11.12.1978
Neðri deild: 29. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1428 í B-deild Alþingistíðinda. (965)

125. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Dómsmrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Mér þætti vænt um að hafa hér þá þm. sem mestar aths. hafa gert við þetta frv. Ég held þeir gætu sýnt þá viðleitni. Væri rétt að biðja hæstv. forseta að athuga hvort þeir eru við. Er það ekki unnt? (Forseti: Ég skal verða við því.) Ég bíð á meðan, fæ mér sæti. (Forseti: Ég vil geta þess við hæstv. ráðh., að ég hef gert ráðstafanir til þess að þeir hv. þm., sem hér hafa talað, verði við.) Ég þakka fyrir.

Já, herra forseti. Mér skilst að hv. 1. þm. Austurl. muni vera farinn og verð ég að lýsa furðu minni á því eftir þá ræðu sem hann flutti áðan, sem ég hefði gjarnan viljað fjalla allmikið um, ekki síst þar sem hv. þm. hafði tjáð mér að þingflokkur Alþb. hefði samþ. að standa að þessu frv. sem stjfrv., þótt þeir gerðu kannske einhverjar aths. við einstakar greinar þess.

Ég sé, að hv. 2. þm. Norðurl. v. er kominn. Hann flutti hér ítarlega ræðu. Skal ég reyna að fara um hana nokkrum orðum. Þó vil ég í upphafi undirstrika það, sem hefur reyndar komið fram oft, að þetta frv. er flutt að beiðni samtaka bænda. Ég gæti sjálfur hugsað mér ýmis atriði þar á annan veg. En mér er ljóst að n., sem bændur hafa átt mikinn meiri hluta í, og samtök þeirra hafa skoðað þetta mál mjög vandlega, ekki aðeins á s.l. ári, heldur miklu lengur. Ég hef því talið rétt að verða við þessari ósk og flytja frv. í megindráttum eins og farið var fram á. Þær breytingar einar, sem voru gerðar og ég mun koma að hér á eftir, eru gerðar vegna þess að samstaða náðist ekki um frv. á annan veg. Ég vil einnig geta þess, að eftir að svokölluð sjömannanefnd hafði skilað frv. fékk ég bréf frá stjórn Stéttarsambands bænda þar sem eindregið var óskað eftir því, að frv. yrði flutt í þessa veru og því hraðað. Á sama veg hefur stjórn Búnaðarfélags Íslands ályktað og sömuleiðis Framleiðsluráð landbúnaðarins. Ég get einnig getið þess, að um þetta frv. var fjallað á fundi Stéttarsambands bænda s.l. haust á Akureyri og var það samþ. þar með öllum atkv. gegn fjórum. Fimm ábendingar komu fram á þeim fundi um breytingar og voru fjórar þeirra teknar til greina.

Ég vil hins vegar strax leiðrétta hv. 3. þm. Vesturl. Hann sagði að þeir flokkar, sem mesta ábyrgð hafa borið á landbúnaðarstefnunni, hefðu ekki gert sér grein fyrir þessum vanda og ekki viðurkennt hann. Þetta er misskilningur. Fyrrv. hæstv. landbrh. lagði fram frv. 1972 sem gerði ráð fyrir svipuðum heimildum og nú er farið fram á fyrir hönd bændasamtakanna. Þá náðist ekki samstaða um frv. Þetta var reynt aftur á síðustu árum, en því miður hefur ekki tekist að ná samstöðu um slíkar heimildir. Ég tek undir það, sem kom fram hjá að ég hygg hv. 4, þm. Norðurl. e., að vafalaust væri vandinn stórum minni ef þá hefði verið fallist á að veita umbeðnar heimildir.

Hér hefur verið töluvert um það rætt, að vandinn væri ekki mikill, og þá hefur reyndar fyrst og fremst verið rætt um sauðfjárafurðir. Ég tek undir það, að varðandi sauðfjárafurðir er vandinn ekki mjög mikill. Þó er myndin ekki dregin upp rétt, sýnist mér. T.d. benti hv. 1. þm. Austurl., sem er ekki viðstaddur, réttilega á það, að vel má vera að neyslan aukist eitthvað á þessu ári og kannske séu það engin ósköp þó að flytja þurfi út u.þ.b. þriðjung af framleiðslunni. Hins vegar er það staðreynd, að útflutningsþörfin allt fram til 1976 var innan við eða um 26% af heildarframleiðslunni eða minna, en er nú orðin 35%, sem er náttúrlega nokkur aukning. En þetta er ekki aðalatriðið. Fyrir nokkrum árum fékkst erlendis yfir 80% af heildsöluverði kindakjötsins, en nú á síðustu árum — t.d. í Svíþjóð — aðeins 42%. Að sjálfsögðu er öllum ljóst að þetta eykur vandann stórlega. Útflutningsbætur, sem eru ákveðnar 10% af heildarframleiðsluverðmætinu, hrökkva þá miklu skemur en í fyrra tilfellinu, þegar hærra útflutningsverð fæst. Þetta er stór þáttur í þessum vanda.

