16.10.1979
Sameinað þing: 3. fundur, 101. löggjafarþing.
Sjá dálk 72 í B-deild Alþingistíðinda. (60)

Tilkynning frá ríkisstjórninni og umræða um hana

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Þessum umr. er nú að ljúka. Ég ræð yfir örfáum mínútum. Ég verð því að láta mér nægja að drepa á aðeins örfá atriði af þeim sem mér þykja hafa helst einkennt þessar umr.

Í fyrsta lagi er þá á að minnast þann einkennilega, þann sérkennilega feluleik sem hefur átt sér stað í þessum umr. hjá fulltrúum Sjálfstfl. og Alþfl. Hvorugur vill við hinn kannast. Þeir sverja fyrir það, sjálfstæðismenn, að þeir beri nokkra ábyrgð á þessari ríkisstj. sem þeir hafa þó myndað og sett upp. Allir vita að Alþfl. hafði engan þingræðislegan rétt til þess að mynda minnihlutastjórn nema einhver annar flokkur tæki ábyrgð á stjórninni — ekki veitti henni hlutleysi. Hlutleysi dugar ekki jafnlitlum flokki hér á Alþ. og Alþfl. er. Auðvitað þurfti forseti landsins að fá það tryggt að til væri annar flokkur sem tæki ábyrgð á þessari ríkisstj. Það gerði Sjálfstfl.

Hann skammast sín fyrir það, hann vill ekki bera ábyrgð á því. Sjálfstfl. veit auðvitað líka að þegar þessi dúkkustjórn hans fer að setja ný brbl. um skattana frá s.l. sumri er það gert á ábyrgð Sjálfstfl., hann er að samþykkja skattana. Það þýðir ekkert að grafa hausinn í sandinn og neita því, það veit öll þjóðin. En menn vita auðvitað miklu meira um skattastefnu Sjálfstfl. Kannske fæ ég einhverjar mínútur til að koma að því.

Svo er það annað í þessum umr. sem hefur vakið athygli mína, og það er sá einkennilegi lestur sem í fyrsta lagi Alþfl.-menn halda hér uppi. Jafnvel þeir sem maður átti síst von á verða heilagir í framan, eins og Sighvatur Björgvinsson, og segja: Við viljum kveða niður verðbólguna, við erum á móti verðbólgunni, við höfum staðið í þessu stríði við verðbólguna allan tímann, og þið vitið nú, mínir ágætu herrar, hvað verðbólgan er hættuleg. Alþfl. verður blátt áfram að kjósa af því að hann vil l kveða niður verðbólguna. — Hvers konar vilji er þetta hjá Alþfl.? Hvar eru till. hans? Hvað hefur verið að gerast?

Þegar efnahagslögin voru samþ. á s.l. vori sagði allur kór Alþfl. og Alþýðublaðið: Tímamótastefnumörkum í átökunum við verðbólgu. — Þá átti þetta nýja frv. að marka tímamót, og í öllum meginatriðum var samþykkt stefna Alþfl., sagði Alþýðublaðið. En nú koma þeir hver um annan þveran og halda langar ræður um dauðadóm yfir þeirri stefnu. Sannleikurinn er sá, að allar heimskutillögur Alþfl. voru samþykktar inn í lögin. Við urðum að fallast á að ýmislegt væri þar samþykkt sem við sögðum fyrir fram að hefði enga þýðingu að setja í lög. Þar var t.d. samþykkt hvað mætti vera mikið af peningamagni í umferð, alveg án tillits til þess hvernig verðlagsþróunin væri í landinu. Að mínum dómi var þetta álíka viturlegt og að setja lög um að banna norðanstorminn þegar hann skylli á. Slíkt gerði auðvitað ekkert gagn gegn norðanstorminum —ekki neitt, og svo er auðvitað líka með það sem við létum eftir Alþfl. Prósentutölur hans voru lögbundnar, og nú hefur hann séð eftir nokkra mánuði að þetta er allt saman eintómt bull. Hann fékk vaxtastefnuna sína fram, og nú sér hann að það hækkar allt verðlag vegna þessarar vaxtastefnu. Svo kemur hann á eftir alveg heilagur í framan og segir við alla þjóðina: Við erum einir á móti verðbólgunni, við erum einir á móti henni.

