05.12.1978
Sameinað þing: 30. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1296 í B-deild Alþingistíðinda. (888)

110. mál, vandamál frystihúsa á Suðurnesjum

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. og ætla ekki að fara að ræða hér um afkomu frystihúsanna í landinu, en náttúrlega er aðalatriðið að frystihúsin í landinu almennt hafi bærileg rekstrarskilyrði, og ég býst ekki við að þau breytist mjög ört með nýjum ríkisstj. frekar en — eins og einn hv. þm. hefði kannske orðað það — með gangi himintungla. Þetta er ekki aðalvandamálið og mér finnst undarlegt að vera að karpa út af fyrir sig um það.

En það er aðeins eitt sem ég tók eftir í svari hæstv. sjútvrh. sem mér finnst ástæða til þess að vara nokkuð við. Ef ég hef skilið hann rétt, þá gat hann þess, að þessi starfshópur hefði komist að þeirri niðurstöðu, að það væri rétt að auka togaraútgerðina á Suðurnesjum á kostnað bátaútgerðarinnar. Ég geri ráð fyrir að það muni vera svo víðar um landið, ef menn hafa rekstur frystihúsanna í huga, að þetta væri rétt niðurstaða. En ég vil vara við þessu, vegna þess að hér er um tímabundið vandamál að ræða og gæti haft mjög alvarlegar afleiðingar varðandi nýtingu fiskstofnanna. Þetta þurfa menn að hafa í huga.

Þessi vandi er m.a. upp kominn vegna þess, að saltfisksframleiðslan stendur mjög höllum fæti og afli bátaflotans á vetrarvertíð fer að miklu leyti í salt, vegna þess að það eru miklir toppar í þeirri vinnslu. En mér finnst ástæða til að vara við því, að staðan eins og hún er í dag á mörkuðunum, leiði til þess að menn fari út í einhverja stökkbreytingu í fiskiskipaflotanum, þ.e.a.s. að leggja niður verulegan hluta af bátaflotanum til þess að geta bætt við togurum. Ég skildi hæstv. ráðh. á þennan hátt, að þetta hefði verið niðurstaða þessa starfshóps. Þetta mun örugglega hafa mjög alvarlegar afleiðingar varðandi nýtingu fiskstofnanna við landið og er ekki ástæða til að gera það verra en nú er.