16.10.1979
Sameinað þing: 3. fundur, 101. löggjafarþing.
Sjá dálk 74 í B-deild Alþingistíðinda. (61)

Tilkynning frá ríkisstjórninni og umræða um hana

Sjútvrh. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Góðir tilheyrendur. Menn hafa nú fengið að heyra smjörþefinn af málflutningi ýmissa reyndra stjórnmálamanna. Stóryrðin skortir ekki. En málefnalegur getur þessi mál

flutningur tæpast talist, hvað þá að þjóðin sé nokkru nær um hvers konar vandamálum hún stendur nú frammi fyrir.

Mér hefur oft virst og ég trúi því, að margir séu sammála mér um það, að í vafstri hins daglega lífs og hita stjórnmálaumræðunnar gleymi stjórnmálaflokkar og stjórnmálamenn markmiðum og stefnu flokks síns og blindist af dægurmálunum.

Við Alþfl.-menn leggjum megináherslu á að vinna að betra og réttlátara þjóðfélagi, ná fram auknu jafnrétti milli hinna ýmsu hópa þjóðfélagsins og auka efnahagslegt og félagslegt öryggi. Með þessu móti viljum við vinna að því að tryggja hagsmuni vinnandi fólks.

En hver er þá forsenda þess að við getum byggt hér réttlátara og betra þjóðfélag? Hver er forsendan fyrir því að við getum með þeim hætti unnið að hagsmunum vinnandi fólks?

Forsendan er einfaldlega sú, að hér takist að skapa heilbrigðara efnahagslíf. Ef við lítum í kringum okkur sjáum við að þjóðfélagið er sjúkt. Auði er misskipt, braskarar hagnast og alþýðan blæðir. Verðbólgan flytur gífurleg verðmæti milli hópa í þjóðfélaginu og miklum fjármunum er stolið af sparifjáreigendum. Fjárfestingin er víða óarðbær og skilar ekki afrakstri til hins vinnandi fólks.

Það var af þessum orsökum sem við Alþfl.-menn lögðum ríka áherslu á það fyrir síðustu kosningar að upp yrði tekin gerbreytt efnahagsstefna. Það var á þessum forsendum og til þess að geta lagt grunninn að betra og réttlátara þjóðfélagi sem við í desembermánuði tókum saman frv. um jafnvægisstefnu í efnahagsmálum. Það var á þessum forsendum sem við vorum reiðubúnir til þess að styðja upphaflegt frv. Ólafs Jóhannessonar forsrh. Ef það hefði verið samþykkt af samstarfsflokkunum í ríkisstj. eða ef tillögur okkar frá því í desember hefðu verið samþykktar stæðum við nú skrefi nær heilbrigðu efnahagslífi, skrefi nær því að hafa lagt grunninn að betra og réttlátara þjóðfélagi.

En lítum á hver reynslan hefur verið. Lítum um öxl, og þá ekki einungis yfir þetta eina ár þeirrar ríkisstj. sem nýfarin er frá völdum, heldur yfir mörg liðin ár, t.d. allt ríkisstjórnartímabil fyrrv. ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar. Öll hafa þessi ár einkennst af því, að hver bráðabirgðaráðstöfunin hefur rekið aðra. Grundvallarmunurinn á Alþfl. og hinum flokkunum þremur er sá, að hinir flokkarnir hafa byggt á skammtímalausnum. Það er vegna þess að ekki tókst að fá samstarfsflokkana af þeirri braut sem við Alþfl.-menn sögðum: Hingað og ekki lengra. — Við vöruðum við á s.l. vetri, en við vildum enn leita samkomulags. Þess vegna tókum við þátt í mikilli umræðu um efnahagsmál í ríkisstj. og við tókum þátt í undirbúningi fjárlaga á þessu sumri, en málefnaágreiningurinn varð æ augljósari.

Við viljum vera stefnu okkar trúir. Við teljum að það hafi verið ljóður á ráði stjórnmálaflokka hér á Íslandi að þeir hafi ekki haft höfuðmarkmið sín að leiðarljósi við það að leysa úr efnahagsmálum á hverjum tíma. Við stóðum upp til þess að knýja það fram, að gerbreyting yrði á vinnubrögðum og stefnumörkun í efnahagsmálum, og kröfðumst kosninga, eins og lýðræðislegt er.

Sumir halda því fram, að við höfum með þessu hlaupist frá vandanum. Ekkert er fráleitara. Sannleikurinn er sá, að hinir flokkarnir hafa ekki fengist til þess að koma nálægt vandanum, heldur hlaupið í kringum hann allan tímann. Enn fráleitari er þessi málflutningur með tilliti til þess sem gerst hefur seinustu daga, þar sem Alþfl. hefur sýnt að hann er reiðubúinn til þess að axla þá ábyrgð að sjá landinu fyrir stjórn um hríð, þótt erfitt hlutverk sé. Hitt er og væri ábyrgðarleysi, að vera ekki stefnu sinni trúr. Það væri líka ábyrgðarleysi að flýta því ekki eftir mætti að kosningar geti farið hér fram í samræmi við lýðræðisleg vinnubrögð.

Sumir segja að það hafi verið án tilefnis sem Alþfl. hafi rofið stjórnarsamstarfið í fyrrv. ríkisstj. Menn þurfa þó ekki annað en líta í kringum sig í þjóðfélaginu til þess að sjá tilefnið, til þess að sjá hversu sjúkt efnahagslífið er og til þess að sannfærast um að hér hefur ekki miðað til réttrar áttar. Það lá ljóst fyrir í þingbyrjun að ekki var samstaða um neinar meginaðgerðir í efnahagsmálum og að enn stefndi í sams konar ástand og áður, skammtímalausnir, ófullkomnar aðgerðir og hrossakaup. Þetta vildum við Alþfl.-menn ekki.

