21.02.1980
Neðri deild: 40. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 904 í B-deild Alþingistíðinda. (1002)

Umræður utan dagskrár

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Umr. í hv. Nd. bæði í gær og í dag bera það ekki með sér að hér ríki jafnmikil ábyrgð og hjá hreppsnefndinni í Ólafsvík. Og með fullri virðingu fyrir hæstv, forseta, má hann gjarnan gera sér grein fyrir því, að forsetastóllinn er ekki hugsaður til þess að skjóta úr honum óþverra yfir salinn, þó hann hafi gaman af og telji sig vera í aðstöðu til þess, heldur er hann ætlaður til þess að stjórna fundum hér í Nd. En vegna fáfræði hv. 3. þm. Vestf. um útsvar og tekjustofna sveitarfélaga verður ekki hjá því komist að segja hér örfá orð.

Allir, sem hafa á þeim málum örlitla þekkingu, gera sér grein fyrir því, að sú verðbólga, sem verið hefur í landinu, 40–50%, hefur verið að rýra þá tekjustofna í reynd frá því að vera 10% af tekjum þegnanna niður í það að vera 7–8% af tekjum þeirra. Þetta er grundvallaratriði sem mér finnst að hv. 3. þm. Vestf. mætti gjarnan vita. Þá er það spurningin: Í hvað fara þessar tekjur? Þær fara í að halda uppi þjónustu og framkvæmdum hjá sveitárfélögunum. Ef við minnkum tekjurnar jafnmikið og verið hefur að gerast á undanförnum árum, þær hafa verið að minnka jafnt og þétt, þá leiðir það til þess, að þjónustan ein verður eftir, en framkvæmdirnar skornar niður.

Það vekur jafnframt — undrun mína miðað við það góðmannlega fas sem hv. 3. þm. Vestf. viðhafði hér fyrir jólin þegar hann þurfti að koma málum í gegn og minnihlutastjórn sat, hver breyting er orðin á háttalagi hans. Það er eins og þrumuský sé að koma hér upp í pontuna öðru hverju til að þenja sig yfir allan mannskapinn og prédika. Mér er fullkomlega ljóst að það fækkar sýningarferðum í sjónvarpið út af fjárlögum og góðri stöðu ríkissjóðs. Vel má vera að það eigi að bæta það upp með því að tefja fyrir fundum hér á Alþingi. En það væri ánægjulegt engu að síður ef hv. 3. þm. Vestf. talaði örlítið meira af viti um tekjustofna sveitarfélaganna þegar hann tekur næst til máls.