13.12.1978
Neðri deild: 30. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1518 í B-deild Alþingistíðinda. (992)

99. mál, söluskattur

Frsm. (Kjartan Ólafsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. fjh.- og viðskn. þessarar hv. d. Málið, sem um ræðir, er flutt af hv. 1. þm. Vestf., Matthíasi Bjarnasyni, og lýtur að breytingu á lögum nr. 10 frá 22. mars 1960, um söluskatt. Efni frv, er að undanþiggja greiðslu á söluskatti vinnslu og sölu á rekavið. N. hefur orðið sammála um að mæla með samþykkt frv. og hefur skilað nál. í samræmi við það. Þeir, sem undirrita nál., eru auk mín nm. Lúðvík Jósepsson, Halldór E. Sigurðsson, Ólafur G. Einarsson og Vilmundur Gylfason, en fjarstaddir afgreiðslu málsins voru Matthías Á. Mathiesen og Finnur Torfi Stefánsson.

Það er rétt að minna á það, sem reyndar kom fram í framsöguræðu hv. 1. þm. Vestf., Matthíasar Bjarnasonar, við 1. umr. þessa máls, að forsaga þess er sú, að í nær 30 ár eftir að lög voru sett um söluskatt var aldrei lagður söluskattur á starfsemi þeirra örfáu manna sem fást við að nytja þau landsgæði sem hér um ræðir. Það var fyrst árið 1975 að hafist var handa af skattyfirvöldum í a.m.k. einu skattumdæmi á landinu um að leggja söluskatt á þessa starfsemi og á þá aðila sem þessi landsgæði höfðu nytjað. Hins vegar var þá lagt á menn í allmörg ár aftur í tímann — það munu hafa verið 5 ár — og kom slíkt viðkomandi aðilum mjög í opna skjöldu þar sem þeir höfðu staðið í þeirri trú, að á þeim hvíldi engin greiðslukvöð í þessum efnum þá frekar en áður. Það er ekki deilt um það út af fyrir sig, að miðað við núgildandi lög stendur réttur ríkisvaldsins til þess að leggja á söluskatt í þeim tilvikum sem hér um ræðir. En einmitt vegna þess að svo er hefur verið lagt til að lögunum væri breytt og n. að athuguðu máli komist að þeirri niðurstöðu að mæla með því.

Það er rétt að minna á það einnig, að í frv. er ákvæði til bráðabirgða, þar sem segir á þessa leið með leyfi forseta: „Fjmrh. er heimilt að endurgreiða álagðan söluskatt árin 1975 til 1978 að báðum árum meðtöldum á unninn rekavið til eigenda eða rétthafa rekans ef hann færir sönnur á að kaupandi hafi ekki greitt söluskatt.“

Þetta er ákvæði til bráðabirgða eins og það er í frv. Það þarf vart að taka það fram, að þeir menn, sem þessa starfsemi hafa stundað, en þeir eru mjög fáir, höfðu ekki reiknað með því, að þeir væru skyldir að greiða söluskatt af þessari starfsemi, og hafa þar af leiðandi að sjálfsögðu á undanförnum árum ekki hækkað verð á þessari framleiðsluvöru til kaupenda með tilliti til söluskattsgreiðslu. Ef þeir fá ekki leiðréttingu sinna mála, þá verða þeir að greiða þessa upphæð úr eigin vasa, en ekki að það sé kaupandinn sem það gerir.

Ég vil einnig minna á það, að það er því miður allt of lítið um að þau landsgæði, sem hér um ræðir, séu nytjuð svo sem vert væri. Það kemur m.a. til af því, að víða á þeim landssvæðum, þar sem reki er hvað mestur, er byggð orðin mjög grisjuð og jafnvel aleydd. Dæmi eru um það, að bændur, sem fluttir eru burt af jörðum sínum og hafa þar ekki lengur ársdvöl nytji þessi litlu hlunnindi viðkomandi jarða þó að nokkru með því að dveljast á þeim bújörðum, þar sem þeir áður bjuggu, að sumarlagi. Það er ósköp hætt við því, að ef ríkisvaldið héldi því til streitu að fara að eltast við þær litlu tekjur sem þeir þannig geta skapað sér, leiddi það til þess, að þessi starfsemi félli þá jafnvel algerlega niður. Þá væri það ekki aðeins að viðkomandi jarðir, sem sumar eru þær einu í heilum sveitarfélögum þar sem um einhverja mannvist er að ræða hluta úr ári, væru mannlausar að vetrinum, heldur einnig að sumarlagi.

Ég vil svo, herra forseti, að lokum taka undir það, sem segir í grg. flm, með frv., að mjög eðlilegt virðist að líta á þessa starfsemi sem hliðstæða við sölu heyja sem á sér stað í ýmsum tilvikum og fyrir liggur að ekki er söluskattsskyld, og þar sýnist fyrir hendi viðbótarrökstuðningur fyrir því, að þetta frv. verði samþ. og þessi starfsemi, sem um ræðir í frv., undanþegin greiðslu á söluskatti.