06.12.1978
Efri deild: 24. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1303 í B-deild Alþingistíðinda. (897)

100. mál, almannatryggingar

Félmrh. (Magnús H. Magnússon):

Herra forseti. Þetta frv. er flutt til staðfestingar á brbl. sem hæstv. fyrrv. ríkisstj. setti 1. júlí s.l., en í aths. við brbl. sagði m.a., með leyfi forseta: Þetta er „gert í samræmi við ákvörðun ríkisstj. til þess að greiða fyrir samkomulagi um lífeyrismál sem heildarlausn í þeim kjarasamningum, sem undirritaðir voru þann 22. júlí 1977, þannig að sú hækkun lífeyrisgreiðslna, sem leiðir af því samkomulagi, valdi yfirleitt ekki lækkun tekjutryggingagreiðslna frá almannatryggingum.“ Um var að ræða nálægt 65% hækkun skerðingarmarka, en eftir 1. des. s.l., þ.e. eftir síðustu mánaðamót, verða skerðingarmörk tekjutryggingarbóta hjá einhleypingi sem býr einn, 149 900–184 100 á mánuði, eftir því hvenær hann byrjar að taka eftirlaun, hvort hann byrjar 67 ára eða 72 ára. Samsvarandi tölur fyrir hjón eru 216 100–277 500, en eins og hv. þm. vita skerðast tekjutryggingarbætur um 55% af því sem umfram er þessar tölur sem ég hér hef nefnt.

Herra forseti. Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og heilbr.- og trn. þessarar hv. deildar.