12.12.1978
Sameinað þing: 34. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1481 í B-deild Alþingistíðinda. (973)

14. mál, rannsóknarnefnd til að kanna rekstur Flugleiða og Eimskipafélags Íslands

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Hv. síðasti ræðumaður hjó að þeim rannsóknartill., eins og hann orðaði það, sem lagðar hafa verið fram, og fór um þær niðrandi orðum. Ég vil ekki með þeim fáu orðum, sem ég kem til með að segja, mæla með þeirri till. sem nú er á dagskrá, heldur vil ég vegna orða fyrrv. hæstv. menntmrh. um, að ekki væri rétt né hægt að rannsaka fyrirtæki eða stofnanir á þann hátt sem farið er fram á í þeim till. — hann talaði almennt um þær till. sem fram hafa komið, ekki sérstaklega þá sem hér er á dagskrá — aðeins benda á að ekkert er því til fyrirstöðu að slíkar rannsóknarnefndir séu settar á laggirnar. Ég leyfi mér að benda á 94. gr. skattalaga, sem samþ. voru í ráðherratíð hv. þm. Þar er gert ráð fyrir að slíkum rannsóknaraðilum sé hleypt á einstaklinga og fyrirtæki í þjóðfélaginu. Þar á ég við skattyfirvöld sem starfa eiga sem rannsóknarnefndir, þótt ekki sé um þingmannanefndir að ræða. Með leyfi forseta vil ég lesa upphaf 94. gr. skattalaganna um upplýsingaskyldu og eftirlitsheimildir. Það undirstrikar að hér er um rannsóknarnefndir að ræða, eins og gert er ráð fyrir í þeim till. sem liggja fyrir þinginu, þó ég tali ekki sérstaklega um þá till. sem er á dagskrá. Upphaf 94. gr. hljóðar svo: „Öllum aðilum, bæði framtalsskyldum og öðrum, er skylt að láta skattyfirvöldum í té ókeypis og í því formi sem óskað er allar nauðsynlegar upplýsingar og gögn er þau beiðast og unnt er að láta þeim í té. Skiptir ekki máli í því sambandi, hvort upplýsingarnar varða þann aðila, sem heiðnin er beint til, eða aðra aðila sem hann getur veitt upplýsingar um.“

Svo langt er gengið í rannsóknarnefndum og störfum þeirra stofnana sem Alþ. hefur þegar sett á laggirnar. Þetta eru skattalög þau, sem síðast voru samþ. — ég held ég megi segja 6. maí 1978 og eiga að taka gildi 1. jan. 1979. Einstaklingum er skylt samkv. þeim lögum að gefa upplýsingar um þriðja aðila.

Það er mesti misskilningur ef hv. þm. heldur að hér sé verið að setja á laggirnar nefnd þm. sem eigi að segja til um hvernig reka eigi fyrirtæki. Þeir skulu ekki rannsaka sjálfir, heldur mundu þessar rannsóknarnefndir, ef á laggirnar kæmust, nota, eins og fram kom hjá hv. þm. sérfræðikunnáttu þeirra manna sem færastir eru til að veita nefndunum allar þær upplýsingar sem um yrði beðið. Hér er ekki verið að tala um að rannsaka fyrirtækin vegna stærðar, heldur vegna þess að hér er um auðhringi að ræða eða óeðlileg samkeppni á sér stað, sem aðrir hafa ekki aðgang að.