Engu að síður tek ég undir það, að vandinn á sviði sauðfjárframleiðslunnar er langtum minni en á sviði mjólkurframleiðslunnar. Þar er vandinn mjög mikill og þar knýr fyrst og fremst á einhverjar aðgerðir, enda er það fyrst og fremst með tilliti til umframframleiðslu mjólkurafurða sem samtök bænda fara fram á að Framleiðsluráði landbúnaðarins verði veitt aukin heimild. Og hver er þá þessi vandi? Hann er nokkurn veginn fólginn í því, að bændur munu þurfa um 3 milljörðum hærra í útflutningsbótum á árinu 1979 en heimilt er samkv. framleiðsluráðslögum. Vitanlega er ljóst að ef bændur fá þetta ekki þýðir það tekjuskerðingu hjá þeim. Þá fá þeir ekki nema brot af því verði, sem lagt er til grundvallar við tekjuákvörðun bænda, fyrir verulegan hluta af því sem flytja þarf út. Þetta þýðir tekjuskerðingu. Annaðhvort þýðir það gífurlega tekjuskerðingu hjá þeim bændum sem lenda með afurðir sínar í útflutningnum, ef við getum orðað það svo, sem ekki fá losnað við framleiðslu sína á innlendum markaði, eða Framleiðsluráð landbúnaðarins verður að leggja á verðjöfnunargjald, eins og það ákvað á s.l. vori, og jafna þessar byrðar meðal bænda. Þetta er náttúrlega tekjuskerðing.

Hvað er því í raun og veru um að ræða í því frv. sem hér er flutt? Í þessu frv. er fyrst og fremst um það að ræða að bændasamtökum fara fram á heimild til þess að innheimta þetta verðjöfnunargjald á annan veg en nú er leyft, þ.e.a.s. ekki með jöfnu gjaldi á framleiðsluna, heldur með gjaldi, sem lendir þyngra á þeim sem stærri eru og e.t.v. hafa breiðari bökin sumir hverjir, og sömuleiðis með fóðurbætisskatti, en hvort tveggja er þá ályktað að dragi úr framleiðslunni. Með fóðurbætisskatti er að sjálfsögðu verið að innheimta þetta verðjöfnunargjald fyrir fram samkv. ákvörðun bænda sjálfra. Því á síðan að ráðstafa aftur til bænda. Ég leyfi mér því að fullyrða að ef þessi heimild fæst ekki muni bændasamtökin finna sig knúin til þess að leggja á verðjöfnunargjald.

Ég sagði áðan að ég gæti hugsað mér aðrar leiðir. T.d. teldi ég það stórum æskilegri leið, ef unnt væri að marka nú langtímastefnu í landbúnaðarframleiðslunni sem gerði ráð fyrir á síðari hluta þess tímabils, sem gæti verið 5 eða e.t.v. 10 ár því það tekur langan tíma að snúa við þeirri þróun sem verið hefur — minni útflutningsbótaþörf en þessi 10% leyfa. Þá yrðum við að fá á fyrra hluta þessa tímabils verulega auknar útflutningsbætur, ef við ætlum að tryggja bændum þær tekjur sem um er samið í Sexmannanefnd. Eru hv. þm. reiðubúnir að gera það? Er hv. 1. þm. Austurl. reiðubúinn að bæta 3 milljörðum við útflutningsbætur? Hann er ekki hér staddur til þess að svara því. En þetta vildi ég gjarnan fá upplýst. Ég er sannfærður um að bændur mundu langtum frekar vilja fara þá leið og þá leggja á sig að vinna að því að útflutningsbótaþörfin yrði minni á síðari árum áætlunartímabilsins.

Ég vil segja það, að langtum heldur kysi ég að fara þá leið að fá verulega fjárveitingu á fjárlögum svo hægt væri að greiða bændum fyrir að draga saman. Ég er alveg sammála hv. 1. þm. Suðurl., að þessi leið er mjög æskileg. En þá spyr ég aftur: Treysta hv. þm. sér til að standa að því að veita verulega fjárveitingu í því skyni? Vera kann að mitt mat á afstöðunni hér á Alþ. sé rangt, og verð ég þá leiðréttur, en ég hef ekki metið stöðuna svo, að unnt yrði að ná fram slíkri lausn. Það, sem bændasamtökin eru m.a. að fara fram á með þessum gjöldum, er að fá heimild til að nota eigið fjármagn til að ráðstafa í þessu skyni. Eins og kemur fram í frv. er ætlunin að ráðstafa nokkrum hluta af þessu fjármagni til þess að greiða bændum fyrir að draga saman. Þarna eru því tvær leiðir sem vel koma til greina og ég er sannfærður um að bændastéttin mundi grípa feginshendi.

