06.12.1978
Neðri deild: 27. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1333 í B-deild Alþingistíðinda. (922)

91. mál, biðlaun alþingismanna

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Eins og fram hefur komið vorum við hv. 3. þm. Vestf., Kjartan Ólafsson, í minni hl. í fjh.- og viðskn. að því er tók til afstöðu til þessa frv. Og eins og hv. 3. þm. Vestf. hefur rækilega gert hér grein fyrir, þá leggjum við til að frv. í þeirri mynd, sem hér liggur frammi, verði fellt.

Ég sagði við 1. umr. um þetta mál, að ég teldi að biðlaun í einhverju formi gætu verið sjálfsagt réttætismál og má hugsa sér margar útgáfur af því, t d. að í þrjá mánuði eftir að menn falla njóti þeir hálfra launa eða eitthvað slíkt. En þegar tekið er tillit til þess mikla örlætis, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., tel ég engan veginn sæmandi að Alþ. fari að samþykkja það. Ég vek athygli á því, sem fram kom í ræðu hv. þm. Árna Gunnarssonar, að aðeins afturvirkni þessara laga gerir ráð fyrir útgjöldum ríkissjóðs sem nema einhvers staðar á bilinu 40–50 millj. kr. Ég vek athygli á því, að þeir hv. fyrrv. alþm., sem af einhverjum ástæðum létu af störfum s.l. vor, munu fá, nái þetta frv. fram að ganga, senda ávísun frá ríkissjóði upp á 2.5 millj. kr. Og ég verð að segja það alveg eins og er, að þegar maður heyrir af alls konar sjálfsögðum réttlætismálum, heyrir af því t.d. að Neytendasamtökin í Reykjavik fá litla sem enga fyrirgreiðslu hjá ríkinu, þá þykir mér þetta vera slík ofrausn og í slíku ósamræmi við annað það sem hér er verið að gera, að ég vil enn ítreka þá skoðun okkar Kjartans Ólafssonar og till., að þetta frv. verði fellt.

Báðar þær brtt., sem hér hafa komið fram og raunar hefur verið gerð grein fyrir áður, frá hv. þm. Eiði Guðnasyni og Árna Gunnarssyni, eru auðvitað til bóta í því tilliti, að þær draga úr rausn og örlæti frv. Að því leyti eru þessar till. vissulega til bóta.

Eins og allt þetta mál er fram sett — menn flytja langar samúðarræður um fyrrv. þm., fallna félaga sína, með þeim hætti að manni liggur við að klökkna stund og stund a.m.k. — og þegar það er jafnframt sagt, að ef menn vilja ekki samþykkja frv. aftur á bak, þá sé auðvitað ekki hægt að samþykkja það áfram, tel ég vísast að fara þá leið, sem við Kjartan Ólafsson leggjum til. að fella frv. í heild sinni. Í sjálfu sér tek ég undir það, að ekki væri gott að samþykkja þetta fram á við, en fella sérstaklega út þau ákvæði sem gilda aftur á bak. En þá ber þess að gæta, að þessi mál voru hér til umr. í þinginu í apríl, en Alþ. af einhverjum ástæðum, sem menn hefur greint á um raunar hverjar séu, sá sér ekki fært að afgreiða málið. Ég hef að vísu ekki langa reynslu af þingstörfum, en hitt veit ég, að öðru eins máli hefur verið flýtt í gegn á skemmri tíma en þarna var um að ræða. Og auðvitað dreg ég þá ályktun, sem ég veit að er rétt, að ástæðan fyrir því, að þetta frv. var ekki samþ. í apríl, var sú, að það voru að koma kosningar og menn vildu ekki vera að setja launamál þm. í sviðsljós. Um það að skirrast við að samþykkja svona lög í apríl, koma svo með frv. í nóv. og segja þá: við skulum samþykkja frv. núna og láta það verka aftur á bak, verð ég að segja alveg eins og er, að mér þykja það svo kostuleg vinnubrögð, að þó ekki væri nema af þessari ástæðu einni, þá ber að ítreka þá till. að þetta frv. verði fellt.

Ég get vel skilið hin almennu sjónarmið þm. og veit að að baki býr gott eitt, að hafa samúð með föllnum félögum sínum, vinum og óvinum í pólitík. En þó held ég nú þrátt fyrir allt, þegar þess er gætt hve háar upphæðir er um að ræða, að hér sé um nokkuð misskilda góðsemi að ræða. Ég held að flestir eða allir okkar föllnu félaga, sem eflaust koma einhverjir inn næst, — við föllum einhverjir í staðinn eins og gengur, þannig er hringrás þessa lífs og þessa leiks, — séu komnir í þokkalegar stöður hjá ríki eða annars staðar. Auðvitað getur það tekið einhvern tíma. Samt sýnist mér við hér vera að samþykkja fjárveitingu til þessa hóps og ég sé enga ástæðu til þess, eins og almennt er ástatt í kjaramálum þjóðarinnar.

Ég vil af þessum ástæðum og ástæðum, sem tíndar voru til við fyrri umr. þessa máls, undirstrika þá skoðun, sem Kjartan Ólafsson hefur á undan mér talað fyrir, að þetta frv. verði fellt og að við förum að sinna öðrum malum en kjaramálum alþm.