06.12.1978
Neðri deild: 27. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1336 í B-deild Alþingistíðinda. (925)

91. mál, biðlaun alþingismanna

Gunnlaugur Stefánsson:

Herra forseti. Það verður ekki annað sagt en hv. þn., fjh.- og viðskn. Nd., hafi tekið hraustlega til starfa, eftir að þetta mál kom fyrst til umr. fyrir nokkrum dögum, og afgreitt það til 2. og 3. umr. Það væri betur ef önnur þjóðþrifamál, sem eru til umr. í sömu n., fengju svipaða afgreiðslu og þetta mál. Það er einnig séð, að viðkomandi hv. þn. er afkastasöm mjög, ef marka má þann hraða sem hún hefur haft á afgreiðslu þessa máls, og vænti ég þess, að sami háttur verði hafður á, ef þess er nokkur kostur, varðandi afgreiðslu annarra mála, þannig að leggja megi áherslu á meiri hraða á afgreiðslu mála í þinginu en nú er.

Herra forseti. Ég ætla að leyfa mér að bera fram enn eina brtt. Ég verð að biðjast afsökunar á því, að henni hefur ekki enn verið dreift meðal hv. þm. Verður því að leita afbrigða til þess að hún fáist hér rædd og borin undir atkv. En hún hljóðar svo:

„1.1. gr. orðist svo:

Alþm., sem setið hefur á Alþ. eitt kjörtímabil eða lengur, á rétt á biðlaunum í þrjá mánuði er hann hættir þingmennsku ef síðasta kjörtímabil hans hefur staðið skemur en fjögur ár.

2. 2. gr. orðist svo:

Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Það þarf, held ég, ekki að hafa fleiri orð um þau rök sem mæla með því, að Alþ. samþykki ekki þá afturvirkni sem lagt er til í frv. að taki gildi. En varðandi þá breytingu, sem ég legg hér til, vil ég hafa eftirfarandi orð:

Ég tel óeðlilegt að þegar kjörtímabil nær fullri tímalengd, eða 4 árum, verði þm. greidd biðlaun, vegna þess að hver einn hv. þm. hlýtur að taka þá áhættu, sem stjórnmálaþátttöku fylgir, að ná endurkjöri eða ekki. Þegar þingrof hefur farið fram að 4 árum liðnum, þá er viðkomandi hv. alþm. á bekk með öðrum frambjóðendum sem þreyta kapp um þingsetu, og tel ég því ekki ástæðu til að hann njóti annarra kjara en aðrir frambjóðendur sem ekki ná kjöri, að kosningum loknum, ef hv. þm. hefur ekki náð endurkjöri. En aftur á móti, þegar kjörtímabil af einhverjum ástæðum nær ekki þessari fjögurra ára lengd, heldur verður styttra, þá tel ég að þar sé um ákveðna röskun að ræða á högum hv. þm., sem leiði af sér að rétt sé að koma á móts við þessar breyttu aðstæður með því að greiða biðlaun allt að þremur mánuðum, til þess að hv. þm. hafi tækifæri til þess að aðlagast breyttum aðstæðum ef hann nær ekki endurkjöri til Alþingis.

Þetta held ég að gæti orðið eðlileg skipan þessa máls. En eins og frv. liggur hér fyrir í óbreyttri mynd get ég ekki staðið að því og legg því, herra forseti, fram þessa brtt., þrátt fyrir að afbrigða þurfi að leita vegna umr. um hana og afgreiðslu hennar.