11.12.1978
Neðri deild: 29. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1422 í B-deild Alþingistíðinda. (962)

125. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Friðjón Þórðarson:

Herfa forseti. Ég gat því miður ekki hlýtt á ræðu hæstv. landbrh., þegar hann fylgdi frv. þessu úr hlaði, né heldur þeirra sem næstir honum töluðu, en ég hef hlýtt á nokkra hv. þm. sem rætt hafa þetta mál síðdegis og nú í kvöld. Ég kem ekki upp í þennan ræðustól með fangið fullt af úrbótum frekar en þeir. Mér hefur skilist á máli þeirra, að þeir hafi ekki lausn þessara mála á reiðum höndum. Ég lái þeim það ekki. Þeir hafa margir hverjir slegið úr og í. Það þótti að vísu áður fyrr oft háttur dugmikilla sláttumanna að slá úr og í á góðu engi, en hér er víst ekki um slíkt engi að ræða að þessi samlíking hæfi.

Það er öllum ljóst, að mikill vandi steðjar að íslenskum landbúnaði vegna framleiðslu mjólkur- og sauðfjárafurða umfram það sem ekki selst á innanlandsmarkaði. Mönnum er því ljóst, að eitthvað verður að taka til bragðs. Það er brýnt að grípa til einhverra aðgerða, sem ekki eru of harkalegar, og haga þeim á þann veg, eins og raunar grg. bendir á, að þær raski ekki byggðinni frá því sem hún er, því að ég hygg að við viljum flestir að byggð haldist um allt land þar sem búsældarlegt er að eiga heima.

Ég sagði að hv. þm. hefðu slegið úr og í. Hv. 1. þm. Austurl. taldi að sumu leyti of mikið gert úr þessum vanda, það yrði að varast að gera harkalegar aðgerðir. Hv. 4. þm. Norðurl. v., sem hér lauk nýlega máli sínu, benti á að samstaða væri nokkuð góð um þetta mál og að þorri bænda styddi málið, eins og hann komst að orði.

En þá er að athuga í örstuttu máli við 1. umr. þessa máls, hvað frv. hefur að geyma. Það er ekki nema þrjár greinar. Þó að ég hafi ekki skoðað það rækilega niður í kjölinn, þá hefur það að mínum dómi fyrst og fremst að geyma heimildir til þess að setja mikilvægar reglur. Og þegar um slíka löggjöf er að ræða er eðlilegt að menn séu ekki á eitt sáttir. Þá hugsa flestir, sem eitthvað horfa fram í tímann á annað borð, sem svo: Hvernig verður þessi heimild notuð þegar til kastanna kemur? Þetta finnst mér ofur eðlilegt og hygginna manna háttur. Af þessu leiðir að menn eru ekki sáttir við þær leiðir, sem hér eru nefndar í þessu frv., né heldur fleiri leiðir, sem borið hefur á góma. Ég hygg að það verði seint að menn vilji allir stefna í eina átt, — eða hvenær er það, þegar raunverulegt vandamál ber að höndum, að allir vilji horfa til einnar og sömu áttar? Ég hygg að það sé fremur fátítt.

Hv. 4. þm. Norðurl. v. minntist á verðjöfnunargjaldið, sem hann taldi ákaflega óréttlátt. Aðrir ræða um og gagnrýna kvótakerfið og kjarnfóðurskattinn sem hér er að vikið.

Í grg. með 1. og 2. gr. frv. sjáum við einmitt það staðfest, sem ég nefndi áðan, að hér er fyrst og fremst um heimildir að ræða sem nota má til að grípa til hinna og annarra aðgerða. Þar segir að nýmæli felist í frv. sem öll hníga að því að koma betra skipulagi á framleiðslu landbúnaðarafurða og auka hagkvæmni hennar. Um 2. gr. er einnig sagt, að hún sé nýmæli og ætlast til að heimildum, sem hún veitir, verði beitt í því skyni að samræma meira en verið hefur landbúnaðarframleiðslu og innlendar þarfir. Svona mætti lengi áfram halda. Ég skil vel að menn óttist að landbúnaðurinn sem atvinnugrein verði reyrður í of mikla skipulagsfjötra. Á hinn bóginn verðum við þá að viðurkenna að nauðsynlegt er að hafa eitthvert heildarskipulag á öllum hlutum.