Hér var sagt áðan, að hændur hefðu ekki stillt sér í hóp þeirra kröfugerðarmanna sem hæst hafa í þjóðfélaginu. Ég tel að bændastéttin hafi með þeim tillögum, sem hér eru lagðar fram, tekið á mjög ábyrgan hátt á sínu vandamáli, — á sérstaklega ábyrgan hátt, — og mættu aðrar stéttir taka hana sér til fyrirmyndar. Hér hafa komið fram ýmsar hugmyndir sagði hv. 2. þm. Norðurl. v., að þetta mál þyrfti að ræða mikið halda fundi með bændum o.s.frv. Ég tek undir það með honum, enda var það eitt mitt fyrsta verk í því starfi sem ég nú gegni sem landbrh., að hvetja til slíkra funda. Ég var að slá tölu á þann fjölda sem hefur verið á þeim fundum sem haldnir hafa verið þegar, og er það nálægt 800 manns. Þeir fundir hafa verið mjög jákvæðir, verð ég að segja. Ég var ákveðinn í því að kanna viðhorf hænda áður en ég flytti þetta frv. Ég leyfi mér að segja að undantekningarnar eru örfáar frá því viðhorfi, að það versta, sem gert sé, sé að gera ekki neitt, eitthvað beri að gera strax. — Sömuleiðis hefur yfirgnæfandi meiri hluti lýst því, að réttast muni vera að fara að þessum tillögum sjömannanefndar, sem hafa verið mikið ræddar og ítarlega unnar. Það var að fengnum þessum farareyri, ef ég má orða það svo, að ég ákvað að flytja tillögur bænda eða sjömannanefndar Stéttarsambandsins hingað inn á hið háa Alþingi. Ég tel því að um þetta mál sé sannarlega vel fjallað. Ég hefði gjarnan viljað flytja þetta mál fyrr á þinginu, en það tafðist einmitt af þeim sökum að ég vildi áður geta haldið allmarga fundi með bændum um málið.

Ég vil undirstrika það sem kom fram hjá hv. 2. þm. Norðurl.v. Hann talaði um að ýmsir litu svo á, að offramleiðslan á dilkakjöti væri þjóðfélagslegt böl. Ég tek undir það, að svo er alls ekki. Rétt er að undirstrika það, enda nota ég aldrei neitt slíkt orð. Ég vona að hann hafi ekki verið að vísa til ræðu minnar þegar hann ávítaði menn fyrir þá skoðun.

Hann ræddi töluvert um útflutninginn. Ég gæti vel fallist á að þeytast eitthvað um heiminn og reyna að selja íslenskt dilkakjöt, en ég held að aðrir séu betur færir um það, satt að segja. Hins vegar get ég upplýst að þegar er hafinn undirbúningur að því að fylgja þeim vísbendingum sem markaðsnefndin kom með, m.a. bæði í Frakklandi og í Bandaríkjunum. Hafinn er undirbúningur, og ef sýnt þykir að landbrh. geti haft þar einhver áhrif, þá mun alls ekki standa á mér. Hins vegar er það mál ekki nærri því eins auðvelt og kannske mætti ætla. Hv. þm. nefndi Íra. Hv. 4. þm. Norðurl. v. hefur reyndar þegar svarað því. Þar er um allt annað mál að ræða, kannske getum við sagt því miður, en við kusum þó að gerast ekki fullir aðilar að Efnahagshandalaginu og því erum við í annarri stöðu. Mér er tjáð við fyrstu eftirgrennslan, að útilokað muni vera á fá felldan niður 20% tollinn hjá Efnahagsbandalaginu. Hins vegar hefur mér verið sagt að reynandi sé að fá lækkaðan a.m.k. verndartollinn sem Frakkar leggja á. En jafnvel þótt við fengjum hann felldan niður, þá er hinn tollurinn því miður það hár og flutningskostnaður á fersku kjöti til Frakklands svo mikill, að verðið er ekki glæsilegt sem við fáum í okkar hlut, t.d. stórum lægra en norska verðið. Ég vil ekki fara með tölur nú, ég hef ekki fengið skýrslu markaðsnefndar, en mig grunar að það verði ekki með 20% tollinum yfir 30% af heildsöluverði. Þetta er því miður staðreynd. Sama má raunar segja um Bandaríkin. Kostnaður við að flytja þangað ferskt kjöt er mikill. Hins vegar virðist vera möguleiki á því að losna við eitthvert magn þar á haustin af ófrosnu kjöti fyrir verð sem yrði kannske í kringum 40% af heildsöluverði okkar.

