11.12.1978
Efri deild: 25. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1381 í B-deild Alþingistíðinda. (948)

65. mál, kosningar til Alþingis

Eiríkur Alexandersson:

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til umr., er á þskj. 71, um breyt. á lögum nr. 52 14. ágúst 1959, um kosningar til Alþingis. Flm. er hv. 4. þm. Reykn., Oddur Ólafsson. Vegna fjarveru hans kemur í minn hlut að mæla fyrir frv.

Leynilegur kosningarréttur er hluti af grundvallarmannréttindum. Þess vegna er rétt og sjálfsagt að hagnýta þau hjálpargögn sem tiltæk eru, svo að sem flestir geti hagnýtt sér fullkomna leynd. Að því er stefnt með þeim breytingum sem lagðar eru til í 1. og 2. gr. þessa frv. og eiga að gera blindum kleift að kjósa án aðstoðar. 1. gr. hljóðar svo:

„Við 59. gr. laganna bætist:

Þar skal einnig vera spjald jafnstórt kjörseðli með upphleyptum listabókstöfum og blindraletri, með glugga framan við hvern staf og vasa á bakhlið þannig að blindir geti í gegnum gluggann sett kross framan við þann lista, er þeir gefa atkv. sitt, og á þann hátt kosið í einrúmi og án aðstoðar.“

Í 2. gr. er til samræmis við þessa breytingu lagt til að síðasti málsl. 1. málsgr. 46. gr. laganna orðist svo: „Að þessu loknu fær kjósandi afhent tölusett fylgibréf með áföstum kjörseðli og hjálpargögn, sé hann blindur (sjá 59. gr.), og skal hann síðan aðstoðarlaust“ o.s.frv. Til þess að hv. þm. skilji betur hvað við er átt hefur hv. flm. látið gera eftirlíkingu af því hjálpargagni sem hér um ræðir, en það lítur svona út. Kjörseðillinn mundi verða eins í laginu og spjaldið, skorið af hægra horninu til þess að hægt sé að snúa hvoru tveggja rétt. Kjörseðlinum er smeygt inn í vasann aftan við og hér eru upphleyptir listabókstafir, blindraletur, og gluggar fyrir framan hvern listabókstaf, þannig að viðkomandi getur þá krossað fyrir framan þann listabókstaf sem hann vill kjósa. Ég tel að hér sé um sjálfsagða og einfalda lausn að ræða, sem tvímælalaust eigi að notfæra sér til hagsbóta fyrir blinda og sjóndapra.

3. gr. þessa frv. er efnislega samhljóða frv. er hv. fyrrv. þm. Pétur Sigurðsson flutti á síðasta þingi og varð þá eigi útrætt. Sú grg., sem hér fylgir, er sú sama og þá. Í henni segir m.a. efnislega á þessa leið:

Langt er síðan flm. þessa frv. vakti athygli á þeim órétti sem ríkti, er hluta þegnanna væri fyrirmunað að sækja kjörfund á kjördegi, vegna sjúkleika eða öldrunar, að þá væru þeir sviptir um leið þeim grundvallarrétti lýðræðisins að neyta atkvæðisréttar síns í kosningum til Alþingis.

Nokkuð hefur verið gert til að bæta fyrir þetta óréttlæti síðan.

Stærsta skrefið í réttlætisátt hefur þó verið stigið með breytingu sem gerð var með lögum nr. 15 5. apríl 1974, en þá var kjörstjóra við atkvgr. utan kjörfundar hérlendis heimilað að láta kosningu fara fram á sjúkrahúsi eða dvalarheimili aldraðra, enda væri kjósandi sjúklingur eða vistmaður á stofnuninni.

Við slíka kosningu, þ.e. á sjúkrahúsi eða dvalarheimili aldraðra, gilda að öllu leyti sömu ákvæði laga og um allar atkvgr. utan kjörfundar og að sjálfsögðu ákvæði 2. málsgr. 66. gr. laga um kosningar til Alþingis, að óheimilt sé að veita kjósanda aðstoð við sjálfa kosninguna. Kjósendur, sem þurfa að kjósa utan kjörfundar, hafa snöggt um minni rétt en þeir sem geta greitt atkv. á kjörfundi, því í 88. gr. kosningalaganna segir að kjósandi eigi rétt á að fá aðstoð við atkvgr. í kjörklefanum, ef hann skýrir kjörstjórn frá því, að hann sé eigi fær um að kjósa á fyrirskipaðan hátt sakir sjónleysis eða þess að honum sé hönd ónothæf. Með ákvæðinu, sem bannar hjálp til handa því fólki, sem vill og þarf að kjósa utankjörfundaratkvgr., eru ótrúlega margir þegnar í þjóðfélagi okkar settir á óæðri bekk og sviptir grundvallarrétti sínum, kosningarrétti.

Með 3. gr. þessa frv., ef samþ. verður, er bættur sá aðstöðumunur, sem hér hefur verið drepið á, og er heimiluð sama hjálp til handa þeim, sem kjósa utan kjörfundar, eins og þeir njóta, sem á kjörfundi kjósa. — Hér lýkur tilvitnun í efni grg.

Í 4. gr. frv. er lagt til, að við 71. gr. nefndra kosningalaga bætist eftirfarandi málsgrein:

„Yfirkjörstjórn á hverju kjörsvæði skal strax að morgni kjördags bera þau utankjörstaðaatkv., er borist hafa, saman við kjörskrá viðkomandi staðar og það, sem ekki finnst þar, skal borið saman við þjóðskrá og atkv. komið á réttan ákvörðunarstað.“

Talið er að í hverjum kosningum ónýtist allmörg utankjörstaðaatkv. vegna þess að þau eru of seint athuguð af kjörstjórnunum. Þegar loks kemur í ljós að heimilisfang er skakkt, er orðið um seinan að koma atkv. þessum á réttan ákvörðunarstað. Með þeim vinnubrögðum, sem hér er lagt til að upp verði tekin af hverri yfirkjörstjórn, yrði í flestum tilfellum hægt að koma í veg fyrir að atkv. ónýttust með þessum hætti.

Í 5. gr. er lagt til að 8. tölul. 141. gr. laganna falli brott, en það leiðir af sjálfu sér, ef frv. þetta nær fram að ganga, þar sem undir þeim tölulið er fjallað um sektir ef maður aðstoðar kjósanda við atkvgr. utan kjörfundar eða ef kjósandi þiggur slíka aðstoð.

Herra forseti. Ég veit að flestir hv. þm. eru mér sammála um að lög nr. 52 14. ágúst 1959, um kosningar til Alþingis, eru gölluð og beinlínis ranglát á mörgum fleiri sviðum en hér er lagt til að leiðrétta. Það kom raunar greinilega fram í tillöguflutningi á Alþingi í lok síðasta þings. En þar sem ég veit að fyrir hv. flm. þessa frv. vakir að ná fram sjálfsögðum og sanngjörnum breytingum á lögunum nú, sem enginn ágreiningur ætti að þurfa að vera um, leyfi ég mér að vona að frv. þetta fái góðar undirtektir og afgreiðslu hv. þm.

Ég legg að endingu til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og allshn.