verði hvorki staðnæmst né hægt á ferðinni.

Hinn þáttur lífeyriskerfisins eru frjálsu lífeyrissjóðirnir sem gegna ákaflega mikilsverðu hlutverki við að bæta stöðu þeirra sem verða fyrir fjárhagslegu áfalli, ef starfsorka til tekjuöflunar glatast eða fyrirvinna fellur frá. Raunar er þýðing þeirra þegar orðin slík, að þeir eru orðnir ómissandi þáttur í þeirri viðleitni að tryggja afkomu öryrkja, aldraðra og sjúkra. Því er hins vegar ekki að neita, að ýmsir ágallar hafa komið fram á þessu kerfi. Er slíkt ekki að undra þegar þess er gætt, að hér á landi er nánast engri löggjöf til að dreifa um starfsemi þeirra. Sjóðirnir, sem eru fjölmargir, hafa þess vegna sjálfir sett sér sín lög, og er því að vonum afar mismunandi á hvern hátt þeir tryggja réttindi félagsmanna sinna. Það bil, sem þarna hefur víða myndast, verður að brúa og tryggja öllum lífeyrisþegum ákveðin, samræmd lágmarksréttindi, m.a. með því að verðtryggja allan lífeyri og samræma reglur um réttindaöflun og greiðslur, m.ö.o. að búa einnig til innan þessa þáttar lífeyriskerfisins eitt samfellt réttindakerfi sem taki til allra landsmanna. Er í þessu sambandi nauðsynlegt að hafa í huga að þrátt fyrir mikla fjölgun lífeyrissjóðanna á síðustu árum á þó enn meira en helmingur allra lífeyrisþega enga aðild að lífeyrissjóðum.

Þessu mikla misrétti hefur ríkisstj. sett sér að bæta úr með því að stefna að einum lífeyrissjóði fyrir alla landsmenn. Framkvæmd þessa mikilsverða stefnumáls hefur lent í mínum höndum og mun ég einskis láta ófreistað til að það geti komist sem allra fyrst í höfn. Vonast ég raunar til að geta um næstu mánaðamót lagt fram frv. til l. um almenn eftirlaun til aldraðra. Það frv. nær að vísu ekki því lokamarki sem að er stefnt, enda málið ákaflega flókið og viðkvæmt. Þetta frv. mun þó rétta verulega hlut sem allra flestra þeirra sem hafa fram til þessa einungis notið óverðtryggðs lífeyris eða verið alveg utan lífeyrissjóða, og verður það því umtalsverður áfangi að þessu lokamarki.

Í þeim kafla samstarfsyfirlýsingarinnar, sem fjallar um húsnæðismál, er vikið að nokkrum mikilsverðum málum sem í minn hlut kemur að hrinda í framkvæmd. Vil ég því gera nokkra grein fyrir því, hvernig þar miðar.

Nú er að ljúka störfum nefnd sem fjallað hefur um endurskoðun laga um byggingu svokallaðra félagslegra íbúða, einkum verkamannabústaða og leiguíbúða á vegum sveitarfélaga. Vænti ég þess, að frv. um þennan mikilsverða þátt í starfsemi Húsnæðisstofnunar ríkisins geti komið fyrir Alþ. strax í haust.

Þá hef ég nú nýlega skipað starfshóp og fengið það hlutverk að endurskoða alla aðra þætti í starfsemi Húsnæðismálastofnunar. Er þessum hópi m.a. ætlað að kanna möguleika á því, að lánum stofnunarinnar verði breytt þannig að þau verði ákveðið hlutfall af byggingarkostnaði nýs húsnæðis, innan hóflegra stærðarmarka þó, og lán til kaupa á eldra húsnæði verði hlutfall fjármagnsþarfar kaupenda. Í því væri fólgin gerbreyting, ef hægt væri að efla sjóði Húsnæðismálastofnunar svo að lán hennar nægðu til að fullnægja að mestu eða öllu eðlilegri lánsþörf húsbyggjenda og að útborgun þess fjár gæti haldist í hendur við framkvæmdahraðann. Eigi slíkt markmið að nást verður að koma til gagnger endurskoðun á teknaöfluninni og ný tengsl við hinn almenna fjármagnsmarkað í landinu, ekki síst lífeyrissjóðina, en þess verður þá jafnframt að gæta, að þessum sjóðum sé ekki sóað á verðbólgubálinu, þannig að eilíflega verði að ausa í þá nýju fjármagni. Hér á ég við það, að lánin verði verðtryggð að fullu, en vextir hins vegar færðir mjög niður, verði sennilega aðeins 2–3%. Jafnframt verður svo að varast að fjármagnsbyrðin verði lántakendum ofviða, svo sem með lengingu lánstímans og sveigjanleika í sambandi við endurgreiðslur, t.d. með takmörkun þeirra við ákveðið hlutfall af ráðstöfunartekjum lántakandans. Koma hér raunar ýmsar aðrar leiðir til greina.

