05.12.1978
Sameinað þing: 30. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1292 í B-deild Alþingistíðinda. (884)

110. mál, vandamál frystihúsa á Suðurnesjum

Eiríkur Alexandersson:

Herra forseti. Ég verð því miður að lýsa vonbrigðum mínum með svör hæstv. sjútvrh. Mér þykja þessi svör allloðin og eins konar heimspekilegar hugleiðingar um það sem þurfi að gera þegar til lengri tíma er litið, en ekkert beint og bitastætt, hvorki um það, sem verið er að gera eða búið er að gera, né það, sem þarf að gera nú á næstu vikum til þess að bæta úr því alvarlega ástandi sem ríkir nú suður á Suðurnesjum.

Það urðu mér sár vonbrigði þegar ég sá að fsp. mín var ekki á dagskrá í dag. Ég sá hana aftur á móti í vélritaðri dagskrá hér í gærkvöld og átti þess vegna fastlega von á því, að hún kæmi á dagskrá hér um leið og þessi fsp. hv. þm. Karls Steinars, en svo varð ekki. Sú fsp. er miklu ítarlegri og ég hefði viljað sjá þau svör og ég hefði vænst þess, að þau væru miklu ákveðnari, eitthvað sem hægt væri að henda reiður á.

Ég hef ástæðu til að ætla að skýrsla þess starfshóps, sem hæstv. ráðh. gat um og falið var að kanna stöðu fiskiðnaðar á þeim svæðum. sem byggju við sérstök vandamál, og þar með Suðurnesjasvæðinu, — ég hef ástæðu til að ætla að skýrsla þessa starfshóps sé tilbúin. Ég furða mig á því, að þessi skýrsla skuli ekki vera birt, jafnvel þó að það sé áfangaskýrsla, því að það er ákaflega þýðingamikið að menn fái að vita eitthvað um það sem á að fara að gera. Það er talað um í forgangsfrystihús af 24, og það er spurt: Hvað á að gera við hin 13?

Á Suðurnesjum er saltfisks- og skreiðarverkun enn þá meiri en frysting, þannig að sú atvinnugrein er ekki síður þýðingarmikil fyrir Suðurnesjamenn og ástandið hjá þeim fyrirtækjum er ekki síður alvarlegt. En um þau hefur ekki einu sinni verið rætt. Í sjónvarpsviðtali við sjútvrh. í gær, sem ég gat því miður ekki séð, var mér sagt, að ekki hefðu komið nein bein svör heldur, og á fundi með eigendum frystihúsa suður á Suðurnesjum voru heldur engin bitastæð svör gefin.

Hv. þm. Karl Steinar sagði að í tíð síðustu ríkisstj. hefði ástandið suður á Suðurnesjum verið bágborið, og ég skal ekki mótmæla því, enda var ég einn af þeim sem gagnrýndu það sem gert var, eða réttara sagt hvað lítið var gert til þess að ráða bót á því ástandi. En ég get ekki séð að það ætli að batna neitt með tilkomu þessarar nýju ríkisstj. Á jafnlöngum tíma frá því að febrúargengisfellingin var gerð af fyrri ríkisstj. og þessi ríkisstj. hefur nú haft til að sinna þessum málum var úthlutað af gengismunarfé hagræðingarlánum í Reykjaneskjördæmi sem námu 312 millj. kr. af 701 millj. sem var úthlutað í allt. Eins og ég hef sagt nú, fær enginn maður neitt að vita hverjir hafa fengið lán, í hverju fyrirgreiðsla sé fólgin eða hvort fyrirtækin fóru af stað út á vonina eina saman.

Ég verð sem sagt að lýsa vonbrigðum mínum með svar hæstv. ráðh. enn á ný. Mér fannst það næstum því samhljóða skipunarbréfi til starfshópsins. Hér er ekkert sem hægt er að henda reiður á, sem menn geta sett traust sitt á, til þess að þeir geti átt von á betri og bjartari framtíð suður á Suðurnesjum. Ég vona að hæstv. sjútvrh. taki nú rögg á sig og geri betur.