16.10.1979
Sameinað þing: 3. fundur, 101. löggjafarþing.
Sjá dálk 55 í B-deild Alþingistíðinda. (53)

Tilkynning frá ríkisstjórninni og umræða um hana

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Í sögu þjóða geta gerst atburðir sem á svipstundu svipta burt blekkingavef áróðursmeistara, — atburðir sem eru sjálfir svo táknrænir að athöfnin ein segir alla söguna. Einn slíkur hefur gerst hér á Alþingi. Nú sitja í ráðherrastólum þeir menn sem í síðustu kosningum sögðust ætla að uppræta spillingu, berjast fyrir réttlæti og jöfnuði. Riddararnir, sem blésu í lúðra gegn rotnuðu kerfi, eru í dag dekurdúkkur í leppstjórn íhaldsins. Nú sést hinn hreinræktaði hægri kjarni í þriggja ára áróðursblekkingum Alþfl. Hinn nýi flokkur er þá eftir allt saman bara gamla viðreisnarhækjan.

Þótt brotthlaup Alþfl. úr vinstri stjórn bæri að með skjótum hætti var aðdragandinn langur. Þess ber að minnast að Sighvatur Björgvinsson og Vilmundur Gylfason greiddu í fyrra atkvæði gegn þátttöku Alþfl. í vinstri stjórn og Bragi Sigurjónsson neitaði að gegna forsetastörfum í þágu hennar. Valið á nýju ráðh. Alþfl. er því táknrænt fyrir bæði fortíð og framtíð. Verðbólguhjal þeirra hér í dag er aðeins ómerkileg afsökun manna sem ætið ætluðu sér að stjórna með íhaldinu. Þegar raunvaxtastefnan hefur bara orðið búbót fyrir braskarana, sem nú þessar víkurnar eru að kaupa íbúðirnar af unga fólkinu sem hávaxtastefna Alþfl. er að sliga, hleypur Alþfl. burt til að breiða yfir vitleysurnar í efnahagsfrv. sínu frá fyrri mánuðum þessa árs. Og það er svo ómerkilegt grín að Vilmundur Gylfason talar hér um baráttu gegn gamla valdakerfinu, — nýsestur í gamla ráðherrastólinn hans pabba síns!

Nei, staðreyndin er sú, að þeir Aragötufeðgar hafa lengi ætlað sér í nýja sæng með íhaldinu. Og það var vel til fundið hjá fréttamönnum sjónvarpsins að sýna þjóðinni Gylfa Þ. Gíslason gleiðbrosandi á leið til þess flokksstjórnarfundar sem afhjúpaði áróðursblekkinguna um nýja flokkinn. Sagan frá 1959 er nú endurtekin í öllum sínum ömurleik.

Ferill Benedikts Gröndals ætlar að verða eindæma rislítill. En hvers er annars að vænta? Í dag situr sá maður í stól forsrh. þjóðarinnar sem fyrir fáeinum mánuðum vildi sleppa bandarískum hermönnum lausum út um allt íslenskt þjóðlíf, fyrir fáeinum víkum gekk erinda norskra krata og ætlaði að fórna hagsmunum Íslendinga á Jan Mayen-svæðinu og fyrir fáeinum dögum flutti Alþ. skýrslu um nýjan minnisvarða betlilundar gagnvart bandaríska hernum, svokallaða flugstöð, sem er í reynd nýtt vígbúnaðarmannvirki í þágu NATO. Það er kannske við hæfi að slíkur maður sé forsrh. þeirrar dúkkustjórnar sem umboðshafi Bilderberg-reglunnar á Íslandi, formaður Sjálfstfl., setur á fót, enda sýndi ræða hv. þm. Geirs Hallgrímssonar hér í dag að hann telur sig greinilega hafa húsbóndavaldið yfir Alþfl.

