05.12.1978
Sameinað þing: 30. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1289 í B-deild Alþingistíðinda. (881)

336. mál, störf byggðanefndar

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Eins og hér hefur komið fram var það eitt af höfuðstefnumálum vinstristjórnarinnar, sem hér sat 1971–1974, að vinna að eflingu byggðar um allt land. Í þessu skyni voru unnin margvísleg störf á vegum þessarar stjórnar og gerðar ýmsar skipulagsbreytingar. M.a. voru settar upp tvær nefndir sem oft á þessum tíma var rætt um sem eins konar systurnefndir í þessu verki. Önnur er sú n. sem hér er til umr. og ekki hefur enn skilað áliti. Hin var n. sem falið var að fjalla um staðarval ríkisstofnana og að vísu tók nokkuð langan tíma að vinna sitt verk, en skilaði því þó fyrir um það bil þremur árum. Um það verk má að vísu margt segja og deila um margt það sem þar var sagt. En ég held að það fari ekki á milli mála, að þegar höfð er í huga meðferð fyrrv. ríkisstj. á áliti þeirrar n. og því algera aðgerðaleysi í breytingum á staðarvali ríkisstofnana, sem einkenndi valdatíma þeirrar ríkisstj., og jafnframt þau sjónarmið formanns þeirrar byggðanefndar, sem hér hefur verið vitnað til, að á valdatíma hennar hefði ekki árað fyrir byggðamál í landinn, þá held ég að það liggi alveg ljóst fyrir, að störf þeirra tveggja n., sem af vinstri stjórninni 1971–1974 voru settar á laggirnar til þess að efla róttækar breytingar í byggðamálum. hafi setið á hakanum. Núv. hæstv. samgrh. lét n. ekki vinna þetta tímabil að neinn marki, og það álit, sem hin n. skilaði, var að nokkru leyti látið rykfalla í skjalavörslum rn., og þau álit, sem leitað var eftir frá einstökum ríkisstofnunum, var lítið gert með. Það er von mín að með nýrri ríkisstj. verði innleidd hér ný vinnubrögð í þessum efnum, þannig að því mikla starfi, sem hafið var á árunum 1971–1974, verði nú haldið áfram.