Ég trúi því, að þessar breytingar megi gera í skynsamlegum áföngum og að þær muni í raun koma öllum til góða, og það sem kannske er mest um vert: verða mjög öflugt vopn í baráttunni gegn verðbólgunni.

Ég hef í skipunarbréfi til þessa starfshóps óskað eftir athugun á ýmsum fleiri atriðum sem ég tel að betur megi fara. Má þar til nefna stofnun nýs lánaflokks sem ætlað er það hlutverk að veita lán til endurbóta og viðhalds á eldra húsnæði. Hef ég beðið um að gerð verði sértök athugun á lánveitingum til byggingar húsnæðis fyrir aldraða og fólk með sérþarfir og að kannaðir verði möguleikar á stuðningi við nýjungar í byggingariðnaði, stöðlun húshluta og margvíslega hagræðingu sem horft gæti til lækkunar á byggingarkostnaði.

Ég hef lagt fyrir þennan starfshóp að hraða störfum sínum eftir föngum og vænti þess, að hægt verði að kynna hv. alþm. niðurstöður hans fyrir þinglok næsta vor og helst ef tækist að samþ. lög um þetta efni strax á þessu þingi.

Loks má geta þess undir þessum lið, að nú hefur tekið til starfa nefnd sem ég skipaði til að semja frv. að nýrri löggjöf um leiguhúsnæði. Er mikil þörf orðin á slíkum lögum sem gætu komið fastari skipan á þessi mál en nú er, eytt margvíslegri réttaróvissu og tryggt betur réttarstöðu leigutaka og raunar einnig leigusala. Ég vænti þess, að þessi n. ljúki störfum fyrir n.k. áramót.Ég hefði viljað ræða hér um heilbrigðismál, sem eru mjög stór og flókinn málafokkur, og um verkefnaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, en til þess vinnst ekki tími að þessu sinni.

Herra forseti. Ég hef nú drepið á nokkur þeirra mála sem stjórnarflokkarnir hafa náð samstöðu um og falla undir mín rn. Ég geri mér ljósa grein fyrir því, að þarna bíða mörg tækifæri til að hrinda í framkvæmd ýmsum málum sem horfa til framfara og heilla fyrir land og lýð. Þau tækifæri mun ég ekki láta fram hjá mér fara sé þess nokkur kostur. Vænti ég góðs samstarfs við hina stjórnarflokkana, enda ber starfsyfirlýsingin þess glöggt vitni, að núv. ríkisstj. vill verða ríkisstjórn framfara og félagshyggju.

Hins geng ég þó ekki dulinn, að höfuðverkefni ríkisstj. hlýtur að verða á sviði efnahagsmálanna og ber þar hæst að vonum baráttuna við verðbólguna. Hvernig sem öðrum málum lyktar verður ríkisstj. þó fyrst og fremst metin og dæmd eftir árangri sínum í þeirri baráttu. Ríkisstj. hefur gert samstarf við aðila vinnumarkaðarins að hornsteini samstarfsyfirlýsingarinnar. Samráð við og samvinna með launþegum og vinnuveitendum er grundvöllur efnahagsmálastefnunnar sem verður að leiða til árangurs, því að náist árangur ekki eftir þeirri leið veit ég satt að segja ekki hvað bíður okkar. Þjóðin þolir ekki lengur þá óðaverðbólgu sem hér hefur geisað undanfarin ár, hvorki efnahagslega né siðferðilega.

Alþfl. kom fyrir síðustu kosningar fram með ýmsar róttækar hugmyndir í efnahagsmálum, — hugmyndir sem fengu mikinn hjómgrunn með þjóðinni og öfluðu flokknum mikillar fylgisaukningar. Þetta sannar að þrátt fyrir gagnstæðar fullyrðingar sumra gerir meiri hluti þjóðarinnar sér grein fyrir því, hver voði óðaverðbólgan raunverulega er, og vill að gegn henni sé einarðlega snúist.

Ríkisstj. hefur þegar gripið til ýmissa aðgerða í efnahagsmálum, — aðgerða sem eru engin frambúðarlausn, heldur fyrst og fremst til þess ætlaðar að forða undirstöðuatvinnuvegum þjóðarinnar frá algerri stöðvun, afstýra atvinnuleysi og skapa svigrúm til varanlegra átaka.

Þetta voru bráðabirgðaaðgerðir til skamms tíma sem á ýmsan hátt gengu á svig við stefnu okkar Alþfl.-manna og ýmsum reyndist erfitt að fella sig við.

En nú er höfuðmálið það, að þetta svigrúm sé notað til að ná samstöðu innan ríkisstj. og við aðila vinnumarkaðarins um varanlegar aðgerðir, — aðgerðir sem við getum treyst að beri árangur og skili okkur a.m.k. umtalsverðum áfangasigrum. Náist ekki slík samstaða tel ég að endurskoða verði allar forsendur stjórnarsamstarfsins.

Ég þakka þeim er hlýddu.