06.12.1978
Efri deild: 24. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1305 í B-deild Alþingistíðinda. (903)

80. mál, sala notaðra lausafjármuna

Flm. (Helgi F. Seljan):

Herra forseti. Á þskj. 88 hef ég leyft mér að flytja frv. til l. um sölu notaðra lausafjármuna. Þetta frv. er endurflutt frá síðasta þingi og ég sé ekki ástæðu til þess nú að flytja um það langa framsöguræðu. Greinar þessa frv. eru 11. Þær skýra sig að mestu leyti sjálfar. Ég vildi aðeins láta fylgja þá grg. inn í þingtíðindin sem hér eru prentuð með.

Þetta frv. er samið af Arnmundi Backmann lögfræðingi og við samningu þessa frv. var einkum stuðst við gildandi reglur í Noregi og alveg sérstaklega í því sambandi stuðst við gögn og ábendingar frá Landssambandi löggiltra bílasala í Noregi.

Hér er vitnað í það, að 1. jan. 1977 hafi gengið í gildi í Noregi reglugerð um sölu notaðra eða gamalla hluta, en reglugerð þessi var sett samkv. heimild í lögum um verslunaratvinnu, en sambærilegum lagaákvæðum er ekki til að dreifa hér á landi.

Í grg. segir svo áfram að verslun og umboðssala með notaða gamla hluti, svo sem sala notaðra bifreiða, bóka, innanstokksmuna eða annars hefur færst mjög í vöxt hér á landi á undanförnum árum, sér í lagi þó sala notaðra bifreiða. Verslun af þessu tagi er sérstaks eðlis. Hún byggist í aðalatriðum á því að endurselja ýmiss konar lausafjármuni sem áður hafa verið í einkaeign. Af þeim sökum verður sölumaður að treysta eignarheimild þess sem hlutinn afhendir til sölu, og sá, sem notaðan hlut kaupir, verður að treysta því, að sú heimild hafi verið fyrir hendi að hann hafi með lögmætum hætti eignast notaðan hlut.

Um eðli fornverslana eða umboðssölu notaðra bifreiða verður ekki farið fleiri orðum í grg. þessari. Sérstaða þeirra í verslunarviðskiptum er augljós. Af þeim sökum telur flm. þessa frv. brýnt að lögfest verði ákvæði sem tryggja ættu sæmilegt réttaröryggi í viðskiptum þessum. Með slíkt í huga er þetta frv. lagt fram.

Þær frvgr., sem hér eru, kunna að vera nokkuð ítarlegar af þeim einföldu ástæðum að þær byggjast mjög á reglugerðarákvæðum, í Noregi og er þar kannske nánar út í farið en þörf er á í beinni lagasetningu. Vil ég víkja að því sérstaklega, að varðandi 5. gr. þessa frv. er aftur í 9. gr. heimild lögreglustjóra að veita undanþágu frá ákvæðum þessarar greinar. Sú grein mundi eflaust þykja nokkuð stíf eftir að fara, þ.e.a.s. að allur varningur, sem lög þessi taka til, skuli geymdur á verslunarstað í a.m.k. 14 daga frá því að honum er veitt móttaka, nema um bifreiðar sé að ræða. Á þeim tíma er óheimilt að selja hann eða afhenda öðrum, farga eða breyta á einn eða annan hátt. Þegar varningi er veitt móttaka til sölu skal hann þegar tölusettur og verðmerktur. Ég hef hins vegar tekið eftir því þar sem ég hef lesið um þetta frá þeim Norðmönnum, að einmitt á þetta atriði leggja þeir áherslu, og þeir eru reyndar einnig með vissan tíma fyrir bifreiðar, sem ég tel ekki ástæðu til að hafa í þessu frv.

Um 6. gr., þ.e.a.s. heimildaskrána um varninginn sem veitt er viðtaka og hvað þar skuli færa, þá þykir mönnum eflaust einnig að þar muni vera um allnákvæma upptalningu að ræða. Þetta er að vísu ekki nákvæmlega eftir reglugerðinni, þeirri norsku, heldur í raun og veru fram tekið í hinum norsku lögum varðandi sölu á notuðum lausafjármunum.

Hins vegar er krafan um, að varningurinn sé geymdur þetta langan tíma, fyrst og fremst sett til öryggis, að eignarheimild seljanda hlutar sé örugg. Sama er að segja um 2. gr., að það verður auðvitað að vera öruggt, en það tel ég ekki vera nú, að leyfi samkv. 1. gr., þ.e.a.s. fyrir þann sem reka vill slíka verslun, verði að fullnægja þeim lögum og reglum og skilyrðum sem sett eru í lögum eða sett kunna að verða í lögum eða reglugerðum til að mega reka þessa starfsemi. Sama er að segja um það, að húsnæði undir þessa starfsemi verður að vera samþykkt af lögreglustjóra og fullnægja bæði ákvæðum reglugerðar um öryggismál og húsnæði vinnustaða, en hér mun nú sums staðar á skorta allnokkuð að eftir þeim sé nægilega farið.

