16.10.1979
Neðri deild: 2. fundur, 101. löggjafarþing.
Sjá dálk 17 í B-deild Alþingistíðinda. (33)

Umræður um þingsköp

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Þótt ég mótmælti því hér í gær, að leitað yrði afbrigða frá þingsköpum, og vildi ekki sætta mig við þá aðferð, þá er hæstv. forseta þó leyfilegt að leita slíkra afbrigða. En hann getur ekki farið fram hjá þingsköpum sjálfum án þess að fá leyfi hv. deildar til, og í 7. gr. þingskapa er alveg skýrt kveðið á um hvað skuli taka við eftir að þd. setjast niður. Ef hann vill hafa þann hátt á að hliðra sér hjá, að hlutað verði um sæti, sem ég mótmæli eindregið, þá er óhjákvæmilegt að hann biðji um þessi afbrigði og getur þá farið eftir þeim ef þau verða veitt. En auðvitað er þetta engin hemja. Ég tók eftir því og heyrði á það, að hér reyndist hæstv. fyrrv. dómsmrh. strax vera á hrakhólum með sæti og gerði tilraun til að setjast í sitt gamla sæti, en var hrakinn þaðan brott. Fyrir því ber nauðsyn til að hann fái fast sæti og virðulegt og fái að draga um það sjálfur hér í upphafi þingfundar.

Nú kunna menn að segja sem svo, að það vinnist ekki tími til að kjósa í fastanefndir þingsins eða deildarinnar vegna þess að menn fari að þingsköpum. Það verður ekki fram hjá því farið samt að fara að þeim. En þá vil ég benda hæstv. forseta á það, að hann getur sem best frestað fundi ef útvarpsumr. verða hafnar áður en til þess dregur og kosningu þeirra nefnda sem út af standa þá. Þær fá þá einhverja færri klukkutíma til umráða til starfa, það munar ekki meiru. En ég held fast við þetta og við skulum hefja þegar í stað dráttinn hér úr kassa vorum og hluta um sæti.