13.12.1978
Efri deild: 26. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1492 í B-deild Alþingistíðinda. (978)

126. mál, Seðlabanki Íslands

Jón G. Sólnes:

Herra forseti. Ég vil strax lýsa viðurkenningu minni á þeirri jákvæðu stefnu sem kemur fram í frv. því sem hér er til umr., sem felst í því að létta vaxtabyrði höfuðatvinnuvega þjóðarinnar. Það er vissulega mál sem hefur verið mikið áhyggjuefni hjá okkur undanfarið og hefur gert allan rekstur erfiðan, að ég tali ekki um þau vandræði sem skapast hafa af því, hve fjármagnsskorturinn er geigvænlegur.

Við höfum búið við það, þessi þjóð, um margra árabil, jafnvel áratuga, að hvergi hefur verið meiri miðstýring í peningamálum en hjá okkur. Frá mínum bæjardyrum séð hafa afleiðingarnar af þessari ofstjórn á peningamálum komið fram í nokkrum atriðum, sem ég vil hér greina.

Við búum við einhvern lélegasta gjaldmiðil sem þekkist á meðal a.m.k. vestrænna þjóða, sem við kjósum að hafa náin samskipti við. Hjá okkur ríkir einhver mesta og geigvænlegasta verðbólga sem þekkist hjá sams konar þjóðum. Óstöðugleiki og órói á vinnumarkaði hefur verið hér mun meiri og geysilega mikið fjármagn og verðmæti hefur farið forgörðum vegna þess arna í framleiðslu þjóðarinnar. Við höfum orðið að sætta okkur við það, að almennt kaupgjald er hér mun lægra í almennri dagvinnu en þekkist hjá nágrannaþjóðum. Við höfum einnig orðið að búa við það að mun minni framleiðni er í mörgum grundvallaratvinnuvegum þjóðarinnar en gerist. Þá kem ég að því, sem e.t.v. er líka mjög þýðingarmikið, að það hefur verið stöðugt minnkandi almennur sparnaður í innlánsstofnunum og fjárhagskerfi þjóðarinnar.

Ég hygg að það, sem ég nú hef verið að telja, megi að meginstofni til rekja til hinnar miklu miðstýringar í peningamálum þjóðarinnar, öllum þeim miklu hömlum sem hafa verið í gildi, þannig að þarna verði ekki einstaklingar eða fyrirtæki sökuð um hvernig komið er. Það hefur oft verið bent á það af mér og öðrum, að rétt væri að reyna að losa um þetta og reyna að dreifa þessu valdi, afnema ráðin og nefndirnar, minnka vald miðstýringarkerfisins í þessum málum og reyna að gera hlut einstaklinga og fyrirtækja öllu meiri en verið hefur. Ég held að flutningur þess frv., sem hér er til umr., sé að vissu leyti viðurkenning á því sem ég hef verið að segja hér, því að nú er viðurkennt að sú staðreynd blasi við, að almennur sparnaður þjóðarinnar sé orðinn það lítill, að þrátt fyrir verulega háa bindiskyldu bankakerfisins dugi hún engan veginn til þess að seðlabanki þjóðarinnar geti veitt höfuðatvinnuvegum þjóðarinnar nauðsynleg afurðalán. Þetta er meginforsenda fyrir því, að þetta frv. er borið fram, næst því að reyna að létta hinn geigvænlega fjármagnskostnað sem hvílir á atvinnuvegunum.

En mér finnst að sagan sé ekki öll sögð með þessu. Ég held að það þurfi að gefa því mjög mikinn gaum að reyna að gera það meira aðlaðandi en hefur verið og er orðið, að almenningur auki sparnað. Það er rótgróið í eðli íslensks almennings að vilja spara fé, hann vill eiga sparifé. En það er jafnrótgróið í eðli þjóðarinnar, að menn vilja að það sé fullur trúnaður á milli þeirrar stofnunar, sem spariféð er geymt í, og þess sem á féð. Og í öðru lagi er það líka nauðsynlegt, en hefur bara ekki verið tekið nógu mikið með í reikninginn, að fólkið, sem innir af hendi sparnaðinn og þar með skapar þjóðfélaginu öllu um leið ódýrast rekstrarfjármagn, á ekki alltaf að vera snuðað af verðbólgunni. Það á að tryggja þetta fjármagn.

