13.12.1978
Efri deild: 26. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1501 í B-deild Alþingistíðinda. (984)

133. mál, vörugjald

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs til þess eins að taka undir málflutning hv. 3. þm. Austurl. um það mál sem hér er á dagskrá. Mér þóttu mjög tímabær varnaðarorð hans sem fram komu í þessu sambandi og voru raunar það sem ég hugleiddi er hæstv. fjmrh. flutti ræðu sína. Ég skil vel þá stefnu hæstv. fjmrh. — og hann er ekki einn um þá skoðun — að það beri sem mest að vinna gegn hinum mörkuðu tekjustofnum. Sú var stefnan einnig í síðustu ríkisstj. Það er í sjálfu sér skiljanlegt. En hitt er annað mál, og það höfum við séð á öðrum sviðum, að þegar úr lögum hafa verið numdir markaðir tekjustofnar hefur tilhneigingin einmitt verið sú, sem hv. 3. þm. Austurl. benti á, að hætt er við að sá málaflokkur, sem átti að sinna með hinum markaða tekjustofni, fái ekki eins góðan stuðning og meðan lögin giltu um hinn markaða tekjustofn.

Ég vil, að því er varðar þann hóp manna sem í hlut á sérstaklega í þessu máli, sérstaklega undirstrika þá þörf sem hv. síðasti ræðumaður benti á og er á því, að betur verði búið að Kópavogshæli. Þaðan hafa ekki borist háværar kröfur, en þar er full þörf á að betur verði sinnt aðbúnaði vistmanna. Þar hafa vissulega verið gerðar mjög miklar og góðar endurbætur á vissum deildum á síðustu árum, en þar þarf enn betur að gera að því er varðar aðra hópa vistmanna. Og því stóð ég hér upp, að ég vil sérstaklega vekja athygli á tvennu í þessu sambandi. Annað er það, að þeim aðilum, sem nú sinna málefnum vangefinna, verði gert betur kleift en nú er að leiðbeina og aðstoða þá foreldra, sem hafa sína vangefnu einstaklinga í heimahúsum. Ég leyfði mér að vekja athygli á því og flytja um það þáltill. fyrir nokkrum árum, að ríkisvaldið hefði forgöngu um að sérstök aðstoð væri veitt slíku fólki. Þarna er um hóp manna að ræða, sem vill sinna og hjúkra heima þeim einstaklingum sem í hlut eiga, hinum vangefnu einstaklingum, vangefnu börnum, eins og manni hættir til að kalla þau þó að þau séu e.t.v. orðin jafngömul að árum og við mörg hinna. En þeir foreldrar, sem hafa slíka einstaklinga í heimahúsum, eru að því leyti til öðruvísi settir en margir aðrir í þjóðfélaginu, að þeir geta aldrei tekið sér frí, þeir geta aldrei farið frá og notið þeirrar hvíldar sem hverjum manni er nauðsynleg. Það er ekki einfalt mál að kalla í barnfóstru eða einhvern sem tiltækur er til að sitja hjá einstaklingi sem illa er settur á þessu sviði. Sumum vangefnum einstaklingum kann að vera svo farið, að þeir þurfa aðhlynningu fólks sem bæði kann sérstaklega að umgangast viðkomandi og er í sérstökum tengslum við hann. Ég er þess fullviss, að það skortir enn nokkuð á að komið sé til móts við þá foreldra, sem ekki hafa viljað vista sín vangefnu börn á stofnunum, vegna þess að þeir geta í sjálfu sér annast þau heima, sinna e.t.v. þeirra tilfinningalegu þörfum best með því móti. En það getur að því rekið, að margir þessara foreldra hreinlega brotni vegna skorts á aðstoð annars staðar frá, og það er illa farið þegar svo stendur á sem hér um ræðir. Þeir foreldrar, sem þetta gera, gera bæði þjóðfélaginu gagn, ef ég má orða það svo, með því að létta á þeirri byrði sem annars mundi hvíla á stofnunum, um leið og þeir sinna eðlilegu og nauðsynlegu hlutverki. En vitanlega er það ekki nærri alltaf sem högum er svo háttað að þessi lausn sé fær.

Hitt atriðið, sem ég vildi sérstaklega minna á að þurfi enn frekar að sinna en nú er, er sá hópur vangefinna, sem er með ýmsu öðru móti um leið svo illa settur, sem er svo fjölfatlaður, eins og það er kallað nú, að hann á ekki heima á neinni tiltekinni sérhæfðri stofnun. Það hafa því miður verið þess dæmi, að fólk hefur lent jafnvel utan við kerfið hjá okkur af þeim sökum, að erfitt hefur verið að flokka viðkomandi einstakling í einhvern ákveðinn hóp, sem passaði inn í sérhæfða stofnun. Hjúkrunarpláss fyrir slíka einstaklinga þurfa að vera til fleiri en nú er, þannig að allir einstaklingar geti fengið þá umönnun sem þeir þurfa þótt illa séu settir.

Ég hafði, herra forseti, ekki ætlað að fara neitt nákvæmlega út í þessi mál, en mér fannst tilvalið tækifæri að minna á að þessum tveimur hópum, sem ég sérstaklega nefndi, er þörf á að sinna enn betur. Auk þess vil ég taka undir ábendingar hv. 3. þm. Austurl. Það er ekki á hverjum degi sem maður getur svo heils hugar tekið undir ábendingar hv. þm. úr þeim flokki.