11.10.1979
Sameinað þing: 1. fundur, 101. löggjafarþing.
Sjá dálk 6 í B-deild Alþingistíðinda. (6)

Lausnarbeiðni ríkisstjórnarinnar

Utanrrh. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Alþfl. gekk til þess stjórnarsamstarfs sem nú er að.ljúka, fyrir liðlega 13 mánuðum með miklar vonir um að stjórninni mundi takast að vinna á hinum alvarlegu efnahagsvandræðum, sem þjakað hafa þjóðina, og koma fjöldamörgum góðum málum til leiðar. Um þetta má lesa í samstarfsyfirlýsingu ríkisstj., hver áformin voru og hverjar vonirnar. Því miður höfum við orðið fyrir miklum vonbrigðum. Stjórnarsamstarfið hefur verið skrykkjótt alla tíð. Það hefur komið í ljós að í raun og veru er innan ríkisstj. um að ræða grundvallarágreining varðandi viðhorf til þeirra mála sem leysa þarf, og hefur það valdið því að stjórnarsamstarfið hefur gengið svo skrykkjótt sem öllum er kunnugt um. Þess vil ég þó geta, að ég tel að ríkisstj. hafi komið mörgum góðum og merkum málum til leiðar. Er sanngjarnt að minnast þess einnig þegar þau mál, sem valda ágreiningi, eru efst á baugi.

Alþfl. hefur nú stigið það skref að slíta þessu stjórnarsamstarfi og óska eftir nýjum kosningum. Þetta hefur komið mörgum á óvart og þykir óvenjulegt. Er við öðru að búast af ungum og þróttmiklum hópi þm., sem gekk til þessa samstarfs með svo miklar vonir, en að þeir hirtu ekki um hinar hefðbundnu leiðir? Ekki verður annað sagt en að flokkurinn hafi ekki hikað við að fórna stjórnarþátttökunni þegar hann taldi að málefnunum miðaði ekki áfram í rétta átt. Við höfum sem sé stigið þetta skref af því að vonir, sem við bundum við að ríkisstj. næði samstöðu um aðgerðir gegn verðbólgunni, mestu meinsemd íslensks þjóðlífs, hafa brugðist, vegna þess að við teljum að samstarfsflokkarnir hafi ekki fengist til að samþykkja ítarlegar og ítrekaðar tillögur Alþfl. um aðgerðir gegn dýrtíðinni, vegna þess að ekki er samstaða um meðferð efnahagsmála, um fjárlög, um lánsfjáráætlun, þjóðhagsáætlun eða neitt af þeim veigamiklu atriðum sem snerta stjórnsýslu þjóðarinnar meira en nokkuð annað á þessari stundu þegar Alþingi kemur saman. Við eðlilegar aðstæður á ríkisstj., þegar þing kemur saman, að vera búin að leysa allan innri ágreining og leggja fram ákveðna stefnu í þessum málum öllum. Við höfum stigið þetta skref vegna þess að okkur þykir lítill árangur hafa náðst í baráttu gegn spillingu og misrétti sem við lögðum mikla áherslu á í síðustu kosningabaráttu. Við viljum enn að tekin verði upp gerbreytt efnahagsstefna, en vegna þess að starf í ríkisstj. síðustu tvo mánuði hefur leitt í ljós þann ágreining sem ég tiltók, um fjárlög, lánsfjáráætlun, þjóðhagsáætlun, meðferð efnahagsmáta og annað sem því viðkemur, þá óttumst við að að öllu óbreyttu mundi verða siglt út í svipað stjórnarfar og var í allan fyrravetur, sem sagt stöðugar, gagnslausar skammtímalausnir á vandamálunum, án þess að tekið sé á þeim til frambúðar.

Eins og ég sagði, hafa staðið yfir í ríkisstj. umr. um þessi mál nú a.m.k. tvo mánuði, en þar að auki er á ársreynslu að byggja. Við höfum dregið ályktanir af þessu og valið þennan tíma, þótt óvenjulegur þyki, af því að enn er mögulegt að kjósa á þessu ári. Við treystum því, að samgöngur séu það góðar í landinu að kosningar geti farið fram með fullkomlega lýðræðislegum og eðlilegum hætti.

Alþfl. skorast ekki undan ábyrgð. Hann er reiðubúinn að bera ábyrgð í hvaða formi sem tækifæri gefst til, ef það stuðlar að framgangi þeirra mála sem hann leggur mesta áherslu á.