16.10.1979
Sameinað þing: 3. fundur, 101. löggjafarþing.
Sjá dálk 43 í B-deild Alþingistíðinda. (49)

Tilkynning frá ríkisstjórninni og umræða um hana

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Góðir tilheyrendur. Undanfarna daga hafa landsmenn orðið vitni að merkilegri leiksýningu. Hér hefur verið settur upp pólitískur leikþáttur undir stjórn Geirs Hallgrímssonar, formanns Sjálfstfl. Hann stýrir brúðunum á sviðinu. Brúðurnar eru sex þm. Alþfl., þrír þeirra nýir í ráðherrastólum, þeir þrír þm. Alþfl. sem harðast börðust gegn fráfarandi ríkisstj. Það er táknrænt og sláandi að einmitt þessir menn skyldu hafa valist til þess að gegna ráðherrastörfum í leikbrúðustjórn Geirs Hallgrímssonar, en þetta eru sömu mennirnir og fluttu á Alþ. s.l. vetur hinar undarlegustu till. gegn fráfarandi ríkisstj., m.a. vantrauststill., og einn þeirra var svo illa haldinn af því að vera bendlaður við þá ríkisstj. að hann undi ekki nema fáeina daga í forsetastóli í Ed. Alþingis, eins og frægt varð.

Landsmenn munu hins vegar ekki láta þessa leikbrúðustjórn villa sér sýn, vegna þess að hér er komin á laggirnar í raun pólitísk samstjórn Sjálfstfl. og Alþfl. Hér er komin stjórn sem hefur það hlutverk að koma á kosningum svo að íhaldið geti bætt við sig, þannig að unnt verði eftir kosningar að mynda enn afdráttarlausari íhaldsstjórn en hefur nokkru sinni setið í landinu. Slík er fórnarlund þm. Alþfl. að þeir hika ekki við að varpa pólitísku lífi sinu á altari íhaldsaflanna í landinu. Eru vonandi engin dæmi þess að flokkur hafi komið fram af annarri eins lágkúru og Alþfl. hefur gert undanfarna daga. Þessari stjórnarmyndun fylgja hins vegar þeir ótvíræðu kostir, að mínu mati, að nú gefst alþjóð þegar möguleiki á því að kjósa gegn þessari ríkisstj. íhaldsins eftir aðeins nokkrar vikur. Alþb. er reiðubúið í þann kosningaslag og mun freista þess að skapa gegn íhaldinu sterkt einingarafl.

Við þekkjum ákaflega vel af reynslunni hvernig stefna íhaldsins birtist í framkvæmd. Við munum það frá svokölluðum viðreisnarárum þegar sjötti til sjöundi hver félagsmaður alþýðusamtakanna gekk atvinnulaus, þegar þúsundir landsmanna voru landflótta, þegar kaupmáttur launa var um 30% rýrari en hann er nú. Nú ætla hins vegar íhaldsöflin í landinu að taka enn stærri skára fyrir en áður. Í skjóli baráttunnar gegn verðbólgu er ætlunin nú að grípa til harðvítugri afturhaldsaðgerða en nokkru sinni fyrr.

Það var athyglisvert að Geir Hallgrímsson minntist ekki einu orði, að heita mátti, á stefnu Sjálfstfl. í þeirri ræðu sem hann flutti áðan. Stefna Sjálfstfl. hefur hins vegar verið birt. Hún kemur fram í plaggi sem kallað er „Endurreisn í anda frjálshyggju“ og birtist á s.l. vetri. Þar kemur fram að ætlunin er að færa tekjuskiptinguna í þjóðfélaginu aftur niður á stig viðreisnaráranna, og þar er lögð áhersla á ýmis mjög alvarleg meginatriði sem við skulum nú þegar hafa í huga í upphafi kosningabaráttunnar.

Í fyrsta lagi er ætlunin samkv. þessari stefnu Sjálfstfl. að fyrirtæki eigi að fá að leggja fé í skattfrjálsa varasjóði og að þeim verði færðir aftur þeir fjármunir, sem fráfarandi ríkisstj. hirti af fyrirtækjunum, upp á 10–15 milljarða kr. á ári.

Í öðru lagi er það ætlun Sjálfstfl. að breyta vinnulöggjöfinni og setja verkalýðshreyfingunni þrengri skorður við starfsemi hennar, jafnvel í sjálfa stjórnarskrá landsins.

Í þriðja lagi er það ætlun Sjálfstfl. að heimila fyrirtækjum takmarkalausar erlendar lántökur.

Í fjórða lagi kom það fram í stefnuyfirlýsingu Sjálfstfl. s.l. vetur, að öll verðlagning í landinu, af hvaða tagi sem hún er, eigi að vera eftirlitslaus og vextir eigi að ráðast af eftirspurn eftir lánsfé.