Ég er innilega sammála hv. 5. þm. Norðurl. v. um það sem hann tók fram í ræðu sinni, að úr því að við á annað borð ætlum að fara þá leið að veita atvinnuvegunum rekstrarfé sem sé á þann veg, að höfuðstóllinn sé gengistryggður, þá skulum við umfram allt freista þess eins og frekast er unnt að reyna að ná þessu fjármagni frá þjóðinni sjálfri, gefa íbúum landsins sjálfum tækifæri til þess að inna þetta fé af hendi og lofa þeim að ávaxta fé sitt á þennan hátt. Þess vegna kemur það fyllilega til greina, finnst mér, úr því að þessi leið er opnuð, hvort ekki væri eðlilegt að gera þessa heimild um gengistryggingu fjárskuldbindinga víðtækari og hún nái til fleiri og almennari aðila en bara til Seðlabankans. Hjá okkur hefur um árabil verið í gildi ákvæði, sem leggja bann við verðtryggingu almennra fjárskuldbindinga. Ég er ekki í nokkrum minnsta vafa um að það bann, sem búið er að vera í gildi nokkuð lengi, er ekki minnsta ástæðan til hinnar miklu og stöðugu verðbólgu í þessu þjóðfélagi. Þetta bann hefur verið geysilegur verðbólguhvati að mínu mati. Ég held að við ættum, úr því að við erum að breyta ákvæðum í lögum Seðlabankans á þann veg sem ég tel að sé mjög skynsamlegt, að taka mjög til athugunar að setjast niður og skoða hvort við ættum ekki að gera þessa breytingu almennt víðtækari en gert er ráð fyrir í 1. gr. þessa frv. En ég vil um leið taka það fram, eins og raunar var tekið fram af hv. 5. þm. Norðurl. v., að ég og hann, sem eigum setu í fjh.- og viðskn. þessarar d., munum ekki tefja fyrir framgangi þessa frv. Ég vildi einungis skjóta þessu fram, að ég tel að það væri ekki óeðlilegt að þetta yrði tekið til nákvæmrar yfirvegunar.

Út af einu atriði, sem kom fram í ræðu hæstv. viðskrh. þegar hann mælti fyrir frv., þar sem hann ræddi um að í ráði væri að afnema með öllu þá skyldu bankanna að lána Framkvæmdastofnun ríkisins 5% af innlánaaukningu eins og verið hefur, vil ég segja það, að þar sem sú stofnun fær þetta fé til umráða og hefur það að höfuðhlutverki að fjármagna ýmsa lánasjóði og þá sérstaklega stofnlánasjóði sem ætlað er að standa undir framkvæmdum í hinum dreifðu byggðum landsins, þá held ég að við verðum að skoða það mjög alvarlega hvort stefnt er í rétta átt ef minnkaður væri eða strikaður algerlega út þessi möguleiki. Ég held að sú ráðstöfun gæti komið mjög illa við hinar strjálu byggðir og byggðarlög sem hafa notið þeirra hlunninda að fá fjármagn á þennan hátt. Mér er kunnugt um að það hefur orðið í mörgum tilfellum mjög mikil lyftistöng og kannske riðið baggamuninn í sumum tilfellum um vöxt og viðgang margra sjávarþorpa úti í dreifbýlinu. Á þetta vildi ég benda og vildi gjarnan að það mál yrði skoðað betur áður en slík ákvörðun yrði tekin. Að öðru leyti mun ég skýra frekar afstöðu mína til þessa máls í þeirri n. sem fær málið til meðferðar og ég á sæti í.