En þótt atburðir síðustu daga séu ill tíðindi fyrir íslenska vinstri menn og alla þá sem unna þjóðfrelsi, menningarlegri reisn og félagslegum framförum ber þó að fagna einu: Alþfl. siglir ekki lengur undir fölsku flaggi. Hann hefur skipað sér í sveit hægri aflanna, kerfisþrælanna, hagsmunajöfranna og spillingarkónganna. Vilmundur Gylfason er orðinn dúkkuráðherra dómsmála í skjóli Jóns Sólness. Það eru sögulok Kröflumálsins. Þarf fleiri vitnisburði um algjöra uppgjöf Alþfl.?

Þegar Sjálfstfl. hefur á ný náð tökunum í stjórn landsins og kosningar boða áframhaldandi bandalag íhalds og krata, er nauðsynlegt að þjóðin átti sig vel á því hvað í vændum er. Stefnuskrá Sjálfstfl., boðskapur Vinnuveitendasambandsins og Verslunarráðsins, kröfugerð Alþfl. á Alþ. og innan fráfarandi ríkisstj., — allt talar þetta einum rómi um ómengaða hægri stefnu, afturhvarf til síðasta áratugs, afturför í stað framsækni.

Hið sameinaða íhald boðar nú aðför að kaupmætti almennings, nýjar fórnir launafólks svo braskararnir geti tekið allt sitt á þurru þrátt fyrir holskeflur verðbólgunnar. Afnám verðbóta á laun, fjötrar á samtök launafólks, bann við kjarabótum, — allt þetta verður á borðum þingmanna á jólaföstu vinni íhaldsöflin sigur. Og það er táknrænt að Morgunblaðið birtir í dag frétt um að framkvæmdastjóri Vinnuveitendasambandsins og lagaprófessorinn herra Líndal, sem hlið við hlið hafa barist gegn réttindum launafólks, eigi að vera frambjóðendur Sjálfstfl. í næstu kosningum. Nú skal tryggja að í hinum nýja þingflokki Sjálfstfl. bili ekki þjónustan við hagsmuni atvinnurekendavaldsins.

Hið sameinaða íhald boðar nú stórfellda erlenda stóriðju. Draumar Morgunblaðsritstjórans frá síðasta áratug um 20 álver í eigu útlendinga skulu gerðir að veruleika. Erlendir fjármálafurstar skulu fá enn meiri ítök í efnahagslífi Íslendinga. Og það er táknrænt að um leið og H. Ben. & Co er að fara á hausinn, Flugleiðir riða til falls og Eimskip er að komast í rekstrarþrot birtist höfuðpaur hluthafaklíkunnar í Sjálfstfl. í sjónvarpinu og gerir bandalag við erlenda auðmagnið að úrslitakröfu fyrir nýrri ríkisstjórn á Íslandi. Afsal landsréttinda og orkugjafir til útlendinga eiga greinilega að vera bjarghringur gjaldþrotaburgeisa í Geirshirðinni í Sjálfstfl., og skiptir þá engu þótt efnahagslegu sjálfstæði þjóðarinnar verði stefnt í hættu.

Hið sameinaða íhald boðar nú atlögu gegn félagslegri þjónustu, menningarstarfsemi, heilbrigðiskerfi og almennri velferð sem markað hafa framsókn alþýðu til mannsæmandi lífs og menningarlegrar reisnar. Nú ætlar íslenska íhaldið að framkvæma niðurrifsstefnu evrópskra íhaldsflokka gagnvart þeirri velferðarþjónustu sem efld hefur verið á síðustu áratugum og talsmenn auðmagns telja til helstu óþurftarverka sósíalista. Nú er það máttur markaðarins og kraftur peninganna sem ráða eiga ferðinni.

Það er táknrænt að á fyrstu mínútunum í embætti sínu skuli hinn nýi menntmrh. íhaldsins afneita nauðsyn á betri húsakosti Ríkisútvarpsins. Það þarf engan að undra því á síðasta vetri var hann hér á Alþ. helsti talsmaður þess að auðvaldið ætti að ráða ferðinni í fjölmiðlum Íslendinga.

