16.10.1979
Sameinað þing: 3. fundur, 101. löggjafarþing.
Sjá dálk 69 í B-deild Alþingistíðinda. (59)

Tilkynning frá ríkisstjórninni og umræða um hana

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Nei, það verður víst enginn vandi að ráða við verðbólguna ef hv. „kommissar“ Framkvæmdastofnunarinnar tekur við stjórn mála.

Ég er nú í vafa um að vegur Alþingis vaxi við þann hástemmda stóryrðavaðal sem hér hefur verið um hönd hafður. Nokkrar staðreyndir ættu þó að liggja ljósar fyrir, sem ekki verður um deilt. Og fyrsta staðreyndin er sú, að það er Alþfl. sem sleit fyrrv. ríkisstj. Það hefur hann að mínum dómi gert án þess að hafa nokkra ástæðu til þess.

Alþfl. hefur í raun og veru ekki borið upp neinar till. í efnahagsmálum frá því í des. s.l. Þá kallaði hann þær frv., enda þótt það væri aldrei borið upp á Alþ. Ég auglýsi eftir þeim till. sem Alþfl. hefur borið upp í ríkisstj. Ég hef hins vegar borið upp till. í ríkisstj. sem áttu að miða að því að draga úr verðbólgu. Ég bar t.d. upp á öndverðu þessu ári till. um að lækka rekstrarútgjöld ríkisins um 4%. Tóku nokkrir Alþfl.-ráðh. undir þá till.? Þeir lýsi því hér á eftir. Ég hreyfði í sumar hugmynd um hvernig mætti ná betri tökum á stjórn efnahagsmála. Þeim hugmyndum var ekki illa tekið af neinum ráðh., en alveg sérstaklega vel af tveimur Alþfl.-ráðh. Og það var einmitt verið að ræða um þessar till. þegar upp tír slitnaði.

Það slitnaði upp úr skyndilega. Það var í Morgunpósti í gærmorgun, held ég, að einn af toppkrötum lýsti því, að það hefði verið um nokkurt skeið ráðabrugg í gangi hjá Alþfl.-mönnum og þeim hefði tekist að láta þetta fara svo leynt að fjölmiðlar hefðu alls ekki komist að neinu. Já, ráðabrugg er rétta orðið. Og mér dettur ekki í hug að halda að hæstv. ráðh. Alþfl., sem sátu með mér í ríkisstj., hafi haft hugmynd um þetta ráðabrugg. Það hefur verið farið á bak við þá. Og ég veit að hæstv. forsrh. vissi ekki um þetta fyrr en hann kom til landsins af Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna.

Það er ekki ástæða til þess að orðlengja frekar um þann hlut sem orðinn er. Ástæðan er auðvitað einföld og skýr: að því liði, sem frá öndverðu var í stjórnarandstöðu í Alþfl., hefur vaxið ásmegin og það náð undirtökunum. — En það er spurt um þessa stjórnarmyndun. Það er ástæða til þess að gera sér dálítið nánari grein fyrir henni og hvaða staðreyndir liggja þar fyrir líka.

Hæstv. forsrh. sagði að það hefði verið kannað að ekki hefði verið unnt að mynda meirihlutastjórn með venjulegum hætti. Alveg rétt. Ég efa ekki að það hafi verið kannað. En tekist hefur að mynda meirihlutastjórn með óvenjulegum hætti. Og það liggur alveg ljóst fyrir að Sjálfstfl. hefur samþykkt það og ber ábyrgð að fullu og öllu á þessari ríkisstj., bæði þeim málefnum, sem hún framkvæmir, og þeim mönnum, sem sitja í ráðherrastólum. Frá því kemst hann ekki. Það er alveg bert af yfirlýsingu þeirri sem hv. þm. Geir Hallgrímsson, formaður Sjálfstfl., gaf áðan. Hann sagði að Alþfl.-mönnum hefði verið stillt upp við vegg og þeim hefðu verið settir úrslitakostir. Svo áréttaði hv. þm. Sverrir Hermannsson þetta sérstaklega áðan, þar sem hann sagði að þeir hefðu verið reyrðir við stólana. Það er þess vegna alveg ljóst að ráðh. Alþfl. eru fangar — fangar Sjálfstfl. Mér dettur ekki í hug að halda að allur Sjálfstfl. hafi staðið að þessu óskiptur. En hitt verður að segja alveg skýrt svo að öll þjóðin heyri, að einn maður í Sjálfstfl. ber ábyrgð á þessu öllum öðrum mönnum fremur, og það er sjálfur formaður Sjálfstfl., Geir Hallgrímsson. Þegar það er komið á daginn fer maður að skilja ýmislegt sem áður gerðist.

