16.10.1979
Sameinað þing: 3. fundur, 101. löggjafarþing.
Sjá dálk 57 í B-deild Alþingistíðinda. (54)

Tilkynning frá ríkisstjórninni og umræða um hana

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Það hafa verið að gerast mikil og næsta afdrifarík tíðindi í íslenskum stjórnmálum síðustu vikur og daga. Ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar, sem margir bundu vonir við sem vinstri stjórn, hefur látið af völdum og við tekið minnihlutastjórn Alþfl. studd af Sjálfstfl. sem ber á henni alla ábyrgð og mun stjórna gerðum hennar eins og strengbrúðum.

Þessir atburðir eru öllum einlægum vinstri mönnum í landinu harmsefni, þótt þeir hinir sömu hefðu viljað sjá meiri árangur af störfum fráfarandi stjórnar í anda vinstri stefnu á mörgum sviðum en raun hefur orðið á. Menn skulu þó minnast þess, áður en dómur er upp kveðinn, að starfstími stjórnarinnar varð aðeins rúmt ár, en það er skammur tími til að undirbúa og koma í framkvæmd umbótamálum er mörg hver þarfnast alllangs aðdraganda og samráðs við marga eigi vel til að takast.

Stjórnin tók við erfiðu búi, þrotabúi hægri stjórnar, í upphafi, eins og hér hefur verið rakið og flestum er enn í fersku minni. Grundvöllur atvinnuvega í landinu var brostinn, óðaverðbólga meiri en áður hafði þekkst, ófriður ríkti á vinnumarkaði og stöðvun og atvinnuleysi var fram undan. Sú ríkisstj., sem við tók og lét af völdum í gær, þurfti þannig að glíma við hin örðugustu viðfangsefni, og henni tókst að leysa úr aðsteðjandi vanda og tryggja hér fulla atvinnu og frið á vinnumarkaði og halda í aðalatriðum í horfinu varðandi kaupmátt almennra launatekna, ef frá eru talin áhrif af versnandi viðskiptakjörum. Sú kjararýrnun á fyrst og fremst rót sína að rekja til utanaðkomandi aðstæðna og þeirra breytinga sem knúðar voru fram á vísitölukerfi — og þá öðru fremur til olíuverðshækkana — og hin sama þróun hefur valdið því öðru fremur að verðbólguþróun er hér svipuð er stjórnin fór frá í gær og þegar hún tók við haustið 1978.

Þeir, sem nú hafa hlaupið fyrir borð úr stjórnarsamstarfi og ætla að knýja hér fram kosningar um hávetur og rökstyðja það með því einu að hér ríki enn óðaverðbólga, mættu minnast þess, hvernig þróunin hefði orðið ef ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar hefði ekki gripið til þeirra aðgerða gegn verðbólgu sem um skeið skiluðu verulegum árangri. Alþfl.-forustan, sem nú reynir að afsaka ábyrgðarleysi sitt og svik við málstað vinstri manna og verkalýðshreyfingar í landinu, ætti að hafa í huga að svo afleit og ógnvekjandi sem verðbólguþróun undanfarinna ára hérlendis hefur verið, þá skipta fleiri atriði alþýðu þessa lands ekki minna máli og þá öðru fremur atvinnuöryggið. Gegn verðbólgunni ber að berjast í samvinnu við alþýðusamtökin í landinu og með heildarhagsmuni í huga, en þess verður að gæta jafnframt að fórna ekki því sem dýrmætast er hverjum manni: réttinum til vinnu og eðlilegs afraksturs af erfiði sínu. Þetta kemur í hugann nú er við heyrum samdráttatog krepputal þess nýja meiri hl. er nú hefur skriðið saman hér á Alþ., þótt reynt sé að breiða yfir sambúðina. Þetta krepputal hefur verið grunntónninn hjá talsmönnum Alþfl. og Sjálfstfl. í þessum umr.: niðurskurður framkvæmda, minni samneysla.

