07.12.1978
Sameinað þing: 32. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1363 í B-deild Alþingistíðinda. (934)

Umræður utan dagskrár

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Ég þakka fyrir að mér var veitt orðið utan dagskrár. Ég hafði ekki lagt sérstaka áherslu á að fá orðið í upphafi fundar, enda veit ég að það er ekki góður háttur að taka upphafstíma funda frá dagskrármálum til þess að tala utan dagskrár.

Ástæðan til þess, að ég hef kvatt mér hl jóðs, er útkoma barnabókar. Má segja að þar kveði við annan tón um umræðuefni heldur en það sem nú var frá horfið. Þar er engu að síður um mikilvægt málefni að ræða.

Nú nýlega hefur komið út á Íslandi barnabók, sem er þess eðlis og þannig til komin á Íslandi, að ég tel að Alþ. geti ekki tekið því þegjandi. Þeir þm., sem eiga sæti í Norðurlandaráði, geta ekki heldur tekið því þegjandi, og ríkisstj. ætti ekki að taka þessu máli þegjandi. Þessi bók, sem heitir Félagi Jesús, er þýdd úr sænsku og gefin út með styrk úr Norræna þýðingarsjóðnum. Þessi bók kemur út á aðalbókavertíð ársins, í desembermánuði, og mun vera ætluð sem jólabók handa börnum. Það kemur fram af niðurlagsorðum þessarar bókar, að hún er ætluð mjög ungum börnum, m.a. s. þeim sem ekki eru enn farin að hefja nám í hinum svonefndu lesgreinum í barnaskólanum. Niðurlagsorð bókarinnar hljóða svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Við ætlum ekki að fara að segja frá svo leiðinlegum hlutum hér. Þú færð áreiðanlega að heyra um það í skólanum, þegar þú byrjar að lesa kristinfræði og mannkynssögu.“

Þessi bók er ætluð smábörnum og fjallar um líf og kenningar Krists með þeim hætti, að það hlýtur að vera fullkomlega óþolandi bæði fyrir þá, sem hafa með höndum málefni kirkju og mennta í þessu landi, og fyrir foreldra ungra barna. Í þessari bók er fjallað um kenningar Krists á þann hátt, að það hlýtur að vekja spurningu, hvort Alþ. og ríkisvald rís undir 62. gr. stjórnarskrárinnar, sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Hin evangelíska lútherska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda.“

Sú spurning rís, hvort ríkisvaldið bregst þessari skyldu sinni með því að láta það óátalið að veitt sé fé úr sameiginlegum norrænum sjóði til þess að gera auðveldari þýðingu og útgáfu þessarar bókar til handa ungum íslenskum börnum. Sú spurning hlýtur líka að rísa, hvernig útgáfa og efni þessarar bókar kemur heim og saman við 125. gr. hegningarlaganna, sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Hver, sem opinberlega dregur dár að eða smánar trúarkenningar eða guðsdýrkun löglegs trúarbragðafélags, sem er hér á landi, skal sæta sektum eða varðhaldi. Mál skal ekki höfða, nema að fyrirlagi saksóknara.“

Nú er það svo, að margs konar sori og óþrifnaður hellist yfir landslýðinn í prentuðu máli á ýmsum tímum án þess að nokkur hreyfi því einu orði á Alþ. Menn ræða stundum um það sín á milli og menn taka því einhvern veginn. Þeim mun skærar skína þá þær perlur sem kann að glitra á í þeim haugi sem stundum blasir við okkur, illu heilli. En hér virðist ekki hafa verið tínd ein af þessum perlum.

Ég hafði hugsað mér, ef hæstv. dóms.- og kirkjumrh. hefði verið hér viðstaddur eða hæstv. menntmrh., að biðja þá að afla skýrslna um þetta mál. Ég hafði hugsað mér að biðja hæstv. menntmrh. um grg, um hvaða umsóknir frá íslenskum útgáfufyrirtækjum lágu fyrir stjórnarnefnd Norræna þýðingarsjóðsins, þegar styrkur var veittur til þýðingar þessarar bókar og hvaða rök lágu til þess, að styrkur var veittur til þýðingar hennar. Nú er það svo, að vafalaust má deila um ýmsar fleiri útgáfubækur sem styrktar hafa verið úr þessum sjóði, en ég tel mig ekki færa um að gagnrýna það sérstaklega, því að ég hef ekki lesið allar þær bækur. Þessa bók hef ég hins vegar lesið og get fyllilega tekið undir þá gagnrýni sem fram hefur komið á opinberum vettvangi um hana. (Gripið fram í.) Ég hef þegar lesið eitt dæmi, hv. þm. Ég veit ekki hvort ég á að taka fundartímann í að lesa upp úr bókinni. Ég skal lána hv. þm. bókina ef hann vill. Ég get, ef hæstv. forseti vildi gefa mér eins og tvær mínútur, fundið nokkra staði sem eru þess eðlis að ég held að jafnvel hv. 4. þm. Norðurl. e. mundi vera jafnundrandi og vonsvikinn og ég. — Ég mun, áður en ég fer að tína til þau dæmi, herra forseti, ljúka því sem ég hafði fyrir fram í huga að nefna sérstaklega.