Ég hef sagt að framkoma Sjálfstfl. núna minni einna helst á herramann sem fyrirverður sig fyrir ástkonu sína og leitar til hennar í skjóli myrkurs að næturþeli. Ég skil þetta vel. Og þó eru þessir menn flestir hverjir, sem í ráðherrastólunum sitja, mestu heiðursmenn. Það get ég a.m.k. vitnað um þá sem hafa starfað með mér, því að samvinnan við þá hefur yfirleitt verið góð.

Það hefur nokkuð verið talað um hver árangur hafi orðið af stjórnarsamstarfinu. Það voru þrjú meginmarkmið sett með stjórnarsamstarfinu. Það var í fyrsta lagi að halda fullri atvinnu og það var sett efst. Það hefur tekist. Það var í öðru lagi að halda kaupmætti. Það hefur í raun og veru tekist að verulegu leyti. Kaupmáttur tímakaups var meiri á fyrri hluta þessa árs en 1978. Hann verður nokkru minni, 1–2% minni, á síðari hluta ársins. Ráðstöfunartekjur á þessu ári verða ívið meiri en í fyrra. Þetta er nú sannleikurinn um þau atriði. En verðbólgan — það er rétt að þar hefur ekki náðst það mark sem miðað var að. En það hafa líka skeð þar atburðir sem ég skil ekki að nokkrir sanngjarnir menn vilji horfa fram hjá. Hvernig halda menn að hægt sé að halda verðbólgu í skefjum þegar gasolía hefur frá hausti 1978 til miðs þessa árs þrefaldast í verði; bensín einnig og svartolía tvöfaldast? Hvað hefur þetta kallað á? Það hefur t.d. kallað á hækkað fiskverð. Og hvað hefur það kallað á? Hæstv. sjútvrh. veit það og getur svarað því. Hann hefur æðioft stuðlað að því að gengið væri látið síga, og það eru þrýstihópar í þessu þjóðfélagi sem heimta gengissig og gengislækkun. Hvað þýðir gengissig og gengislækkun? Það þýðir verðbólgu. Það er krafa um verðbólgu. Fram hjá því verður aldrei komist. Mín trú er sú, að meðan við búum við fljótandi gengi verði aldrei náð tökum á íslensku efnahagslífi.

En samt er það svo, að þetta er ekki eins svart og menn vilja vera láta. A.m.k. er vert að leiðrétta missagnir sem hér hafa komið fram. Það er nefnilega svo, að mætustu menn eru farnir að trúa því sem Mogginn hefur endurtekið nógu oft, að ég sé einhver verðbólgumethafi, að verðbólgan hafi 1974, þegar vinstri stjórnin skildi við, verið yfir 50%. Jafnvel formaður Sjálfstfl. er farinn að trúa þessu líklega, fer með það í sjónvarp og varpar því út yfir allan landslýðinn. Sannleikurinn er sá, sem tölur liggja fyrir um, að 1974 var verðbólgan 42%, en hún var hins vegar orðin um áramótin 50%, og á því berum við báðir ábyrgð af því að við sátum saman í þeirri ríkisstj. sem þá var. Það er best að segja sannleikann og láta þetta koma fram. Hver er verðbólgan núna? 42% þegar við skiljum við. Hver var hún þegar fyrrv. ríkisstj. skildi við? Yfir 50%. Þetta verður ekki vefengt. Og auðvitað verður langt þangað til því verðbólgumeti, sem sett var 1942, verður hnekkt, því að þá var verðbólguaukningin, miðað við ársgrundvöll, sem er nú í tísku að tala um, 85%.