Í þessu sambandi er okkur hollt að líta til margra nágrannalanda þar sem nú ríkir geigvænlegt og vaxandi atvinnuleysi og fylgt er þeim hagstjórnarformúlum sem forustumenn Alþfl. hafa bitið sig fastast í og birtast í prósentutölum varðandi fjárveitingar til framkvæmda og atvinnuuppbyggingar í landinu, óháð því hverjar þær eru. Raunar hafa þeir Alþfl.-menn náð þeim árangri í trúboði sínu að þessu leyti að kreppuprósenturnar ganga sumar hverjar nær óbreyttar aftur, ekki aðeins hjá Sjálfstfl., heldur í nýlegum till. Framsfl. sem formaður hans hefur lýst sem grundvelli í kosningastefnuskrá flokksins í komandi alþingiskosningum. Á bak við hlakkar svo íhaldið — sú stjórnarandstaða Sjálfstfl. sem flestir höfðu gleymt að væri til uns formaðurinn birtist á sjónvarpsskjánum um daginn og boðaði meiri hl. Sjálfstfl. sem haldreipi í íslenskum þjóðmálum.

Nú er að skýrast sú mynd sem margir töldu við blasa er fyrir lágu úrslit alþingiskosninganna á síðasta ári, en ekki náði að renna saman í formi ríkisstj. Sjálfstfl. og Alþfl. í fyrrasumar vegna eindreginnar kröfu alþýðu manna til sjávar og sveita um að þeir, sem taldir voru íhaldsandstæðingar í landinu, tækju höndum saman. Um þessa kröfu tókst að fylkja þremur flokkum um tíma fyrir tilverknað Alþb. og formanns þess öðru fremur, þótt ekki fengi hann að veita þeirri stjórn forustu vegna íhlutunar erlendra afla sem nú er engum dulið að hafa hér hin afdrifaríkustu áhrif enn í dag í NATO-flokkunum íslensku eins og á fyrstu árum lýðveldis okkar. Ávinningar þessa stjórnarsamstarfs eru m.a. þeir, að tekist hefur að lögfesta ýmis mikilvæg réttindamál alþýðu, — réttindamál sem ella hefði þurft harða kjarabaráttu og að líkindum mörg ár til að knýja fram.

Alþfl. rýfur stjórnarsamstarf er fjölmörg mikilvæg hagsmunamál eru á viðkvæmu stigi. Framhaldi þessara mála er stefnt í mikla tvísýnu, svo ekki sé meira sagt. Liðið stjórnarár hefur verið undirbúningstími í ráðuneytum ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar og þ. á m. fyrir mörg mikilsverð mál sem ráðh. Alþfl. höfðu með að gera og vildu bera fram, eins og varðandi húsnæðismál og lífeyrismál. Flest rn. voru með mikilsverð mál og lagabætur í undirbúningi, eins og fram kemur í fskj. með stefnuræðu fyrrv. forsrh. sem lögð hefur verið fram hér á þinginu. Ríkisstj. hafði því verk að vinna jafnhliða andófi gegn verðbólgu. Hlaupist er þannig frá fjölmörgum brýnum hagsmunamálum almennings og hætta blasir við. Ekki er útlit fyrir minnkun verðbólgu á næstunni, heldur miklu fremur hætta á mögnun hennar nú í kosningalotu og með lausa kjarasamninga flestra stéttarfélaga. Ábyrgðina á þessu ber fyrst og fremst Alþfl. sem þykist öðrum fremur vilja sókn gegn verðbólgunni.

Á vegum þess rn., sem ég veitti til skamms tíma forustu, hafa mörg mál — að ég tel gagnleg mál — náð fram að ganga og það hefur verið unnið stefnumarkandi starf jafnt á sviði orku- og iðnaðarmála. Þeirri stefnumörkun hefur ekki verið komið í höfn nema að takmörkuðu leyti, þótt samstaða hafi tekist um mörg mikilsverð atriði. Ég nefni hér fáein dæmi:

Á sviði orkumálanna má geta undirbúnings að stofnun nýrrar landsvirkjunar, sem er mikið hagsmunamál fyrir alla landsmenn horft til langs tíma og einnig í næstu framtíð í sambandi við verðjöfnun á raforkuverði. Ég vil nefna stórfellda hækkun á olíustyrk, sem var sjálfsagt réttindamál og þar sem í undirbúningi var að ganga lengra í sambandi við jöfnun upphitunarkostnaðar. Ég bendi á að hert var á þessu ári á framkvæmdum í orkumálum og framkvæmdaundirbúningi í ljósi breyttra aðstæðna. Ég minni á að stefnumótun liggur fyrir um orkusparnað og hagkvæmari orkunýtingu á mörgum sviðum. Ríkisstj. hafði samþykkt húshitunaráætlun sem stefnir að því að útrýma á næstu 4 árum eða svo að mestu olíukyndingu íbúðarhúsnæðis.

