06.12.1978
Neðri deild: 27. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1331 í B-deild Alþingistíðinda. (920)

91. mál, biðlaun alþingismanna

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja brtt. við frv, til l. um biðlaun alþm., sem er á þessa leið með leyfi hæstv. forseta:

„1. gr. orðist svo:

Alþm., sem setið hefur á Alþ. eitt kjörtímabil eða lengur, á rétt á biðlaunum er hann hættir þingmennsku. Biðlaun skal greiða í þrjá mánuði eftir eins kjörtímabils þingsetu eða lengri.

2. 2. gr. orðist svo:

Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Í stórum dráttum beinist þessi brtt. að því að draga úr gildi 1. gr. frv., þ.e. að ekki komi inn í það sú 6 mánaða klásúla sem þar er og einnig að lögin verði ekki afturverkandi.

Ég hef áður gert grein fyrir þeim fyrirvara sem ég hafði um samþykki mitt á þessu frv., og þetta er staðfesting á þeim fyrirvara. Ég er þeirrar skoðunar, að það sé alls ekki óeðlilegt að þm. njóti svipaðra kjara og opinberir starfsmenn gera almennt. Þess vegna er ég hlynntur þeim hluta þessa frv. sem gæti samræmst kjörum opinberra starfsmanna. Hins vegar er mér þetta mál ekki mjög fast í hendi persónulega, og náist þessar breytingar ekki fram mun ég ekki greiða frv. atkv. eins og það liggur hér fyrir.

Ég vil minna þingheim á, að með afturvirkni þessa frv. er verið að stefna í útgjöld sem eru yfir 40 millj. kr., og ef litið er á það örlitlu nánar, þá kemur í ljós að þm., sem fór af þingi eftir síðustu kosningar og hafði setið lengur en í 10 ár, fær í hendurnar 2.5 millj. kr. Þetta finnst mér mjög óeðlilegt. Ég lít svo á, eins og ég hef áður sagt, að þm. þurfi og eigi að hafa svipuð kjör og opinberir starfsmenn, og m.a. þess vegna hef ég verið hlynntur því, að Kjaradómur ákvæði kjör þm.

Ég vil að endingu segja það sem ég hef sagt hér áður, að ég vænti þess fastlega að verði þetta frv. samþ. í einhverri mynd, þá muni hér á Alþ. skapast meiri og betri skilningur en verið hefur á kjörum launastéttanna í landinu yfirleitt og að þm. gætu þá hugsað sér að stuðla að því, að aðrir launþegar í þjóðfélaginu nytu svipaðra kjara og þm. sjálfir.