13.12.1978
Efri deild: 26. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1494 í B-deild Alþingistíðinda. (979)

126. mál, Seðlabanki Íslands

Viðskrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Í máli hv. 5. þm. Norðurl. v., Eyjólfs Konráðs Jónssonar, var sérstaklega vikið að því atriði sem hér er nefnt í sambandi við hið svokallaða erlenda mótvægi á móti þessum gengistryggðu lánum. Ég vil í þessum efnum vísa til þess sem ég sagði í framsöguræðu minni. Einnig vil ég fara fram á það við hv. fjh.- og viðskn., að hún ræði þessi mál mjög vandlega við þá sérfræðinga og forráðamenn Seðlabankans sem væntanlega verða kvaddir til fundar við n. En í þriðja lagi vil ég vísa til setninga í grg. með frv., sem eru á þessa leið:

„Slíkt mótvægi til endurlána er mjög breytilegt frá einum tíma til annars og fer m.a. mjög eftir gjaldeyrisstöðu og því, að hvaða marki hann endurlánar erlent fé til annarra aðila. Gera má ráð fyrir, að óráðstafað erlent mótvægi verði ekki ætíð nægilegt frá hankanum til þess að standa á móti ráðgerðum lánum.“

Til þessara setninga vil ég vísa í þessum efnum. Ég vil einnig segja það og játa það, að ein ástæðan til þess, að þetta frv. kemur að sumu leyti seint fram hér af minni hálfu, er sú, að ég var mjög áhyggjufullur út af þessu máli og taldi að hugsanlegt væri að hér væri verið að leggja út á varasama braut. Ég tel að það sé alveg nauðsynlegt, að sá vilji löggjafans liggi fyrir, að með þessu skrefi eigi ekki að auka erlendar lánsskuldbindingar landsmanna. Ég tel að það sé alveg nauðsynlegt að þetta þýði ekki sjálfvirkar erlendar lántökur, heldur verði þær eftir sem áður að lúta þeim lögmálum sem um er að ræða í íslensku efnahagslífi og sett kunna að verða á hverjum tíma. Ég er þeirrar skoðunar, að okkar erlendu lántökur séu ákaflega alvarlegt mál, í fyrsta lagi vegna þess, sem oft hefur verið nefnt, að þær geta stefnt efnahagslegu sjálfstæði okkar í hættu, en í öðru lagi líka vegna þess, að erlend lánsfjárinnspýting þýðir vitaskuld ekkert annað en aukna verðbólgu og verður þáttur í því að auka peningamagn í umferð og gera málin þar af leiðandi erfiðari viðfangs en ella væri.

Ég vil einnig varðandi ummæli hv. 5. þm. Norðurl. v. láta það koma fram, að hafi ég tekið svo til orða, að áður hafi sjávarútveginum verið bætt afkoma um 2% með öðrum ráðstöfunum en hér er um að ræða, þá hefur það verið mismæli af minni hálfu. Það, sem ég vildi sagt hafa, er þetta: Með sérstökum ráðstöfunum varðandi niðurfellingu tolla og fleiri gjalda í sambandi við sjávarútveginn átti að bæta afkomu hans um sem svarar 0.5%. Síðan er þessi ráðstöfun. Hún á að bæta afkomu hans um 2%.

Það er rétt sem hv. þm. Ágúst Einarsson spurði um áðan: Auðvitað er gert ráð fyrir því, að með því að gengistengja afurðalánin falli myndun gengismunarsjóðs úr sögunni í raun og veru. Gert er ráð fyrir að birgðir til útflytjenda verði afreiknaðar á dagsgengi, hvert sem það er á hverjum tíma, jafnvel þó að gengisfelling eigi sér stað, enda er, eins og ég sagði í framsöguræðu minni áðan, vandséð hvernig hægt væri að koma málum öðruvísi fyrir.

Hv. þm. lagði á það áherslu, að þetta yrði að hafa í för með sér raunverulega lækkun vaxta. Raunveruleg lækkun vaxta verður þetta auðvitað því aðeins að okkur takist að hafa mjög traustan hemil á verðbólgunni. Ef við getum það ekki höfum við ekki hemil á gengisþróuninni. Hins vegar telja forráðamenn í sjávarútvegi, eins og hv. þm. Ágúst Einarssyni er ábyggilega mjög vel kunnugt, að þessi breyting, jafnvel þó að um sé að ræða þessa gengis- og verðbólguáhættu sem menn óhjákvæmilega taka, sé veruleg bót frá því sem nú er, vegna þess að menn fái birgðirnar á hverjum tíma reiknaðar á því gengi sem skráð er á söludegi.

