05.12.1978
Sameinað þing: 30. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1295 í B-deild Alþingistíðinda. (887)

110. mál, vandamál frystihúsa á Suðurnesjum

Kjartan Ólafsson:

Herra forseti. Það eru örfá orð í sambandi við þær umr. sem hafa orðið vegna fsp. um vandamál frystihúsa á Suðurnesjum.

Ég vil fagna því, að menn hafa verið kvaddir til þess af hálfu sjútvrn. að kanna svæðisbundin vandamál í rekstri frystihúsanna, eins og talað hefur verið um. En ástæðan til þess, að ég kveð mér hér hljóðs er fyrst og fremst sú, að ég vil nota þetta tækifæri til að leggja á það þunga áherslu, að mjög brýn þörf er á því að hraða þessari úttekt, ekkí aðeins á Suðurnesjum, heldur einnig á ýmsum öðrum stöðum á landinu. Ég efast ekki um að vandi frystibúsanna á Suðurnesjum hefur verið mjög mikill, og ég ætla ekki að gagnrýna það að starfshópurinn hefur byrjað könnun sína þar. En ég vil vekja á því athygli, að enda þótt svo sé í ýmsum öðrum kjördæmum, t.d. í því kjördæmi sem ég er fulltrúi fyrir, Vestfjarðakjördæmi, að þar finnist ýmis frystihús sem eru í hópi þeirra sem standa einna skást í þessari grein, þá finnast þar einnig byggðarlög þar sem rekstur viðkomandi frystihúss getur engu að síður verið ákaflega illa á vegi staddur og það þannig að jaðri við algera stöðvun atvinnulífs. Ég þekki þetta að sjálfsögðu best á Vestfjörðum og vil vekja á því athygli, að þar er um mjög mikinn mun að ræða innan kjördæmisins.

Ég vil taka sem dæmi stað eins og Bíldudal, þar sem ég tel að sé alveg sérstök ástæða til að hraða úttekt á málum frystihússins þar, og vil vænta þess, að hæstv. ráðh. hafi á því máli fullan skilning. Á Bíldudal er þannig ástatt, að þar hefur örugglega verið meira um atvinnuleysi verkafólks á undanförnum árum heldur en í nokkru byggðarlagi af sambærilegri stærð nokkurs staðar á landinu. Í slíku byggðarlagi hlýtur að vera sérstök ástæða til þess að láta ekki dragast úr hömlu að úttekt í þessum efnum fari fram og að liðsinni verði veitt til þess að tryggja að atvinnulífið geti haldist gangandi.

Það kom fram í máli hæstv. sjútvrh., að starfshópnum hefur nú verið falið að athuga stöðu þessara mála í Vestmannaeyjum og á Suðurlandi, og vafalaust er full þörf á því. En ég vil leyfa mér að mælast til þess og tel mig hafa fyrir því fullgild rök, þó að tíminn leyfi ekki að færa þau hér öll fram, að það verði hið allra bráðasta gengið að því verkefni af hálfu þessa starfshóps eða annarra, sem rn. kynni að kveðja til, að skoða þá staði annars staðar á landinu sem allra verst eru settir og þar sem allra mest er aðkallandi að hindra yfirvofandi allsherjaratvinnuleysi, eins og t.d. á þessum stað, Bíldudal, sem ég gat um.