07.12.1978
Sameinað þing: 32. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1375 í B-deild Alþingistíðinda. (943)

Umræður utan dagskrár

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Þótt þessi umr. utan dagskrár hafi rofið umr. um það mál, sem ég hóf í dag með kannske of langri ræðu, þá vildi ég láta í ljós sérstakt þakklæti mitt til Ragnhildar Helgadóttur fyrir að hafa flutt það mál sem hún flutti í dag. Það er vissulega þakkarvert að hún skuli hafa hreinskilni og djörfung til þess að sýna þjóðinni framan í það miskunnarlausa andlega harðræði sem íslenska íhaldið hefur löngum viljað láta ráða í andlegum efnum.

Þetta er gert undir því yfirskini, að hér sé verið að fara með almannafé. En hvílíkt yfirskin! Alþ. veitir fé til margvíslegra menningarmála. Það veitir styrki til bókaútgáfu. Það veitir styrki til leikhúsa. Það stofnar kvikmyndasjóði. Það starfrækir menningarsjóði. Það styrkir áhugaleikfélög um allt land. En þar skilur á milli okkar hv. þm. í grundvallaratriðum, að hv. þm. telur að þetta fjárframlag af almannafé veiti henni sem þm. forræði yfir andlegum efnum fólksins í landinu, veiti henni rétt til þess að beita Alþ. og ríkisstj., Norðurlandaráði og kannske næst bandaríska hernum, varnarliði þjóðarinnar, til þess að knýja fram þann rétta anda sem á að hennar dómi að ríkja í þeirri listrænu starfsemi sem styrkt er af almannafé. Okkar skilningur er hins vegar sá, að um leið og Alþ. veitir fé úr almannasjóðum til andlegrar starfsemi, þá afsali það sér um leið forræði yfir menningarlegu eða hugmyndalegu innihaldi þeirrar menningarstarfsemi. Hér skilur á milli þess frjálsræðis í menningarmálum, þess lýðræðis í andlegum efnum í þessu landi, sem við annars vegar og hins vegar hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir viljum hafa í hávegum. Þess vegna þakka ég einmitt fyrir það, að þetta skuli hafa gerst hér í dag, því það gerist allt of sjaldan að íslenska íhaldið missi frjálsræðisgrímuna og komi til dyranna eins og það er klætt, komi til dyranna eins og það hefur gert hér löngum áður fyrr, t.d. í árásunum á Halldór Laxness, og segi hvað er góð bók og hvað vond, hvað eigi að banna og hvað eigi að leyfa.

Ég tel að þessum tíma þingsins hafi verið vel varið, vegna þess að ég tel að það sé nauðsynlegt fyrir þjóðina, fyrir alla þá sem unna í reynd andlegu frelsi í þessu landi og lýðræði í menningarefnum, að fá að sjá framan í þá andlegu harðstjórn sem býr að baki kenningunni um að það að veita fé úr almannasjóðum veiti rétt til forræðis yfir andlegu innihaldi þeirra hugverka, hvort sem það eru leikrit, tónverk, plötur, kvikmyndir eða bækur, sem kostuð eru af þessu almannafé. Þar skilur á milli í grundvallaratriðum. Það er alveg rétt, sem hv. þm. Kjartan Ólafsson sagði áðan, að í þessum efnum á hv. þm. lagsbræður með þeim sem beita sínu pólitíska valdi og yfirráðum yfir almannasjóðum í landi sínu til þess að styðja æskilegar bækur og hindra óæskilegar bækur.

Þeim, sem stundum kenna sig við frjálshyggjuna á Íslandi, hefur því miður oft og iðulega tekist að breiða yfir það, að í reynd eru þeir sömu ættar og valdsmenn sögunnar fyrrum og valdsmenn í öðrum löndum á okkar tíma sem vilja nota vald sitt yfir fjármunum þjóðanna, vilja nota vald sitt í stofnunum ríkisins og vilja nota vald sitt í alþjóðlegum stofnunum eins og Norðurlandaráði til þess að segja við rithöfunda og listamenn hvað sé æskilegt og hvað óæskilegt. Ég er ekki að segja að hv. þm. sé í sjálfu sér að fara fram á boð eða bönn, en hún er að setja fram þá kenningu, að Alþingi Íslendinga, hið pólitíska vald í landinn, dómsmrn., ríkisstj. og Norðurlandaráð, eigi að segja listamönnum þessa lands hvað sé styrktar vert og hvað ekki. Hér skilur á milli þess í grundvallaratriðum, sem við hinir teljum að eigi að vera lýðræði á Íslandi, og þess forræðis valdsins, sem hv. þm. og flokksmenn hennar hafa löngum beitt sér fyrir í umr. hér á Alþ. — fyrir mörgum áratugum og einnig á síðari árum. Þess vegna þakka ég fyrir það, að þessar umr. hafa orðið hér í dag, þótt þær hafi gripið hér inn í mál sem ég flutti, að þær minna íslensku þjóðina enn og einu sinni á það, hvar harðstjórana yfir andlegum málefnum þjóðarinnar er að finna, hvar þeir eru sem vilja beita pólitísku valdi sinu yfir almannafé til þess að kveða upp úr með það hvað sé rétt list, hvað sé röng list, hvað séu góðar bókmenntir, hvað séu vondar bókmenntir.