Það er því ljóst að vinni íhaldsöflin sigur verða hér samþykkt á jólaföstu fjárlög sem skera munu á lífæðar samneyslunnar í landinu, enda boðaði hv. þm. Friðrik Sophusson hina nýju niðurrifsstefnu með afdráttarlausum hætti í umræðunum hér í dag. Það er nauðsyn að almenningur í þessu landi átti sig á því, að hin sameinuðu íhaldsöfl ætla nú að ráðast með hnífnum að menningarstofnunum og velferðarþjónustu þessa lands. „Skerum, skerum,“ voru kjörorð Sverris Hermannssonar í útvarpinu fyrir skömmu.

En það eru ekki aðeins stórfelldar kjaraskerðingar, erlend stóriðja, auknar hernámsframkvæmdir og atlaga að menningarstarfsemi og félagslegri þjónustu sem eru í farangri íhaldsaflanna. Þar er einnig eitt sem þeir forðast umfram allt að nefna: atvinnuleysi. Atvinnuleysið er hin raunverulega baktrygging — þess markaðskerfis auðmagnsins sem nú á að endurreisa á Íslandi. Það þekkist hvergi í heiminum að til sé í veruleikanum það markaðskerfi, sem þessir herramenn boða hér, nema því fylgi stórfellt atvinnuleysi. Það er gjaldið sem almenningi er ætlað að greiða fyrir að endurvekja gömlu viðreisnina.

Góðir Íslendingar. Atburðir síðustu mánaða og ára hafa sýnt að gegn hinum sameinuðu íhaldsöflum er aðeins ein vörn: sterkt og öflugt Alþb., flokkur launafólks gegn liðsmönnum atvinnurekenda, flokkur þjóðfrelsis gegn auknum erlendum ítökum, flokkur menningarlegrar reisnar gegn lágkúru braskarakerfisins, flokkur samhjálpar gegn miskunnarleysi auðmagnsdrottnunar.

Á síðustu mánuðum og árum hefur komið skýrt í ljós að engin von er til þess að Framsfl. verðskuldi traust vinstri manna. Ferill hans í hægri stjórninni 1974–78 og samstaðan með Alþfl. í efnahagsmálaumræðunum innan fráfarandi stjórnar er óyggjandi vitnisburður í þessum efnum, enda lagði Steingrímur Hermannsson, hinn nýi formaður flokksins, á það ríka áherslu hér í dag að það væri enginn ágreiningur í efnahagsmálum milli Alþfl. og Framsfl. Það er því ljóst að Framsfl. gengur nú til kosninga undir nýrri forustu með ný sjónarmið: forustu Steingríms Hermannssonar, Tómasar Árnasonar og Guðmundar G. Þórarinssonar, sem allir hafa í áratugi verið postular einkaframtaks og erlendrar stóriðju. Þeir hafa fyrir löngu yfirgefið upphaflegan stefnugrundvöll Framsfl. um félagshyggju og raunsanna samvinnustefnu.

Alþb. stendur því eitt gegn þríeinu bandalagi íhaldsins — stóríhaldsins í Sjálfstfl., litla íhalds dúkkuráðherranna í Alþfl. og draumaíhalds nýju forustunnar í Framsfl. Línurnar í íslenskum stjórnmálum eru því skýrar og afdráttarlausar. Alþb. heitir á alla, sem vilja raunverulega vinstri stefnu, að veita okkur lið. Við heitum á alla, sem vilja verja hagsmuni launafólks, verja félagslega þjónustu, menningarleg verðmæti og sjálfstæði þjóðarinnar, að taka nú höndum saman. Það hefur sjaldan verið meira í húfi. Aðeins afdráttarlaus fylgisaukning Alþb. megnar að koma í veg fyrir hin illu verk íhaldsaflanna.