21.02.1980
Neðri deild: 40. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 906 í B-deild Alþingistíðinda. (1004)

Umræður utan dagskrár

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Þetta orð, sem hv. 3. þm. Vestf. bíður eftir frá mér, fær hann ekki á þessari stundu. (Gripið fram í.) En það, sem ég vil segja við hann, er þetta: Hann var að bera það upp á mig, að ég hefði haft undarleg vinnubrögð í þessu máli. Ég kann ekki við að sitja þegjandi undir slíku. Það, sem ég gerði í málinu, er þetta: Nokkru eftir að núv. ríkisstj. var mynduð ræddi ég um það við formann félmn. Nd., hv. þm. Alexander Stefánsson, hvort hugsanlegt væri að koma þessu máli um tekjustofna sveitarfélaga áleiðis í gegnum þingið á næstu sólarhringum, vegna þess að það væri nauðsynlegt fyrir sveitarfélögin að fá það afgreitt. Ég ræddi líka við hæstv. forsrh. og síðan hæstv. sjútvrh., formann Framsfl., um það, hvaða augum þeir litu þetta mál. Síðan ræddi ég það nokkuð við fyrrv. starfsfélaga mína í vinstri stjórninni forðum, hvort hugsanlegt væri að viðhorf til þessa máls almennt séð hefðu að einhverju leyti breyst. Ég bið hv. þm. Sighvat Björgvinsson afsökunar á því, ef mér hefur sést yfir þann möguleika að þingflokkur Alþfl. hefði aðra skoðun á slíku máli þegar hann er í stjórn en þegar hann er utan stjórnar. Það orð skal hv. 3. þm. Vestf. fá frá mér, en önnur ekki að sinni. En ég endurtek, að ég harma það, ef til þess þarf að koma, að þetta mál, þetta mikilvæga mál, svo og málið um verðábyrgð vegna landbúnaðarafurða, verður tafið með þeim hætti sem ég lýsti áðan og kemur heim og saman við meginstaðreyndir í þessu máli.