11.12.1978
Neðri deild: 29. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1418 í B-deild Alþingistíðinda. (960)

125. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég ætla að byrja á því að undirstrika það, sem hér hefur komið fram margoft, að þetta frv. er flutt að ósk bændasamtakanna, og fyrir það vil ég sem bóndi þakka ríkisstj.

Bændasamtökin hafa áður haft áhuga á því að framleiðsluráðslögum yrði breytt. 1972 óskuðu þau eftir því, að framleiðsluráðslögum yrði breytt. Því miður var það ekki gert þá, því miður brugðu sumir stuðningsflokkar þáv. ríkisstj. fæti fyrir það, en það væri betra ástand nú ef það hefði verið gert þá. Það væri líka minni vandi á höndum nú, ef við hefðum tekið rögg á okkur í fyrravetur og breytt framleiðsluráðslögum, því að vissulega er vandi fyrir höndum. Ég held að draumarnir frá í fyrravor, sem lukkuriddarar lýstu í atkvæðasmöluninni, um það að hækka kaupið, lækka skattana, auka niðurgreiðslurnar og þá mundi nú allt saman étast upp, eigi ekki rétt á sér við nánari skoðun.

Satt að segja átti ég von á ofurlítið öðrum málflutningi hjá hv. þm. Pálma Jónssyni en hann viðhafði áðan. Mér fannst hann einfalda staðreyndir um of. Mér finnst það vera að stinga höfðinu í sandinn, og mér finnst það ekki skynsamleg aðferð sem strúturinn notar.

Hv. þm. telur að ekki sé um veruleg vandamál í sauðfjárframleiðslu að ræða. Því miður held ég að þetta sé ekki rétt. Það er rétt hjá hv. þm. að í mjólkurframleiðslu eru vandamálin sem stendur meiri, en útflutningur á dilkakjöti er óhagkvæmur og því miður eru ekki horfur á öðru en hann verði fremur óhagkvæmur á næstu árum, a.m.k. ef sú verður þróunin að verðbólga vex hraðar á Íslandi en í viðskiptalöndum okkar. Ég vona að stjórnvöldum takist að snúa við á þeirri braut sem farin hefur verið, en fram að þessu hefur verðbólgan vaxið hraðar hér en í viðskiptalöndunum og þar með samkeppnisaðstaða okkar farið síversnandi.

Mér finnst ástæðulaust að vera að tortryggja það starf, sem unnið hefur verið að markaðsmálum. Það er kannske aldrei fullreynt, en markaðsnefnd, sem nýlega hefur skilað áliti eða er um það bil að gera það, hefur ekki getað gert betur en áður hefur verið gert. Hennar vonir náðu ekki fram að ganga. En mér finnst efamál að ástæða sé til að halda því fram, að hér hafi ekki verið nógu vel að verki staðið. Auðvitað þarf að hafa þetta mál í stöðugri endurskoðun og auðvitað þarf að halda áfram að leita markaða. Hv. þm. Pálmi Jónsson stakk upp á því, að ráðh. færu að blanda sér í málið fremur en orðið er. Hann vitnaði til Íra og sölu þeirra á kjöti til Frakklands. Aðstaða Íra er bara allt önnur en okkar. Írar eru í fyrsta lagi í Efnahagsbandalagi Evrópu. Það er 27% tollur í Frakklandi. Írar sömdu um fríðindi í landhelgi sinni til þess að koma þessu kjöti fram hjá tollinum. Ég veit ég þarf ekki að vara hæstv. ríkisstj. við því að fara að semja um fríðindi eða ívilnanir handa öðrum þjóðum í landhelgi. Ég veit að hæstv. ráðh. dettur slíkt ekki í hug. Hv. þm. Pálmi Jónsson nefndi þetta refsiskatta á aukna framleiðslu, og það nokkuð með réttu, og taldi að þetta þekktist ekki í öðrum atvinnuvegum. Þetta er einmitt gert í sjávarútvegi t.d. Við höfum áþreifanlega orðið varir við það, við hv. þm. Pálmi Jónsson, að rækjan er háð magnleyfum, síldin er háð magnleyfum og ef farið er fram yfir ákveðinn kvóta er aflinn einfaldlega gerður upptækur. Það er nú ekkert annað. Svona má sjálfsagt lengi telja.

Hv. þm. virtist aðhyllast fremur tiltekinn kjarnfóðurkvóta á grip. En á honum eru verulegir gallar eins og því fyrirkomulagi sem stungið er upp á í þessu frv. Ég hygg að sú lausn, sem fundin er í frv., sé illskárri en að leggja þennan tiltekna kvóta á búeiningu.