Þannig er á sviðum orkumála að fjölmörgu að vinna og tillögur lágu fyrir eða voru í mótun um framtíðarmálefni. Þar get ég einnig minnst á athugun á framleiðslu á eldsneyti hér innanlands. Ég vil einnig minna á aðgerðir í sambandi við hitaveitur, fjarvarmaveitur og aðrar slíkar framkvæmdir. Þar tókst að koma í höfn vandasömu verki, sem var undirbúningur hitaveitu á Vesturlandi sem úthlutað var fullu og óskoruðu starfsleyfi fyrir síðustu helgi.

Varðandi iðnaðarmálin væri einnig af mörgu að taka. Ég sé ástæðu til að minna hér á þskj. sem lagt var fram fyrir fáum dögum hér í Sþ., um stefnumörkun í iðnaðarmálum. Á sama tíma og þetta liggur fyrir á borðum þm. talar hv. fyrrv. fjmrh. um að ekki liggi fyrir stefnumarkandi tillögur um iðnþróun af hálfu iðnrn. — á sama tíma og hann leggur hér fram fjárlagafrv. sem sker u.þ.b. 2 milljarða af mörkuðum tekjustofnun til iðnaðarmála á næsta ári! Ég hélt að hv. þm. mundi ekki sjá ástæðu til að fara út í þau mál við þessa umr. En ég held að menn geti leitað að þeim mönnum, sem bera hag íslensks iðnaðar fyrir brjósti, sem mæla bót þeim gerðum sem fyrir liggja og skjalfestar eru í frv. til fjárlaga. Ég tel mig hvorki hafa tíma né ástæðu til að fara langt út í þá sálma hér. Fyrir því hefur verið gerð grein.

Herra forseti. Efling innlendra atvinnuvega, m.a. með hagræðingu, bættri stjórnun og framleiðniaukningu í þeim rekstri sem fyrir er, er ein af þeim leiðum sem Alþb. leggur áherslu á til bættra lífskjara. En við Alþb.-menn leggjum ekki síður ríka áherslu á aukin áhrif starfsfólks á eigið vinnuumhverfi og íhlutunarrétt um stjórnun og starfsemi fyrirtækjanna. Alhliða efling og aukin fjölbreytni í atvinnulífi um allt land er nú sem fyrr eitt brýnasta viðfangsefni í þjóðmálunum ásamt öðru er fylgja þarf til menningarlegrar aðstöðu og þjónustu. Því mun Alþb. óhikað tefla fram stefnu aukinnar samneyslu og félagslegra úrræða gegn þeirri samdráttar- og kreppustefnu sem íhaldsöflin í hinum flokkunum þremur vilja nú knýja fram.

Línurnar í íslenskum stjórnmálum hafa verið að skerpast og skýrast að undanförnu. Annars vegar standa afturhaldsöflin undir sundurþykkri forustu Sjálfstfl. og hyggjast hagnýta sér sundrung vinstri afla, sem talin hafa verið, og hafa nú fengið dyggilegan stuðning Alþfl. Hins vegar er Alþb. sem eitt getur reynst þess megnugt að hrinda þessari sókn afturhaldsins í landinu. Alþb. gengur úr nýloknu stjórnarsamstarfi reynslunni ríkara. Launþegar þessa lands ættu að vera reynslunni ríkari einnig og vita hvar kauplækkunaröflin er að finna. Bændur landsins eru reynslunni ríkari og vita hvar stuðning er að finna. Gegn sókn afturhaldsins á alþýða þessa lands aðeins einn kost. Það er að gera Alþb. að ótvíræðum forustuflokki á vinstri væng íslenskra stjórnmála. Eflingu þess þarf að tryggja í næstu kosningum ótvíræðar en gerðist í júní 1978.