Ég sá í grg., að jafnvel í landi þar sem óvenjumikið jafnvægi er í öllum greinum, í Sviss, hefur nýlega verið lagt innflutningsgjald á fiskimjöl með nánari skýringum er þarna eru greindar. Þannig er sjáanlegt að öll lönd, allar þjóðir verða að vera á verði í ýmsum efnum af þessu tagi, jafnvel þó þar ríki ládeyða á yfirborðinu og allt virðist leika í lyndi, eins og hjá Svisslendingum.

Þá hefur verið bent á það, að frv. þetta sé mjög rækilega undirbúið, og verður ekki annað sagt en svo sé. Frv. er byggt á tillögum sjömannanefndarinnar svokölluðu. Ef maður les og kynnir sér um hendur hverra þær tillögur hafa farið síðan nefndin skilaði áliti 28. sept., þá sýnir það sig að þær hafa farið um hendur bændasamtaka og forustumanna bænda á ýmsum stigum sem yfirleitt — að því er sé verður — hneigjast í þá átt að styðja þetta frv.

Þá er hér sagt um sjömannanefnd, að hún hafi m.a. skoðað vandlega samþykktir bændafunda og búnaðarsambanda frá s.l. vetri. Þessar samþykktir hafa allar legið fyrir nefndinni og verið mjög rækilega athugaðar. Ég ætla ekki á þessu stigi að fara að gefa hástemmdar yfirlýsingar um það, hvort ég styð þetta frv. eða ekki. Ég hef yfirleitt þann hátt á að kynna mér málin áður en ég gef slíkar yfirlýsingar. Og hér er um mál að ræða, sem vissulega er mjög margbrotið, fjölþætt og erfitt viðureignar.

Ég sé að sjómannanefnd og fleiri aðilar hafa kannað eða a.m.k. horft á þessi mál frá ýmsum hliðum, og það er vissulega eitt og annað athyglisvert sem getur að líta á þessum blöðum. Við vitum að það er mikið vandamál, þegar horft er yfir landbúnaðinn sem heild, að tekjur bænda eru mjög misjafnar miklu rýrari sums staðar á landinu en annars staðar. Líka er bent á það hér, og ástæða til að nefna það sérstaklega, að það er hægt að benda á ýmsar leiðir sem athuga má til úrbóta, en þeim er flestum svo varið, að þær leysa ekki vandann nema að einhverju leyti og ekki nema á löngum tíma. T.d. er bent hér á að auka mætti tekjur margra bænda með aukinni fiskrækt, fiskeldi og meiri stuðningi við nýtingu vatna í byggðum og óbyggðum. Einnig er nefnd hér loðdýrarækt o.fl.

Það er vikið hér að fjárfestingum bænda. Sumum hefur þótt nóg um, hvað bændur hafa fengið mikið lánsfé á undanförnum árum, og rætt mikið um það, að þarna hafi verið um nánast sjálfvirka afgreiðslu lána að ræða. Ég held að mörg orð, sem sögð hafa verið í þessu efni, hafi verið mælt af mikilli fákunnáttu. Við vitum það, sem þykjumst nokkuð þekkja til þessara mála, að í mjög mörgum tilvikum hefur bóndinn verið að búa í haginn á heimili sínu án þess að fjölga bústofni. Við verðum að viðurkenna það. Við verðum að líta á aðbúnað bænda á vinnustað eins og hverra annarra. Það er mikið rætt um það meðal þeirra, sem segjast vera talsmenn verkalýðsstéttarinnar, að það þurfi að huga að aðbúð og öryggi á vinnustað. Margar þær framkvæmdir í byggingum, sem bændur hafa verið að vinna að á undanförnum árum, hafa einmitt verið gerðar til þess að þeir þyrftu ekki að halda áfram svo að segja að skríða eftir þröngum geilum og göngum, eins og gert var hér áður fyrr. Þær hafa verið unnar í þá átt að búa þeim mannsæmandi skilyrði á vinnustað, eins og hverjum öðrum þegnum þjóðfélagsins.