Hv. þm. sagði að þetta opnaði fyrir mismunandi verð á búvöru í allar áttir. Reyndar hygg ég að hv. 2. þm. Vesturl, hafi hitt naglann á höfuðið þegar hann sagði að hér væri um að ræða víðtækar heimildir. Það er nefnilega alveg rétt. Ég hef metið málið svo, að æskilegt væri að veita Framleiðsluráði landbúnaðarins viðtækar heimildir til þess að sporna gegn þeirri umframframleiðslu sem nú er. Ég treysti samtökum bænda fyllilega til að nota þær heimildir á skynsamlegan hátt. Ég treysti þeim betur til að ákveða skynsamlega leið í þessu en okkur hér á hinu háa Alþingi. Ég verð að segja það í fullri hreinskilni. Þess vegna tel ég eðlilegt að heimildirnar séu víðtækar.

Hv. þm. kom nokkuð að því, að æskileg leið væri að heimta toll, skatt eða gjald eða hvað menn vilja kalla það af fóðurbæti umfram ákveðna notkun. Ég get fallist á þetta, enda sagði ég í framsögu minni, að mér sýndist koma til greina að breyta umræddu ákvæði. En eins og það var og er í tillögum sjömannanefndar er aðeins gert ráð fyrir heimild til þess að endurgreiða fóðurbætisskatt að hluta á nautgripa- og sauðfjárafurðir. Ekki sýndist mér vera samstaða um slíka heimild. Því var hún felld út. Ég hef sagt að sjálfsagt sé að landbn. taki þetta til endurskoðunar, en þá er það skoðun mín að þessi heimild verði að vera viðtækari og ná til allrar búvöru, þ.e.a.s. heimild til að endurgreiða að hluta fóðurbætisgjald á alla búvöru. Þá yrði kannske hv. fulltrúi eggjaframleiðenda, sem talaði áðan, ánægður.

Ég vil ekki fara að rekja einstök atriði þess sem hér hefur komið fram. Ég get tekið undir það, sem hefur komið fram hjá ýmsum, að ríkisbúin eru óþarflega stór, enda mun það verða tekið til athugunar. Ég skal ekki segja um hvort leggja á niður sauðfjárbú á Breiðuvík, Hvanneyri, Möðruvöllum og Gunnarsholti. Það þarf að athuga. Vel kemur það til greina. En ég tek undir að fækka má á þessum búum. Það verður athugað.

Hv. 11. landsk. þm. lýsti stuðningi þeirra Alþfl.manna við málið sem þeirri skástu lausn sem fram hefur komið. Sömuleiðis kom það fram hjá hv. 3. þm. Vesturl. Ég þakka þeim það út af fyrir sig, þótt bændum þyki það e.t.v. ekki af góðum hvötum komið. Ég skal þó ekki segja um það.

Hv. 11. landsk. þm. varpaði fram nokkrum spurningum sem að hluta hefur að vísu verið svarað. Hann spurði t.d., hvort ekki væri betri leið að fyrirskipa beinlínis magnminnkun í framleiðslu mjólkur um 10% eða 15%. Þetta mundi að sjálfsögðu leiða til þess að hændur yrðu að draga úr fóðurbætisgjöf eða skera kýrnar og þá eykst kjöt á markaðnum. Þó er ég ekki viss um að menn mundu glaðir leggja sér til munns kjöt af elstu kúnum. Ég hygg að það yrði heldur seigt undir tönn. (Gripið fram í.) Jú, það má kannske finna leið til að losna við það. En þetta er ein leið sem kemur vitanlega til greina. Í raun og veru hafa bændasamtökin þetta í hendi sér samkv. ákvæðinu í a-lið. Þau geta sagt: Við greiðum fyrir svo og svo mikið af búvöruframleiðslunni og ekkert fyrir það sem eftir er. — Þau geta boðið það, að þau kaupi af hverjum bónda 90% af framleiðslu hans undanfarin 2–3 ár. Það er því rétt, sem kom fram hjá hv. 2. þm. Vesturl., að heimildir eru víðtækar.