Ég hef orðið þess vör, að þessi styrkveiting hefur orðið til þess að menn hafa alhæft, dregið almennar ályktanir út frá þessu eina dæmi og sagt sem svo: Þarna sjáið þið, það er verið að hella yfir okkur sænskum óþverra. Þetta er dæmi um sænska afkristnun o.s.frv. — Þetta vil ég ekki taka undir. Ég tel að við verðum að varast að alhæfa þannig, þó að við sjáum slíkar fúaspýtur á vegi okkar, sem þarna er um að ræða. Menn hafa jafnvel haft það á orði, að þarna væri hin norræna samvinna lifandi komin. En því stend ég hér upp, að ég vil mótmæla tiltæki sem þessu, sem ég tel að komi óorði á norræna samvinnu. Ég vil leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að skýra frá því, hvernig starfsemi Norræna þýðingarsjóðsins er skýrð í skýrslu norrænu ráðherranefndarinnar um norrænt menningarsamstarf. Þar segir að Norræni þýðingarsjóðurinn hafi verið stofnaður 1975 samkv. samþykkt sem norræna ráðherranefndin gerði árið 1974. Það var samþ. að koma á laggirnar þessum sjóði til reynslu í 4 ár. Og menn sjá hvílíka áhættu stjórnarmenn í sjóðnum taka með því að beita honum með þessum hætti. Næsta ár er síðasta árið á þessum reynslutíma. Tiltæki eins og þetta getur hreinlega orðið til þess að eyðileggja þá menningarviðleitni sem lá að baki stofnun þessa sjóðs. Stofnun þessa sjóðs er til komin vegna óska norrænna rithöfunda, m.a. íslenskra rithöfunda, og ég hygg að þeir, sem í stjórn þýðingarsjóðsins eru og verja honum með þessum hætti, kunni að eyðileggja þessa viðleitni íslenskra og annarra norrænna rithöfunda. Um leið eru eyðilagðir menningarmöguleikar fyrir litlum málsvæðum á Norðurlöndum, líka svæðum sem eru minni en Ísland. Ég tel því að Alþ. eigi, eftir því sem unnt er, að mótmæla því sem hér hefur gerst. Ég mun, ef ég á sæti í Norðurlandaráði næst þegar þær nefndir, sem kynnu um þetta að fjalla, koma saman til fundar, taka þetta mál upp þar og leggja til að reglum um stjórn þessa sjóðs verði breytt, ef hann fær þá fylgi til að starfa áfram.

Nú er það svo, að stjórn þessa sjóðs er allt að því einráð um það, hvernig peningum úr honum er varið, og stjórnin á sjálf að gefa skýrslu til ráðherranefndarinnar um það, hvernig þýðingarsjóðurinn hefur reynst hlutverki sinu vaxinn. Menn sjá, að með þessu móti er eðlilegu eftirlitshlutverki ekki sinnt, þar eð nefndin lítur eftir starfi sínu sjálf og metur það. Þessum reglum þarf að breyta, þannig að þm. geti betur rækt eftirlit með því, sem þarna er að gerast, og metið hvort sjóðurinn er hlutverki sínu vaxinn.

Í skýrslunni, sem ég gat um áðan og er um norrænt menningarsamstarf á árinu 1977, er birtur listi yfir þær bækur, sem þýddar hafa verið með styrk frá sjóðnum, og þau útgáfufyrirtæki, sem hafa fengið styrk til þess arna. Það vekur athygli í þessari upptalningu, að í þeim lista yfir þær bækur, sem þýddar voru á íslensku, er á tveimur stöðum nefnd sama bókin, þýdd úr sænsku. Sven Wernström: Kamrat Jesus, stendur hér. Það er fyrirtæki í Reykjavík, sem heitir Prenthúsið, sem sækir um þennan styrk og fær. Nokkru neðar á sömu síðu er aftur: — Fra svensk: Sven Wernström: Kamrat Jesus. Mál og menning, Reykjavík. Það eru sem sagt tvö íslensk útgáfufyrirtæki sem samkv, þessu, ef hér er ekki um prentvillu að ræða, hafa fengið styrk til þess að þýða þessa sömu bók. Mikils þurfti við að koma þessu á framfæri við lítil íslensk börn. Það er ljóst. Og þeir, sem þarna sóttu um, höfðu líka erindi sem erfiði.

Vissulega hefur bókin fengið rækilega auglýsingu, og bætist víst lítið á það með þessu tali utan dagskrár því það mun hafa verið að þessu máli vikið á mörgum prédikunarstólum í kirkjum landsins á sunnudaginn var. Margar blaðagreinar hafa um þetta fjallað. En það er ljóst, að hér þarf viðbrögð. Viðeigandi stjórnvöld ákveða til hvaða aðgerða samkv. íslenskum lögum ætti að grípa, og sá sem hefur málefni Norræna þýðingarsjóðsins með höndum fyrir Ísland, þ.e. hæstv. menntmrh. ætti að ákveða í fyrsta lagi að leysa þá frá störfum sem misbeita svo valdi sínu og í öðru lagi að standa að og styðja breytingar á reglum sjóðsins.

Ég þakka, herra forseti, fyrir, að mér var veitt orðið um þetta efni, og bið velvirðingar á því, að ég var lengur en ég hefði viljað vera. En ég tel að málefni eins og þetta skipti mjög miklu máli og sé sjaldnar gaumur gefinn en vert væri á Alþingi.