Það er gleðilegt, sem maður gat reyndar sagt sér sjálfur, sem fram kom hjá hv. þm. Árna Gunnarssyni, að Alþfl. fylgir þessu frv. Það er viðkunnanlegri hljómur í ræðu hv. þm., sem ég þakka honum mjög vel fyrir, heldur en er í frv. til l. um breyt. á l. um framleiðsluráð á þskj. 75, en flm. eru hv. þm. Sighvatur Björgvinsson, Vilmundur Gylfason, Árni Gunnarsson og Eiður Guðnason. Þar er gerð einhliða tilraun til þess að koma í veg fyrir að verulegur hluti af útflutningsbótunum verði greiddur með sama hætti og undanfarið hefur verið gert. — Það gefst síðar tækifærið til þess að ræða það mál og ég mun ekki gera það að þessu sinni.

Hv. þm. óttaðist að fóðurbæti yrði hamstrað stórlega ef menn ættu von á kjarnfóðurskatti. Það getur vel verið að það verði einhver brögð að því og eitthvað greiðari sala meðan þetta mál er að velkjast hér í þinginu, en ég hygg að það verði skammgóður vermir fyrir bændur að hamstra fóðurbæti. Það er líka dýrt að taka fóðurbæti út í skuld og geyma hann lengi. Þetta getur verið eftir ástæðum, en a.m.k. er ég ekki mjög hræddur um að verulegt hamstur verði ofan á.

Mér kemur það hins vegar mjög á óvart, að hv. 1. þm. Austurl., Lúðvík Jósepsson, ætlar ekki að greiða þessu stjfrv. atkv. sitt. Hann segist vera andvígur þeim leiðum sem farnar eru í frv. Ég hefði talið eðlilegra að hv. þm. hefði gert ríkisstj. grein fyrir því fyrr að svo væri.

Hv. þm. ræddi nokkuð um neyslu landbúnaðarafurða. Hann hefur haldið þeirri skoðun fram fyrr, að kindakjötsframleiðsla væri síst of mikil í landinu, og haft á því ýmsar lausnir, eins og menn vita, og las hér fróðlegar tölur, sem voru réttar í sjálfu sér og ég ætla ekki að draga í efa, um bæði framleiðslu og neyslu. En á þessum tíma hafa aðstæður breyst. Nautakjötsframleiðsla hefur aukist stórkostlega í landinu á þessum tíma. Alikálfaræktin, sem hófst upp úr 1970, bættist inn á mettaðan markað. Menn hættu að slátra kálfunum ungum og mikill fjöldi kálfanna er alinn í þrjú missiri. Þetta er gert m.a. til þess að koma til móts við óskir neytenda, sem óskuðu eftir meira nautakjöti, en þetta dregur að sjálfsögðu úr neyslu dilkakjöts að sama skapi. Það var farið að greiða niður. Þetta kjöt var því ekki samkeppnisfært um verð og með því dró enn fremur úr neyslu kindakjöts. Svo hefur hænsnaát færst í aukana í landinu og neysla svínakjöts.

Hv. þm. Lúðvík Jósepsson nefndi það, að auðvitað kæmi það niður á framleiðslu ullar og skinna ef sauðfé fækkaði. Það er alveg rétt. En við þurfum að vinna mjög bráðan bug að því að reyna að vinna ull og gærur meira innanlands. Við flytjum enn út pæklaðar gærur, og það er ekki gott. Við flytjum meira að segja út band, og það er þaðan af verra. Þar eigum við óunnið verk. Við þurfum því ekki að mínum dómi að hafa verulegar áhyggjur af samdrætti í sauðfjárframleiðslu að þessu leyti.

Hv. þm. Lúðvík Jósepsson minntist á það, að fóðurbætisskattur gæti komið sér illa þegar harðæri gengi yfir og erfiðleikar væru með heyöflun. Það er auðvitað einfalt að lækka eða fella niður fóðurbætisskattinn ef horfur eru á of miklum samdrætti í framleiðslunni.

Hv. þm. fékk ekki dæmið til að ganga upp, að tekjur bænda mætti ekki skerða og bændum mætti ekki fækka. Ég fæ þetta til að ganga upp með því móti, að mér finnst að þessar heimildir stefni að því að færa tekjur á milli bænda og hagræða í íslenskum landbúnaði. Þetta eru ekki peningar sem á að flytja frá stéttinni. Ég skil frv. þannig, að þetta séu ekki peningar sem séu teknir af bændastéttinni, heldur peningar sem eru fluttir á milli bænda.