Sannleikurinn er sá, að það, sem Alþfl. fékk ekki fram nema að litlu leyti í sambandi við efnahagsmálastefnu sína, voru kröfur hans um beina launalækkun. Það er býsna táknrænt í þessum efnum að standa núna einmitt frammi fyrir því, að eitt atriði, sem snertir launin og munaði minnstu að riði stjórninni að fullu á s.l. vori, var sú krafa Alþfl. — og reyndar studd af Framsfl., að það yrði að lækka öll laun, einnig hin lægstu, eftir ákveðinni prósentureglu. við gátum komið því í gegn í sambandi við þessa lagasetningu, og það var okkar síðasta tilraun til þess að reyna að framlengja líf þessarar stjórnar þá, að sú launalækkun, sem þar var um að ræða, skyldi þó ekki ná til lægstu launanna í landinu eða þeirra sem voru undir 210 þús. kr. á mánuði. Það gat Alþfl. ekki samþ. Launalækkunin varð að ná til þeirra lægst launuðu. Þá létum við undan og sögðum: Ef þið getið fallist á að þessi sérstaka launalækkun nái ekki til lægstu launanna í næstu 6 mánuði. — Og það tókst að fá inn í lögin að þessi sérstaka launalækkun láglaunafólksins skyldi þó ekki ná fram að ganga fyrstu 6 mánuðina. En þeir 6 mánuðir renna út 1. des. n.k., og lögin segja að ef þá verður t.d.

11% hækkun á kaupi vegna kaupgjaldsvísitölu. þá á fólkið, sem hefur lága kaupið, bara að fá 9% – eftir kröfu Alþfl. og auðvitað stutt af Framsfl. Þannig var þetta lögtekið gegn mótmælum okkar. Svo koma allir Karlar Steinarar og segja á eftir: Við viljum jafna launakjörin í landinu. — Ja, sér er nú hvað!

Ég má ekki vera að því að skamma Alþfl. meira. Af nógu er þó að taka. Ég verð að ætla Sjálfstfl. þær fáu mínútur sem ég á eftir. Ekki er skrípaleikur hans minni en Alþfl. í þessum efnum. Hann krefst þess nú að fá meirihlutaaðstöðu í landinu, reynir að slá sig til riddara á mistökum annarra. Auðvitað hafa síðustu ríkisstj. orðið á ýmis mistök. Það gat ekki öðruvísi farið farið með þetta sandkassalið frá Alþfl. En hvað er Sjálfstfl. að fara fram á? Gerir hann þjóðinni einhverja grein fyrir því hvað hann býður? Má ég aðeins minna á hvaða reynslu menn hafa af stjórn Sjálfstfl.

Hér hefur verið sagt: Geir Hallgrímsson, formaður Sjálfstfl., skildi þannig við ríkisstj. sína að verðbólguvöxturinn á einu ári var 51.7%, fékk þó enga olíuprísund. Hann skildi þannig við að svo að segja allt atvinnulíf var að stöðvast í landinu. Hann skildi þannig við að ríkisskuldirnar, skuldir ríkissjóðs við Seðlabankann, höfðu hækkað úr 1.5 milljörðum upp í 26.5 milljarða. Það var heldur laglega af sér vikið! Hvað gerði Sjálfstæðisfl. í sambandi við erlendar skuldir? Þær höfðu hækkað einmitt í tíð þeirrar stjórnar meira en nokkru sinni áður. Svo kemur þessi sami Sjálfstfl, nú og segir: Við ætlum að breyta þessu öllu. Það verður vitanlega að stöðva skuldasöfnunina. Það verður vitanlega að kippa öllu í liðinn. — Flokkurinn, sem var að láta af stjórn landsmála fyrir 11/2 ári og á þennan sérstaka hátt, Flokkurinn sem nú lofar mönnum því að skattarnir skuli lækkaðir, lagði á hvern nýja skattinn af öðrum, hann hækkaði söluskattinn, hann fann upp vörugjaldið, hann tók viðlagasjóðsgjaldið og lagði það í ríkissjóð, hann stal olíugjaldinu sem var lagt á til þess að reyna að létta undir með þeim sem þurftu að kynda hús sín með olíu, og lagði olíugjaldið í ríkissjóð og hann hnoðaði upp hverjum skattinum af öðrum.

Sjálfstfl. talar mikið um vinstri stjórnir sem hafa setið í 51/2 ár s.l. 30 ár, en sjálfur hefur hann verið í stjórn allan annan tíma og búið til það bákn, það ríkiskerfi sem hann þykist vera að slást við. En það skulu menn muna, þeir sem ganga til kosninga nú í desembermánuði og standa frammi fyrir þeim alvarlegu tíðindum sem menn hafa heyrt, að baráttan í þeim kosningum mun standa á milli tveggja ólíkra skoðana — annars vegar þeirra skoðana, sem við Alþb.-menn höfum verið aðaltalsmenn fyrir og verðum aðaltalsmenn fyrir í fylgd með launafólki í landinu og í fylgd með vinnandi fólki í landinu almennt, hins vegar afturhalds- og íhaldsstefnu Sjálfstfl. sem menn hafa reynt og mundi boða kreppu, atvinnuleysi og landflótta og að sjálfsögðu stórátök við launafólk. Og ég segi við alla vinstri menn í þessu landi: Þið hafið ekki efni á því, þegar málin standa svona, að skipta liði ykkar. Það er tekist á milli tveggja póla, og annar er Alþb., sem er gegn íhaldsstefnunni, og þá stefnu verða vinstri menn í landinu að fylkja sér um í komandi kosningum.