11.12.1978
Neðri deild: 29. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1425 í B-deild Alþingistíðinda. (963)

125. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Þórarinn Sigurjónsson:

Herra forseti. Ég ætla með nokkrum orðum að gera grein fyrir einum þætti í frv. sem hér liggur fyrir til umr.

Mér er ljóst að ekki verður hjá því komist að gera eitthvað til þess að draga úr þeirri miklu framleiðslu sem hefur verið nú að undanförnu á landbúnaðarafurðum, og þess vegna er ég sammála því, að það þurfi að finna leiðir til þess að draga úr henni. Frv., sem hér liggur fyrir til umræðu, er fyrst og fremst ætlað að gera það. Ég vil þó minnast hér á einn þátt sem ég er ekki að öllu leyti sammála um og vil að komi fram við þessa umr. Væntanlega kemur þetta frv. til landbn. Nd., þar sem ég á sæti, og verður þá gerð betur grein fyrir því þar.

Eins og ég áður tók fram, er hér um að ræða að draga úr þeirri offramleiðslu sem hefur verið um nokkurt skeið í vissum búgreinum í landbúnaðarframleiðslunni. Þar á ég fyrst og fremst við kindakjötsframleiðsluna og mjólkurframleiðsluna. Það hefur verið svo núna að undanförnu, að allmiklu meira hefur verið framleitt en hægt hefur verið að nýta hér innanlands eða fá viðunandi verð fyrir á erlendum mörkuðum, eins og öllum er kunnugt. En svo hafa líka verið aðrar búgreinar, sem eru reknar hér í landi, t.d. eins og eggjaframleiðsla og svínakjötsframleiðsla, sem hefur verið svo ástatt um nú á síðasta ári, að þessar vörur hefur vantað á markaðinn. Þess vegna er það ekki alfarið, að alls staðar sé um að ræða offramleiðslu í landbúnaði. Mun það m.a. vera af því, að neysluvenjur þjóðarinnar eru að breytast og hafa breyst eins og margra annarra þjóða á þessa leið.

Ég vil því fyrst og fremst spjalla smávegis um þann þátt — eggjaframleiðsluna — þar sem ég hef verið nú um nokkurra ára skeið formaður í Sambandi eggjaframleiðenda. Þar hefur verið við ýmsa erfiðleika að etja, eins og t.d. skipulagi á þeirri búgrein er háttað. Ég get ekki látið hjá líða að mótmæla t.d. þeim fóðurbætisskatti, sem er gert ráð fyrir að leggja á kjarnfóður, og þá fyrst og fremst vegna þess að það kemur mjög hart niður á eggjaframleiðslunni. Lauslega reiknast mér svo til, að þessi skattur geti kostað eggjaframleiðendur um 270 millj. kr. á ári verði hann lagður á eins og gert er ráð fyrir í frv. að hægt sé að gera. Þetta þýðir það, að þessi skattur kæmi annaðhvort fram í hækkuðu verði á eggjum til neytenda eða þá að það mundi leggjast niður öll framleiðsla á eggjum. Er það ekki æskileg þróun að hvorugu leyti til. Þess vegna verð ég sem einn af eggjaframleiðendum að mótmæla því, að þessi skattur sé lagður á þar sem hann kemur svo hart niður á þessari búgrein.

Ég get sömuleiðis sagt það að nú er notað svo mikið af svínakjöti í ýmiss konar vinnsluvörur, að ég held að það mundi verða mjög erfitt að framleiða hér góðar kjötvinnsluvörur ef svínakjötið yrði tekið út úr. Þess vegna held ég að það megi ekki láta skatt þennan skella á þessum búgreinum. Ég vil þess vegna undirstrika það, að mér finnst óeðlilegt að hann komi svo þungt niður á þeim. Það hlyti þá að velta út í verðlagið og koma niður á neytandanum. Ég vil þess vegna hafa fyrirvara um þennan þátt í 2. gr. þessa frv.

Það eru ýmsir fleiri þættir sem hér væri e.t.v. ástæða til að gera að umræðuefni. En þar sem ég hef verið fjarverandi í dag og ekki heyrt þær umr., sem hér hafa farið fram, þá ætla ég ekki að fara frekar út í það, en vildi fyrst og fremst koma þessu á framfæri. Núna nýverið hafa eggjaframleiðendur og reyndar svínakjötsframleiðendur líka haldið fund, og ég veit að það koma hörð mótmæli gegn þessum fóðurbætisskatti sem ég hef nú þegar minnst á.

Ég hef þessi orð þá ekki fleiri nú. Eins og ég sagði áður kemur þetta frv. væntanlega til landbn., og ég mun þá gera frekari aths. við það í n. eftir því sem tilefni gefst til.