Hv. þm. Lúðvík Jósepsson taldi skipulagningu í landbúnaði ekki hafa verið næga. Ég er honum sammála um það. En þetta frv. er tilraun til skipulagningar að mínum dómi. Hann undraðist, að bændur skyldu hafa beðið um þetta frv., og átti von á því að þeir mundu við nánari athugun komast á aðra skoðun og sjá eftir því að hafa beðið um þetta frv. Ég held að íslensk bændastétt sé búin að velta þessu máli mikið fyrir sér. Í fyrravetur gerðist sú ógæfa, að bændur tóku illa hugmyndum aukafundar Stéttarsambands bænda um kjarnfóðurgjald. Fjölmargir fundir voru haldnir og niðurstaða ýmissa þeirra var sú að mótmæla þessu hugsanlega kjarnfóðurgjaldi í ákveðnum orðum. Nú var unnið öðruvísi að málinu. Í sjömannanefnd áttu sæti sumir af þeim mönnum sem harðast gengu fram á móti hugmyndinni um kjarnfóðurgjald og þótti hún ógeðfelldust á s.l. vetri. Þeir komust að raun um við skoðun á málinu að þetta yrði skásta leiðin. — Það liggur æðimikil vinna í því — mér er kunnugt um það — hjá bændasamtökunum að semja þetta frv., sem hæstv. landbrh. leggur hér fram, — æðimikil vinna og vandasöm. Menn hafa legið yfir þessu, skoðað ótölulegan grúa af ályktunum og hugmyndum.

Þetta er ekki algott frv. Það hygg ég að enginn nm. í sjömannanefnd beri sér í munn, og ég ætla ekki að gera það. En lausn þessarar sjömannanefndar er sú eina leið sem ég í fljótu bragði get séð að breið samstaða megi nást um, bæði meðal bænda og stjórnmálamanna. Hins vegar get ég ekki leynt vonbrigðum mínum með það, að hv. þm. Pálmi Jónsson og Lúðvík Jósepsson skuli ekki hafa meiri áhuga á framgangi málsins en þeir virðast hafa. Það er þá á þeirra ábyrgð ef þessi ósk bændasamtakanna nær ekki fram að ganga.

Það er nokkuð góð samstaða meðal bænda um þessar leiðir. Ég átti þess kost að sækja þrjá bændafundi í s.l. viku, þar sem saman voru komnir líklega samtals um 400 bændur úr Norðurlandskjördæmi vestra og þinguðu um málið. Það voru nokkuð skiptar skoðanir um frv., en þorri bænda var á þeirri skoðun, að þetta væri þegar allt kæmi til alls skásta leiðin. Á sumum þessara funda voru samþykktar tillögur og gerðar ályktanir, öðrum ekki. Þær ályktanir, sem gerðar voru, gengu í þá átt að styðja málið.

Sú offramleiðsla, sem við eigum við að stríða núna, er sköpuð í góðæri. Þetta góðæri nýtist ekki eins vel til framleiðsluaukningar ef frv. verður að lögum en ég endurtek: Það er skoðun mín og ég tel flestra þeirra bænda, sem ég heyrði í s.l. viku, að þetta sé sársaukaminnsta leiðin fyrir bændur og almenning í landinu. Hins vegar er ég ekkert viss um að leið þessa frv. dugi til þess að draga úr framleiðslunni þannig að 10% útflutningsbótaréttur nægi, en reynslan verður að skera úr um það mál.

Ljóst er að brúttótekjur margra bænda koma til með að rýrna ef þetta frv, verður að lögum, en því verður að mæta með því að huga fremur að nettótekjunum. Það er alveg vafalaust, þrátt fyrir að hv. 1. þm. Austurl. dragi það í efa, að bændur geta æðimargir þróað hjá sér hagkvæmari búrekstur og munu gera það þegar hagkvæmara verður að fóðra á eigin heyafla en verið hefur um sinn og treysta minna á innflutt kjarnfóður. 4 500 bændur eru í landinu eða þar um bil og ég undirstrika það, að ég tel að þeim megi ekki fækka. En samt er það þannig, að samdrátturinn í framleiðslunni verður einkum að koma fram á stærri búunum. Og þá komum við að mjög athyglisverðum þætti í málinu, að fóðurbætir á einingu, fóðurbætir á kú, er miklu meira notaður á stærri búum en á smærri búum, enda hefur það komið í ljós samkv. búreikningum, að meðalstór bú eru miklu hagkvæmari rekstrareiningar en stærstu búin. Að vísu er þetta, eins og flest í lífinu, háð ýmsum mismunandi forsendum, en þetta eru þó það sem menn lesa út úr búreikningum og búreikningar, sem kannske orka að vísu eitthvað tvímælis, eru sú leiðbeining sem við verðum að reyna að fara eftir.

Ég er alveg sannfærður um að verðjöfnunargjald, eins og innheimt var á sauðfjárafurðir illu heilli á s.l. vori og ríkisstj. hefur nú — svo er henni fyrir þakkandi — beitt sér fyrir að verði endurgreitt bændum, var miklu verri skattur. Verðjöfnunargjaldið er ákaflega óréttlát aðferð og miklu óréttlátari og verri leið en sá kostur sem hér er valinn. Þar með þykir mér alveg ljóst, að versti valkosturinn, sem við gætum tekið, væri að gera ekkert í málinu, og þess vegna vil ég treysta því, að hv. þm. gangi nú ekki í það að tefja þetta mál.