12.12.1978
Sameinað þing: 34. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1445 í B-deild Alþingistíðinda. (969)

16. mál, beinar greiðslur til bænda

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Landbúnaðarmál hafa tekið verulegan tíma af störfum Alþingis að undanförnu, og sýnir það og segir þá sögu, hversu stór vandi blasir við í landbúnaðarmálunum, þó kannske megi segja að vandamálin séu að nokkru leyti í öfugu hlutfalli við áhuga þm. á þeim málefnum sem hér hefur verið fjallað um. Vil ég minna á fund í Nd. í gærkvöld, sem örfáir menn sátu og fylgdust með málflutningi, svo og þennan fund sem nú stendur.

Ég verð nú að segja þá skoðun mína, að hv. síðasti ræðumaður, Stefán Valgeirsson, hefur áður lýst undrun sinni yfir flutningi ýmissa þáltill. hér á þingi, svo að ekki kemur mér á óvart það sem hann hefur sagt um þá till. sem hér liggur fyrir um beinar greiðslur til bænda.

Ég er algerlega sammála þeirri hugsun sem felst í till.

hv. þm. Eyjólfs Konráðs Jónssonar um beinar greiðslur til bænda. Auðvitað ber hændum að fá greidd laun sín eins og öðrum stéttum, öðrum launþegum, ef þeir vilja kalla sig svo, í þjóðfélaginu. Hins vegar er ég þeirrar skoðunar, að bændur verði nú hvað úr hverju að fara að gera það upp við sig, hvort þeir eru atvinnurekendur eða launþegar. Þetta er mál sem hefur verið erfitt að fá skorið úr á undanförnum árum. Sjálfir hafa þeir ekki viljað gefa það upp, hvort þeir væru launþegar eða atvinnurekendur og má segja að það hafi farið nokkuð eftir því, hvernig staðið hefur í bólið hjá þeim.

Ég lít hins vegar svo á, að vegna ýmislegra tæknilegra atriða geti verið erfitt að hrinda þessari hugmynd í framkvæmd. Eitt ráðið væri það, nefnt til gamans, að leggja niður bæði kaupfélög og sláturhús í þeirri mynd sem þau eru, bændur seldu vörur sínar á opnum markaði og fengu þannig greitt hreint. En þetta er víst ekki hægt. Þess vegna er það mín skoðun, að aðferðin hljóti að verða sú að reyna að hraða afurða- og rekstrarlánagreiðslum til bænda. Ég vil að það komi fram í þessar umr., að nefnd, sem landbrh. skipaði nýlega, hefur skilað till. til landbrn. um hvernig haga megi greiðslum á afurðalánum til bænda, sem eru hinar eiginlegu kaupgreiðslur sem bændur fá.

Það er öllum ljóst, hvernig verðbólgan hefur farið með hændur í samfélagi okkar á undanförnum árum, þegar þeir fá ekki nema hluta af tekjum sinum greiddan eftir dúk og disk, en tekjurnar eru þá orðnar að litlu þegar þær koma í vasa eða pyngju bænda.

Ég hefði í þessari umr. viljað leggja mikla áherslu á annað atriði, sem ég tel að sé mjög athugunarvert. Það er hinn mikli milliliðakostnaður sem bændur verða að þola, vil ég segja, kannske innan gæsalappa. Ef við lítum á sláturkostnað á þessu ári, þá tel ég að hann sé svo ótrúlega hár að það hljóti að vera hægt að koma þar við einhverjum lagfæringum. Sláturkostnaður í ár er 303 kr. á hvert einasta kg af dilkakjöti, þ.e. slátur-, sölu- og dreifingarkostnaður plús umbúðakostnaður (Gripið fram í.) Ef hv. þm. hefur einhverja aðra aths. fram að færa væri gott að fá hana strax. — Af þessum kostnaði eru laun og launatengd gjöld 91.50 kr. í sláturkostnaðinum beint, en þegar kemur að öðrum kostnaði á kg þá er launakostnaður 22.50 kr. — launakostnaður er kominn vel yfir 100 kr. vegna slátrunar á dilkum. Þetta held ég að sé óeðlilega hár liður. Hér kemur einnig fram, að heildsölukostnaður er 43.60 kr. á hvert kg og aðeins kostnaður eins og frysting er 27 kr. á hvert kg. Ég hefði talið að það mætti aðeins líta á þessar tölur og fleiri milliliði í sambandi við landbúnaðarafurðir og vil í þeim efnum nefna t.d. hvernig umboðsmenn, umbjóðendur landbúnaðarins á þéttbýlisstöðum, hafa notað það fjármagn sem þeir óneitanlega hafa fengið í hendur vegna þeirra miklu umsvifa sem bændastéttin hefur skapað þeim. Ég vil t.d. spyrja þá menn, sem eru hörðustu stuðningsmenn Sambands ísl. samvinnufélaga, stofnunar sem ég hef ekkert á móti og vil allt hið besta, en tel að hafi farið örlítið út af sporinu: Hvaða tilgangi þjónar það að reisa suður í Reykjavík fyrir fjármuni bænda kexverksmiðju, sem framleiðir eða getur framleitt 2–3 tegundir af kexi sem mundi nægja fyrir alla Svíþjóð? Ég spyr líka: Hvaða tilgangi þjónar það, að Sláturfélag Suðurlands leggi í mjög verulegan kostnað til þess að reisa verslunarhallir í Reykjavík? Þetta eru spurningar sem menn ættu að velta fyrir sér. Þetta er hluti af þeim milliliðakostnaði sem við höfum verið að tala um og við höfum verið að gagnrýna. Á þessu kunna að vera skýringar, en þær liggja ekki á lausu. Þess vegna hefði ég viljað að menn beindu athyglinni í þessari umr. t.d. að milliliðakostnaðinum, hvað fer í hann, hvers bændur fara á mis vegna milliliðakostnaðarins.

En í stuttu máli sagt: Ég held að tæknilega sé erfitt að koma þessari vel meintu hugmynd í framkvæmd, og ég tel að lausnin á þessu máli hljóti að vera sú, að lögð verði á það höfuðáhersla að flýta eins og mögulegt er afurða- og rekstrarlánagreiðslum til bænda. Þar held ég að vandinn liggi. Þessum greiðslum verður að flýta eftir mætti. Æskilegast væri að bændur fengju 100% greiðslur, að sú þróun gæti orðið, og það verði þær beinu greiðslur sem þeir njóti. Kerfið býður raunverulega ekki upp á annað.