Það hefur tvímælalaust þann kost í för með sér að innheimta fóðurhætisgjald og framleiðslugjald, að þá fá bændasamtökin, Framleiðsluráð og Stéttarsambandið, visst fjármagn milli handa sem má ráðstafa til að létta þessar byrðar sem munu koma mjög ójafnt niður á mönnum. Það er vafalaust að þeir, sem hafa lagt í miklar fjárfestingar á undanförnum árum, eiga afar erfitt með að draga úr framleiðslunni. Ég sé þann kost við innheimtu þessara upphæða, að þær má nota einmitt til þess að hlaupa undir bagga með slíkum einstaklingum. Því sýnist mér sú leið, sem nefndin leggur til, að ýmsu leyti æskilegri en að fyrirskipa beinlínis samdrátt í framleiðslunni þó að það komi til greina ef hitt dugar ekki.

Ég sagði áðan að það væri til lítils að svara hv. 1. þm. Austurl., sem kom að vísu viða við, og hefði verið gaman að fjalla um sumt sem hann sagði. Þó vil ég nú leiðrétta örfá atriði.

Í fyrsta lagi hef ég margundirstrikað, að mér sýnist koma til greina að heimila endurgreiðslu á hluta af fóðurbætisskatti, sem leiðir til mismunandi hás fóðurbætisskatts. Ég hef rætt vandlega um vandann í dilkakjötsframleiðslunni og þarf ekki að endurtaka það. Ég vil hins vegar undirstrika, að mér finnst menn gleyma þeim mikla vanda sem er í mjólkurframleiðslunni. Hvað á til dæmis að gera við 2000 tonn af smjöri? Það kostar 600 kr. á ári að geyma hvert kg af smjöri. Ársneysla okkar er um 1400 tonn, ef hún nær því, og hún hefur ekki aukist þrátt fyrir miklar niðurgreiðslur. Alveg ljóst er að hændur munu verða fyrir mjög mikilli tekjuskerðingu ef ekki verður gripið í taumana. Ég held sömuleiðis að ekki sé hægt að segja að við höfum staðið frammi fyrir svipuðum vanda fyrr. Í raun og veru hefur þessi vandi speglast í því, hvernig útflutningsbætur hafa nýst. Þær hafa yfirleitt verið undir 10% leyfilegu hámarki öll árin fram til 1977, að vísu 2–3 ár farið upp í 10.1% og 10.5% eitt árið. En það var auðveldlega leyst með svokallaðri inneign af útflutningsbótum frá fyrri árum. Það er ekki fyrr en 1977 að þörfin fer upp í 11.2%. Þá er málið einnig leyst með inneign. En síðan rýkur þörfin upp í 13.3% 1978 og er áætluð 15% 1979. Þetta kalla ég töluvert meiri vanda, þessa 50% aukningu á útflutningsbótaþörf, heldur en við höfum áður horfst í augu við. Ég vil gjarnan að þetta komi hér fram. Ég vil hins vegar taka undir það sem kom fram hjá hv. 1. þm. Austurl. að vitanlega er rétta leiðin að skipuleggja þessa framleiðslu, og rétt er hjá honum að viða má draga saman miklu fremur en á öðrum svæðum.

Ég vil leiðrétta það, að ég hafi sagt að ekki mætti fækka bændum. Ég hef aldrei sagt það. Það vill svo til að ég er búinn að fá þá ræðu sem ég flutti fyrr í dag, ég vil að vísu ekki fara að lesa hana hér því hv. þm. er farinn. Þar tek ég greinilega fram, að þessum aðgerðum muni fylgja einhver fækkun í bændastétt, en ég legg áherslu á það, að hún megi ekki verða á þeim svæðum þar sem strjálbýli er mest, þar þurfi að grípa til opinberra aðgerða, sem bændastéttin eigi ekki að bera kostnað af, til þess að koma í veg fyrir að byggðir fari í eyði. Þetta má gjarnan koma fram.

Ég vil svo segja að lokum, að mér er ljóst að hér er töluverð andstaða gegn því að þetta frv. verði afgreitt fyrir jólafrí þm. Sumir segja að skaðinn sé minnstur gerður með því. Það er að vísu tveggja mánaða töf a.m.k. Tveir mánuðir muna töluverðu í framleiðslu mjólkurafurða. Ég tel hverja viku mikilvæga í sambandi við þær aðgerðir sem hér er gert er ráð fyrir. En það er fjarri mér að leggja einhverja höfuðáherslu á að koma þessum málum fram ef þm. geta ekki sameinast um það. Ég vil hins vegar að það komi skýrt fram, að það eru þessir sömu þm. sem ekki treysta sér til þess að verða við tilmælum bændastéttarinnar um að fá þessar heimildir samþ. fyrir jólafrí þm.