Mér er fyllilega ljóst, að það má margt mæla gegn t.d. kjarnfóðurskattinum. Hv. 1. þm. Austurl. sagði áðan, að þar væri um mjög ónákvæman skatt að ræða. Ég get vel fallist á þetta. En þá er eins og í öllum öðrum efnum rétt að fara þess á leit við hv. alþm., að þeir bendi á aðrar leiðir sem tiltækar eru og aðgengilegri.

Þá get ég ósköp vel tekið undir það, að vinna þurfi markvisst að vörukynningu og markaðsöflun innanlands og utan. Ég þykist viss um að á þessu sviði sé margur akurinn óplægður. Þarna þarf að vinna mikið verk í viðbót við það sem gert hefur verið. Ég er líka alveg viss um það, þó ég sé ekki spámaður frekar en aðrir hv. alþm. hér inni, að landbúnaður á Íslandi á mikla framtíð fyrir sér.

Ég ætla að fara að stytta mál mitt, en víkja í örfáum orðum að þremur atriðum sem ég vil benda á og mér þykja athyglisverð.

Það er rætt um mikinn vanda bændastéttarinnar. En við skulum athuga það, að líka er rætt um vanda annarra stétta. Það eru til menn sem segja að það þurfi að fækka fiskiskipunum um helming, og margir mæla svo, að iðnaðurinn horfi fram á miklar ógöngur og úrræðaleysi í nánustu framtíð. Ég tel að vandi bændastéttarinnar og búskaparins í landinu sé samtvinnaður hinum almenna þjóðarvanda sem við höfum allir við að glíma, þ.e. hinum mikla verðbólguvanda. Þið hafið kannske heyrt í bóndanum sem verið var að ræða við í útvarpinu áðan, líklega um hálfátta leytið. Hann gat þess, að hann hefði neyðst til þess að fjölga bústofni sínum svo og svo mikið árlega til þess að hafa við þeim síhækkandi útgjöldum sem bú hans yrði að bera. Hann gerði þetta ekki vegna þess að hann ætlaði sér að hleypa búinu upp eða fjölga búpeningi mjög mikið, heldur til þess að reyna með þessu móti að takast á við hinn almenna verðbólguvanda sem tröllríður íslensku þjóðfélagi um þessar mundir og við stöndum allir í harðri baráttu við.

Þá hefur einnig verið bent á að iðnaður sé nátengdur búskap. Og það var laukrétt hjá hv. 1. þm. Austurl. að ef farið yrði að fækka bændum allt að helmingi, eins og ýmsir hv. þm. hafa tæpt á, þá mundu ýmsir fleiri en bændur finna fyrir því. Það þarf ekki annað en nefna skinna- og ullariðnaðinn í því sambandi.

Ég veit að þetta frv. er síður en svo algott, og eins og ég sagði í upphafi, þá hefur það að geyma heimildir sem jafnan eru óneitanlega talsvert varhugaverðar og geta horft til hins verra ef þeim er beitt á þann veg. En þarna verðum við þó að horfa á það, sem ýmsir hafa hér gert að umtalsefni, að bændur sjálfir eða talsmenn þeirra hafa óskað eftir því, að þessu máli yrði hreyft, — það yrði borið fram á Alþingi. Þarna tel ég að bændur hafi sýnt hyggindi að því leyti, að þeir viðurkenna sjálfir vandann. Þeir hafa þurft við mörg vandamál að glíma á umliðnum öldum, og það er held ég þeirra háttur að hyggja að og viðurkenna þann vanda sem að höndum ber hverju sinni. Þessi vandi verður ekki leystur í öllum greinum, síst á svipstundu. Það getur tekið langan tíma, ekki síður en glíman við verðbólguna s]álfa. En skilningur bændanna sjálfra er mikils virði. Ábendingar þeirra og tillögur verður að íhuga vandlega. Þá fyrst er von til þess að finna ráð sem ætla má að eitthvað dugi til úrbóta.