11.12.1978
Efri deild: 25. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1379 í B-deild Alþingistíðinda. (946)

124. mál, skipan innflutnings- og gjaldeyrismála

Viðskrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Með þessu frv. er lagt til að framlengt verði með óbreyttum hætti frá því sem verið hefur svokallað leyfisgjald. Frvgr. segir í raun og veru allt það sem segja þarf. Innheimta má af gjaldeyris- og/eða innflutningsleyfum allt að 2% leyfisgjald af fjárhæð þeirri sem leyfið hljóðar um.

Leyfisgjöld af innflutnings- og gjaldeyrisleyfum voru fram til 1. jan. 1978 almennt 1/2%, 1% af ferðagjaldeyri og 0.1% af brennsluolíum. Það sem af er þessu ári hefur leyfisgjaldið numið 154 millj. kr. af ferðagjaldeyrisleyfum, 13.6 millj. kr. af olíum og bensíni og 222.4 millj. kr. af öðrum leyfum.

Þessi grein er, eins og þið sjáið, heimildargrein og er auðvitað gert ráð fyrir að hún verði notuð að fullu. Þó vil ég láta þess getið um gjaldið af olíum og bensíni, sem nú er 0.1% og gefur á þessu ári 13.6 mill j. kr., að auðvitað er hugsanlegt, að sá hluti verði tekinn til sérstakrar athugunar í tengslum við þá endurskoðun á verðmyndunarferli á olíum og bensíni sem viðskrn. hefur falið verðlagsskrifstofunni að framkvæma.

Ákvæði um leyfisgjöld af þessu tagi voru fyrst sett í lög nr. 69 1967, 10. gr. þeirra laga, og þau voru aftur breyting á lögunum um innflutnings- og gjaldeyrismál, nr. 30 frá 1960. Síðan var í lögum um skyldusparnað og ráðstafanir í ríkisfjármálum, sem sett voru í árslok 1977, gert ráð fyrir hækkun á þessu gjaldi. Það voru lög, sem fráfarandi ríkisstj. setti um margvísleg gjöld, skyldusparnað o.fl., og í 6. gr. þeirra var ákvæði á þessa leið: „Ríkisstj. er heimilt að ákveða að á árinu 1978 megi leyfisgjald af gjaldeyris- og/eða innflutningsleyfum samkv. 10. gr. laga 30 1960, um skipan innflutnings- og gjaldeyrismála o.fl., sbr. 6. gr. laga nr. 69 1967, nema allt að 2% af fjárhæð þeirri, sem leyfið hljóðar um. Ríkisstj. ákveður hvernig gjaldi þessu er ráðstafað.“ Á grundvelli þessara laga um skyldusparnað og ráðstafanir í ríkisfjármálum var síðan sett reglugerð 31. des. 1977 um það, hversu háttað skuli innheimtu þessara leyfisgjalda.

Í þessu frv. er gert ráð fyrir að þriðjungur af tekjum af gjaldi þessu gangi til bankanna, en 2/3 gangi til ríkissjóðs, en þessi hlutföll hafa verið önnur. Þau hafa verið helmingur til bankanna og helmingur til ríkissjóðs. Þykir ljóst að 113 af þessu leyfisgjaldi dugi til þess að standa undir kostnaði við gjaldeyrisdeild bankanna, en upphaflega var gjald þetta lagt á annars vegar til þess að standa undir kostnaði við gjaldeyrisdeild bankanna og hins vegar til þess að standa undir kostnaði við verðlagseftirlit á sínum tíma, en síðan var það tekið inn í fjárlög beint og ætluð til þess föst fjárveiting.

Ég hygg, herra forseti, að ástæðulaust sé að fjölyrða frekar um þetta mál, en legg til að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.