Í fimmta lagi kemur fram í stefnuyfirlýsingu Sjálfstfl. að óbeinir skattar og niðurgreiðslur eigi að hverfa út úr vísitölu.

Þessi stefna er einhver afdráttarlausasta afturhaldsstefna sem heyrst hefur á Íslandi um margra áratuga skeið, og hún er stríðsyfirlýsing gegn verkalýðshreyfingunni í landinu. Baráttan gegn þessari stefnu mun ekki aðeins snúast um kaupið sjálft í þrengstu merkingu, heldur um lífskjörin í heild — þau kjör sem við til þessa höfum talið sjálfsögð lífskjör og birtast okkur í heilbrigðisþjónustunni, menntakerfinu og hvers konar annarri félagslegri þjónustu.

Einn af forvígismönnum Sjálfstfl. rökstuddi þessa stefnu s.l. vetur með því að hér væri ekki lengur framfaraþörf á félagslegum vettvangi, að almennum heilbrigðismálum væri hér þegar skipað á hinn fullkomnasta hátt, eins og hann orðaði það, og við hefðum hér í landinu eitt háþróaðasta tryggingakerfi sem þekkist. Menntakerfi þjóðarinnar er mjög háþróað, sagði þessi forvígismaður Sjálfstfl. orðrétt, og enn fremur: listir og bókmenntir standa hjá okkur með blóma. Hér á Íslandi er um að ræða fullkomnasta réttaröryggi og persónufrelsi og það er fortakslaust tryggt, segir þessi leiðtogi Sjálfstfl.

Á þessum sviðum er m.ö.o. komið hið alfullkomna þjóðfélag á Íslandi og það er engin þörf á að lagfæra eða bæta þar við. En raunar er rökstuðningur þessa þm., sem ég vitnaði til hér áðan, settur fram með þessum hætti fyrst og fremst til þess að undirbyggja það að unnt sé að skera niður þá félagslegu þjónustu sem í áðurnefndum þáttum samfélagsins kemur fram. Hér er það boðað, sem Margaret Thatcher — járnfrúin — er að koma í framkvæmd í Bretlandi, að skera niður alla þessa þjónustu miskunnarlaust, hvers konar samneyslu af hvaða tagi sem hún er. Það er sem sagt ætlun Sjálfstfl. að ráðast gegn lífskjörum landsmanna í heild.

Jafnhliða þeirri alhliða árás á lífskjörin í landinu, sem ég hef hér lýst, er það ætlun Sjálfstfl. að taka upp sömu stefnu og fylgt var á viðreisnarárunum að því er varðar atvinnumál og efnahagsmál í heild. Sú stefna birtist á viðreisnarárunum með því að atvinnuvegir landsmanna sjálfra voru látnir grotna niður. Í stað þess að byggja upp innlenda atvinnuvegi kaus íhaldið á þeim árum að efla mjög erlenda stóriðju. Það er athyglisvert að einmitt nú, þessa sömu daga og íhaldsstjórn er að taka við, færast þeir menn í aukana sem boða stórfellda erlenda stóriðju hér í landinu, eins og Friðrik Sophusson gerði hér áðan. Það eru sömu mennirnir og ráðast gegn hvers konar framförum í íslenskum atvinnuvegum og hafa allan tímann frá því að fráfarandi ríkisstj. var mynduð sumarið 1978 barist gegn tilraunum okkar til þess að knýja þar fram framfarastefnu sem gæti skilað landsmönnum betri lífskjörum en verið hafa. Það er einnig ákaflega skýrt dæmi um það hvaða öfl eru hér á ferðinni, að sama daginn og ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar baðst lausnar lagði núv. hæstv. forsrh. fram á Alþ. skýrslu sem gerir ráð fyrir því að Bandaríkjamenn verði látnir kosta hér tilteknar framkvæmdir í samgöngumálum upp á marga milljarða ísl. kr. Hér er m.ö.o. komin „aronskan“ holdi klædd — „aronskan“ sem allir flokkar hafa til þessa þóst vilja sverja af sér, einnig Sjálfstfl. Yfirlýsing hæstv. forsrh., Benedikts Gröndals, um „aronskuna“ er eins konar fæðingarvottorð þeirrar nýju ríkisstj. sem hann hefur nú komið til valda á Íslandi fyrir sjálfstfl.