Það var t.d. ekki samstaða um fjárlagafrv. Alþb. reynir nú reyndar að halda því fram, að ágreiningur þess varðandi fjárlagafrv. hafi verið lítilmótlegur, það hafi einungis verið ómerkilegir fyrirvarar sem það hafi gert við fjárlagafrv. Mér heyrðist reyndar áðan að eitthvað annað væri að heyra á hæstv. iðnrh., Hjörleifi Guttormssyni, er hann talaði beinlínis um að fjmrh. hefði stolið 2 milljörðum frá iðnaðinum og dembt þeim í ríkissjóð. Einhvern tíma væri þetta kallaður ágreiningur.

Annað mál er það, sem er ekki síður athyglisvert í þessu sambandi, að maður hefði haldið að þegar menn láta í ljós ágreining, láta það í ljós að þeir séu andvígir fjárlagafrv. t.d. í tiltekinni mynd, meintu menn eitthvað með því, meintu menn það í alvöru. Spurningin er kannske sú, hvort menn eru í stjórnmálum í alvöru eða í plati, hvort menn gera ágreining í alvöru eða í plati. Við Alþfl.-menn erum í stjórnmálum í alvöru og til þess að ná árangri. Aðrir flokkar virðast sýsla við þessi mál í plati.

Fyrrum hæstv. fjmrh., Tómas Árnason, og reyndar fyrrum hæstv. landbrh., Steingrímur Hermannsson, héldu því fram áðan að það hefði verið síðbúið hjá Alþfl. að lýsa sig andvígan fjárlagafrv. Sannleikurinn er sá, að hinn 12. sept. kynnti þáv. fjmrh. í fyrsta sinn álögur sem fóru yfir 330 milljarða kr. og strax daginn eftir, 13. sept., bókuðum við ráðh. Alþfl. andstöðu okkar við að farið yrði fram úr 323 milljörðum. Þessi skoðun okkar lá því strax fyrir og að halda öðru fram er marklaus málflutningur.

Hér hafa menn líka haldið því fram, að ráð Alþfl. séu að minnka kaupmátt launa. En ég spyr: Um hvað var ágreiningurinn um fjárlagafrv.? Hann stóð um það, að Alþfl. féllst ekki á að kaupmáttur þeirra ráðstöfunartekna, sem heimilin hafa, yrði lækkaður með auknum skattaálögum. Það vildu framsóknarmenn gera og enn frekar Alþb.-menn — í enn ríkara mæli, því að þeir gerðu kröfu um enn meiri ríkisútgjöld sem þýddu auðvitað enn meiri skattpíningu. Alþfl. skilur sig frá hinum flokkunum í því, að hann vill treysta kaupmátt ráðstöfunartekna heimilanna m.a. með því að stilla skattlagningu í hóf og með félagslegum aðgerðum. Ég held að allir landsmenn hafi fengið nóg af því að fá sífellt fleiri og verðminni krónur í launaumslagið sem jafnharðan eru aftur teknar í verðhækkunum og í hækkuðum sköttum.

Hv. 1. þm. Austurl., Lúðvík Jósepsson, gerði hér stórt númer úr því, að það hefði verið samþykkt í lögunum um stjórn efnahagsmála o.fl. að kröfu Alþfl., að takmörk og skorður yrðu settar við aukningu peningamagns í umferð. En hvernig hefur þetta loforð verið haldið? Það hefur ekki verið haldið, og það er það sem er kannske athyglisverðast í þessu öllu saman. Það er tilgangslaust að setja markmið þegar ekki er hægt að beita tækjum til að ná þeim árangri sem nauðsynlegur er.

Kosningarnar, sem framundan eru, snúast auðvitað ekki um fortíðina nema til þess að læra af henni. Kosningarnar snúast um það, hvernig eigi að stjórna landinu næstu árin. Komandi kosningar snúast um það, hvort ná eigi tökum á stjórn efnahagsmála og draga úr dýrtíðinni og leggja þannig grundvöll að heilbrigðara og réttlátara þjóðfélagi. Einungis með því að hreinsa til og stokka upp í efnahagslífinu er unnt að treysta afkomu fólksins í landinu. Sérstaða Alþfl. er glögg. Hann telur að eyða þurfi óvissu fólks um afkomu sína með því að framfylgja frambúðarstefnu í stað skammtímalausna. Þegar ekki reynist unnt að ná þessum markmiðum í ríkisstjórn hikum við ekki við að skjóta málinu til fólksins í landinu í kosningum, trúir stefnumörkun okkar. Og ég segi það í fyllstu alvöru, að okkur sem þjóð þarf að lærast að ná fram jafnvægi. Við verðum að láta okkur lærast jafnvægi í umgengni okkar við náttúruna, hvort heldur er til lands eða sjávar. Við þurfum að halda jafnvægi í viðskiptum okkar við útlönd, en tefla ekki sjálfstæði okkar í tvísýnu með hóflausri skuldasöfnun erlendis. Við verðum að ná jafnvægi í efnahagsbúskap okkar innanlands. Þessu þarf að ná með samstilltu átaki sem nái til hinna ýmsu svíða efnahagsmálanna. Og ég segi það í fyllstu alvöru við þingmenn og við þjóðina alla, að þjóðin þarf að sameinast um þetta samstillta átak til þess að ná efnahagslífinu á heilbrigðari grundvöll og draga úr dýrtíðinni. Það er um þetta sem næstu kosningar snúast.

Útvarpsumræðum lokið, en umr. um dagskrármálið haldið áfram.