Öllum er kunn sú mikla umræða sem hefur farið fram í fjölmiðlum að undanförnu varðandi bifreiðasölurnar. Um þá hættu, sem þar er fyrir hendi og hefur komið í ljós að hefur reynst á rökum byggð, ætla ég ekki að fara mörgum orðum hér. Farið hefur verið út í svokallaðar raðsölur, og þar eru mál í rannsókn sem rétt er að fullyrða sem minnst um á þessu stigi við hve mikil rök hafi að styðjast og hversu réttmætar séu þær ásakanir sem þar eru uppi. Hins vegar er spurning um það, eins og bent er á í hinum norsku lögum, hvort það sé nægilegt að eitthvert eftirlit sé með þessu haft og hvers konar eftirlit það eigi þá að vera.

Ég geri mér ljóst að í 8. gr., sem er kannske aðalgrein þessa frv. og sú grein sem snertir bílaviðskiptin fyrst og fremst, kann að vera um ófullnægjandi ákvæði að ræða og það þurfi enn frekar að tryggja rétt þeirra, sem kaupa notaðar bifreiðar, heldur en þar er ráð fyrir gert. En þar er lagt til að seljanda notaðra bifreiða verði gert skylt að sanna með vottorði Bifreiðaeftirlits ríkisins eignarheimild sína. Mér er hins vegar sagt í sambandi við þau mál sem nú eru í gangi, að flest, ef ekki öll þeirra hefðu ekki komið til á þann hátt sem þau hafa gert ef þetta ákvæði hefði verið í lögum. Með þessu móti hefði það verið tryggt. Hins vegar efast ég ekki um að í sambandi við það eins og annað, þar sem reynt er að fara í kringum hlutina, þá muni það takast þeim sem nógu slóttugir og klókir eru í viðskiptum. En hér er auðvitað um það dýr tæki að ræða að við verðum með einhverju móti að tryggja að sala á notuðum bifreiðum fari fram með sem eðlilegustum hætti og að hvorugur sé svikinn, seljandi eða kaupandi.

Vegna hinna miklu umræðna, sem um þetta hafa orðið, ætla ég ekki að fara eins náið út í það og ég gerði í framsöguræðu í fyrra fyrir þessu frv. En þar benti ég einmitt á þá misnotkunarhættu eða hættu á hreinum svikum sem nú hafa einmitt komið fram ásakanir um á hendur bílasölum og enn eru í rannsókn. Ég benti þá á að þarna væri mikil hætta á ferðum. Mér kom því á óvart þegar ég sá það í umsögn frá þeim aðilum, sem gleggst áttu um að vita, að þeir töldu að þarna væri nánast um óþarfalöggjöf að ræða hvað þetta snertir, því að misferli í viðskiptum sem þessum væru nær ógerleg samkv. gildandi lögum. Það hefur hins vegar komið mjög glögglega í ljós, að þessir góðu aðilar hafa ekki haft rétt fyrir sér. Þessi umsögn mun hafa verið lögð fyrir þá hv. þn. sem um þetta mál fjallaði.

Sem flm. þessa frv. tek ég vel öllum ábendingum um breytingar og um einföldun þess sem gæti orðið til þess að menn næðu frekar samstöðu um málið. Ég er sannfærður um að mörg þeirra ákvæða, sem eru reyndar beint tekin upp úr hinni norsku reglugerð, má einfalda og setja síðar um þau reglugerð. En ég er ekki í neinum vafa um að við þurfum með lögum og reglugerð að hafa hér hliðstæð ákvæði og grannar okkar, Norðmenn, telja sig þurfa að hafa. Alveg sérstaklega bendi ég á það, að Landssamband löggiltra bílasala í Noregi — það var í raun og veru að frumkvæði þess sem þessi reglugerð var sett — vildi tryggja sig gegn ásökunum um meint misferli í þessum efnum og lagði þess vegna til breytingar á reglugerð svo sem þetta frv. lýtur að.

Ég sem sagt treysti því, að í meðförum þeirrar n., sem fær þetta mál til skoðunar, verði kannað hvaða atriði hér eru óhjákvæmileg lagaatriði, hvaða atriði eru hins vegar þess eðlis að þau megi fara í reglugerð. En ég endurtek, að ég er ekki í neinum vafa um að við þurfum að hafa hér á jafnstrangar gætur og grannar okkar, Norðmenn, í þessum efnum. Ég hygg að það ákvæði, sem hér er sett í 8. gr. varðandi Bifreiðaeftirlit ríkisins og söluna á notuðum bifreiðum, nægi ekki til fulls, miðað við þær upplýsingar sem ég hef fengið um þau mál sem nú eru í gangi. Það mun að vísu vera þar góður varnagli sleginn, en það mun engu að síður ekki nægja til þess að menn geti ekki farið þar í kringum hlutina. Mér væri sannarlega þökk á því, ef hv. þn. gæti fundið þar um eins óbrigðult ráð og finna mætti til þess að slík leiðindamál, sem upp hafa komið, og slík svikamál, sem upp hafa komið í kringum bílasölurnar, eingöngu heyri fortíðinni til að skömmum tíma liðnum.

Ég skal ekki orðlengja þetta frekar. Ég fór náið út í þetta mál í framsögu í fyrra, og þá var á það bent hér í þd., að e.t.v. væru til lög hér sem nægðu í þessu sambandi. Ég held að þau orð hafi afsannast að nokkru, en endurtek ósk mína til þn. um að greina rækilega á milli, hvað hún vill taka í lög og hvað í reglugerð, því að vissulega er hér um að ræða mörg þau atriði sem e.t.v. ættu betur heima í reglugerð, þó að ég finni ekki neitt að þeim sem beinum lagaákvæðum.

Ég vil svo óska þess, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.