Íhaldsöflin, sem nú hafa komið mönnum fyrir í Stjórnarráðinu, hafa haft í frammi ærandi söng um verðbólgu og efnahagsvanda undanfarna mánuði. Ég tel að baráttan gegn verðbólgunni sé, ásamt baráttu fyrir bættum kaupmætti launa og fullri atvinnu, forgangsmál. En raunasöngurinn má ekki verða til þess að við gleymum hinum fjölmörgu jákvæðu þáttum í efnahagsmálum okkar. Ég nefni t.d. að gjaldeyrisstaðan var í júlílok jákvæð um 86 millj. Bandaríkjadala, en var neikvæð um 15.2 millj. Bandaríkjadala í lok júlímánaðar 1978. Batinn í gjaldeyrisstöðunni var því á eina valdaári fráfarandi ríkisstj. um 38 milljarðar ísl. kr. Ég vil einnig geta þess hér, að sparifé hefur á þessum sama tíma aukist um 58.6% á sama tíma og vísitala framfærslukostnaðar hækkar um 42%. Á sama tíma hefur taxtakaup verkamanna einnig hækkað um 42%.

Hér er hins vegar komin á laggirnar hægri stjórn, og það er ljóst að það er hætta til hægri. Og það er sókn íhaldsins sem við Alþb.-menn ætlum að freista að stöðva. Auðvitað hlýtur þessi hægri stjórn að stjórna í þágu umbjóðenda sinna. Hún mun efna til miskunnarlausra stéttaátaka til þess að knýja fram stóraukinn hlut auðstéttanna. Við viljum koma í veg fyrir þetta, og það verður því aðeins gert að við stöndum saman, verkalýðshreyfingin og flokkur launafólks, Alþb. Það er ljóst að þessi nýja ríkisstj. auðstéttanna mun ná markmiðum sínum, mun ná árangri ef við erum sundraðir og göngum margskiptir til baráttu á móti hinum sameinuðum.

Sameinað er nú íhaldið og Vinnuveitendasamband Íslands, og Alþfl. er komin í þær tröllahendur, að undanskildum fáeinum mönnum í forustuliði verkalýðshreyfingarinnar sem harma og fordæma það hlutskipti sem Alþfl.-forustan hefur kosið sér. Við vitum af reynslunni að Framsfl. megnar ekkert í baráttunni gegn íhaldinu. Það þekkjum við frá fjórum árum ríkisstjórnar Geirs Hallgrímssonar. G egn þessum öflum sameinuðum stendur nú verkalýðshreyfingin og flokkur hennar. Við þurfum að skapa sameinað afl gegn íhaldi, við þurfum að reisa eins sterkan varnarmúr og við verður komið til þess að stöðva sókn afturhaldsaflanna. Eina leiðin til þess að sporna gegn þeirri hættu, sem blasir við, er að Alþb. komi sterkara út úr þeim kosningum, sem fram undan eru, en nokkru sinni fyrr. Við munum leggja á það áherslu að halda hlut okkar í þessum kosningum frá hinum glæsilega kosningasigri Alþb. 1978. Við munum leggja á það áherslu að byggja múr ásamt verkalýðshreyfingunni gegn því valdaráni afturhaldsins sem nú er sviðsett af Alþfl.

Ég vil sérstaklega minna á kjördæmamálið. Þrátt fyrir loforð á síðasta kjörtímabili sem allir flokkar gáfu, þ. á m. Alþfl. og Sjálfstfl., um breytingar á kjördæmaskipuninni láta þessir flokkar sig ekki muna um að hlaupa gersamlega frá þeim loforðum. Kjósendur þessara flokka hafa verið sviknir með ákaflega grófum hætti í þeim efnum og við þurfum að láta það koma fram í kosningunum að við gagnrýnum og mótmælum slíku framferði þessara flokka.

Góðir hlustendur. Líf þessarar þjóðar er sífelld barátta fyrir sjálfstæði — fyrir þjóðfrelsi andspænis risaöflum heimsins sem seilast hér til áhrifa og hafa nú fengið handlangara sína í valdastóla. Það er vissulega ömurlegt hlutskipti sem sigurvegarar Alþfl. í síðustu kosningum hafa kosið sér. Þeir hafa leitt fjármagnið til vegs og valda og því snýst baráttan nú um manngildið gegn peningagildinu. Enginn vinstri maður, enginn verkalýðssinni vill bera ábyrgð á því að leiða íhaldsöflin til vegs í landinu. Enginn vinstri maður né verkalýðssinni vill bera ábyrgð á „aronskunni“ sem nú er við sjónarrönd. Enginn sósíalisti mun liggja á liði sínu í baráttunni gegn erlendri stóriðju. Enginn launamaður má liggja á liði sinu í baráttunni gegn myrkraöflunum í landinu. Eða hver vil l bera ábyrgð á hatrömmustu afturhaldsstjórn í sögu lýðveldisins, en það er einmitt slík stjórn sem nú er í uppsiglingu?

Ég skora á launamenn að sameinast nú um einingarafl gegn íhaldinu í landinu.