Ég var á móti þingrofi og nýjum kosningum. Ég held að engum heilvita manni detti í hug að nýjar kosningar lækni nokkuð verðbólguvanda. Ég held þvert á móti að vandinn muni magnast, ekki síst ef þeir eru nú reyrðir á höndum og fótum, ráðh. Alþfl., og verða að sitja aðgerðalausir og mega ekkert hafast að á því tímabili sem þeir sitja í ráðherrastólum. Ég held að það sé mikið ábyrgðarleysi að takast ekki nú þegar á við þann vanda sem við er að glíma. Það ætlaði fyrrv. stjórn að gera, og ég fullyrði að það hefði tekist, a.m.k. að talsverðu leyti, ef menn hefðu haft þolinmæði til að sitja svolítið lengur.

Núv. stjórn ætlar að efna til kosninga í svartasta skammdeginu. Menn segja að það sé ekki hættulegt, samgöngur hafi batnað, auðvelt sé að komast leiðar sinnar og það megi láta menn kjósa utan kjörstaða. Já, já, það hafa einu sinni áður á Íslandi verið leyfðar kosningar utan kjörstaða, einar kosningar, sem mér skilst að nú sé meiningin að leiða í lög aftur. Reynslan af þeim kosningum varð sú, að þá voru allir sammála um að slíkt skyldi ekki endurtekið. En látum það gott vera. Ekki er ég á móti því að reynt sé með öllu móti, úr því sem komið er, að greiða fyrir því að menn geti neytt kosningarréttar síns.

Ég hafði gaman af því þegar var verið að tala um vegina og meðaltal 10 ára, held ég, þeir væru þungfærir þetta marga daga og ófærir þetta marga daga. En tókuð þið eftir um hvaða vegi var talað? Það var bara talað um aðalvegina, hringveginn í kringum landið. Vita menn ekki að um sveitir landsins liggja vegir og þó réttara sagt í mörgum tilfellum vegleysur? Það fólk, sem í sveitunum býr, þarf að fara um þessa vegi til þess að komast á kjörstað. En látum það gott heita. Meiri hl. verður að ráða og meiri hl. er hér Sjálfstfl. og Alþfl., og það þýðir ekkert fyrir þá að vera að þræta fyrir það að þetta sé meirihlutastjórn. Þó að það séu Alþfl.-ráðh. einir sem bundnir sitja á básunum er yfirráðherra þessarar ríkisstj. alveg óvefengjanlega formaður Sjálfstfl., Geir Hallgrímsson, Hann tekur á sig mikla ábyrgð. Hann tekur á sig mikla ábyrgð að ég er hér um bil viss um að margir sjálfstæðismenn hugsa sig um.

Ég neita því ekki að þessi ríkisstj. hefur verið erfið á ýmsa lund, en það vil ég segja í fullri einlægni, að hún hefði áreiðanlega verið auðveldari ef styrkur Framsfl. hefði verið meiri. Það hefði munað miklu ef Framsfl. hefði í staðinn fyrir 12 þm. haft t.d. 15. Það ættu hv. kjósendur að gera sér ljóst og hafa í huga þegar þeir ganga að kjörborðinu, að styrkur Framsfl. er nokkur trygging fyrir því að haldið sé skynsamlega á málum og með fullum heiðarleika og drengskap. Ég á ekki von á því, þrátt fyrir að mönnum verði brigslyrði laus á tungu á þeim tíma sem fram undan er, að við Framsóknarráðh. — eða ég — verðum sakaðir um það að hafa starfað á annan hátt í þessari ríkisstj. en af fullum heilindum.

Já, nú ber vel í veiði því að hæstv. dómsmrh. gengur í salinn. Það er líklega best að láta það verða mín síðustu orð að þessi hæstv. dómsmrh., skjólstæðingur Sjálfstfl., var með miklar skrumyfirlýsingar áðan. Hann ætlar nú aldeilis að taka „möppudýrin“ í dómsmálunum og dómskerfinu og í Háskólanum í gegn. Mín spá er sú, að þegar hann veltist úr valdastól eftir tveggja eða þriggja mánaða tímabil komi mörgum manninum í hug þetta stef:

Tunnan valt og úr henni allt ofan í djúpa keldu.