Hv. þm. Ágúst Einarsson, 1. landsk. þm., spurði að því, hvort á döfinni væri að hækka afurðalán til sjávarútvegsins. Það hefur ekki verið rætt sérstaklega. Þm. benti réttilega á að svigrúm viðskiptabankanna í því skyni er ákaflega takmarkað nema um leið séu gerðar einhverjar sérstakar ráðstafanir. Ég nefndi þann möguleika áðan, að dregið yrði úr framlögum viðskiptahankanna til Framkvæmdasjóðs, sem ég hygg að væri óhjákvæmilegt. Þau framlög fara ekki þá leið sem ég var að ræða um áðan. Það er hins vegar alveg laukrétt hjá hv. 2. þm. Norðurl. e., Jóni Sólnes, að með fjármuni Framkvæmdasjóðs verður að fara með varúð, og það verður auðvitað að tryggja að hann geti staðið við skuldbindingar sínar og nauðsynleg verkefni í atvinnuvegum okkar á næsta ári. En það er alveg augljóst mál, að þar verður þröngt fyrir dyrum, m.a. vegna þess að ríkisstj. hefur áhuga á því að reyna að draga úr aukningu erlendra skulda og hún hefur áhuga á því að reyna að draga úr aukningu peningamagns í umferð, sem hefur verið stór þáttur í verðþenslu og verðbólgu undanfarinna ára.

Að lokum, vegna þess að hv. 2. þm. Norðurl. e. nefndi sparnaðinn áðan og hv. 5. þm. Norðurl. v. sagði að bankakerfið hjá okkur væri hrunið, þá langar mig aðeins til þess að segja það sem mína skoðun, að ég tel að íslenska bankakerfið eigi við mjög alvarlega erfiðleika að stríða. Hér í þjóðfélaginu mjög viða er um að ræða stórfellda lánsfjárkreppu, sem við, sem gegnum ráðherrastörfum, verðum varir við á hverjum einasta degi. Þetta stafar þó ekki fyrst og fremst af því, að fólkið í landinu sé hætt að leggja inn peninga og spara. Það er fróðlegt fyrir okkur alla að fletta t.d. upp í desemberhefti af Hagtölum mánaðarins, sem ég hafði fyrir tilviljun á borðinu hjá mér áðan. Þar kemur í ljós, að innstæðufé í okt. s.l. er 125.6 milljarðar kr., en var í okt. í fyrra 86.9 milljarðar kr. Aukningin er 38.7 milljarðar kr. Vitanlega eru þetta ekki sambærilegar krónur og hægt að leiða að því ýmis rök. En vegna þeirra breytinga, sem átt hafa sér stað, hefur þrengt að bankakerfinu. Ég hygg hins vegar að það stafi ekki fyrst og fremst af því að vöxtum hafi verið haldið niðri, heldur held ég að þetta stafi fyrst og fremst af því að samkeppnin um sparifé landsmanna er vitaskuld miklu harðari nú en hún hefur áður verið. Þessi þróun, sem hér er um að ræða í sparifé, er nákvæmlega sú sama og á sér stað t.d. í grannríkjum okkar. Nýlega kannaði ég tölur um þetta frá Noregi, þar sem það kom í ljós að frá árinu 1970 til ársins 1977 hafði sparifé í bankakerfi alls landsins minnkað um helming miðað við fastar þjóðhagsstærðir á sama tíma. Þetta er auðvitað útskýrt með því, að samkeppnin um spariféð, eyðslumöguleikarnir, eru vitaskuld vaxandi og miklu meiri en áður hafa verið.

Ég þakka svo hv. þm. fyrir góðar undirtektir við þetta frv. Ég mun fara þess á leit við viðskrn., að á fundi hv. fjh.- og viðskn. í fyrramálið liggi fyrir öll þau gögn sem nauðsynlegt er að menn hafi í höndunum í þessum efnum. Þar er aðallega um að ræða tvær skýrslur frá Seðlabankanum ásamt töflum af ýmsu tagi, sem ég hygg að sé eðlilegra að menn hafi í höndunum og heppilegra og skýrara en menn fari einungis að miða við ræðu mína sem ég flutti áðan, sem var samtíningur upp úr skýrslum frekar en þar væri um að ræða þá heildarmynd sem nauðsynlegt er að hv. fjh.- og viðskn. hafi þegar hún afgreiðir jafnmikilvægt mál og þetta.

Ég vil segja það að síðustu, að ég vona að þó að þetta skref sé stigið, sem hér er um að ræða, þá verði það ekki inn á þá braut sem hv. 2. þm. Norðurl. e. nefndi hér áðan, sem sé þá braut að tengja Íslendinga fastari böndum en verið hefur við alþjóðlega fjármagnsmarkaði. Til þess er þetta skref ekki stigið af hálfu núv. ríkisstj.