21.02.1980
Neðri deild: 40. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 907 í B-deild Alþingistíðinda. (1007)

Umræður utan dagskrár

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð út af því sem hæstv. félmrh. sagði áðan. Það kemur úr hörðustu átt, ef hann ætlar að ásaka þingflokk Alþfl. um að hann sé að bregða fæti fyrir þetta mál. Það er búið að rekja það hér, hvaða mál það voru sem hæstv. ríkisstj. lagði áherslu á að afgreidd yrðu áður en þinghlé yrði gert. Það var gert af sjálfum hæstv. forsrh., að allir telja í nafni hæstv. ríkisstj. Málin voru tekju- og eignarskattsfrv. og 3 milljarðarnir. Annað var ekki lögð áhersla á. Það er hins vegar sérstakt pot í hæstv. félmrh. að koma þessu máli í gegn án þess að um það væri talað við þingflokkana af hæstv. forsrh. Það er því á ábyrgð hæstv. félmrh. sjálfs hvernig málum er nú komið. Hann verður sjálfur að axla þá byrði. Hefði verið talað.við þingflokk Alþfl. í gær um þetta mál á sama hátt og 3 milljarða kr. málið, þá hefði þingflokkur Alþfl. að sjálfsögðu tekið þetta mál til umfjöllunar og afgreiðslu í gær. En það var ekki til umræðu hjá hæstv. forsrh., að málið ætti að fara hér í gegn, og þess vegna ekki ástæða til að ræða málið á þingflokksfundi Alþfl.

Þetta er auðvitað höfuðskýringin á því, hvernig málum er nú komið, að það hefur ekki verið samband hjá hæstv. félmrh. við hæstv. forsrh. um þetta mál. Hann hefur sjálfur á eigin ábyrgð, ekki í nafni ríkisstj., verið að reyna að pota málinu í gegn með þessum hætti, sem þýðir það að málið er komið í strand vegna vinnubragða hans sjálfs. Það er skýringin.

Ég vil spyrja hæstv. félmrh. nokkurra spurninga: Er ekkert samband milli þeirra álaga, sem þarna er um rætt, og skattstigans, sem á eftir að koma, í tekjuskattinum? Skipta tengslin þarna á milli engu máli fyrir skattþegnana? Hver verður skattstiginn t.d. fyrir launafólkið af tekjunum? Verður hann með þeim hætti að það sé bætandi á þetta sama fólk í sambandi við greiðstu útsvarsins? Hæstv. ríkisstj. hefur lofað skattalækkun — er það ekki? Ég held að menn verði að gera sér grein fyrir því, að það er afskaplega óeðlilegt að afgreiða skattstigana gagnvart tekjuskattinum annars vegar sér og hins vegar álagninguna í gegnum útsvarið sér. Það eru sömu aðilarnir sem koma þá til með að borga fyrst og fremst. Það er verið að leggja á sömu einstaklingana og eitthvert samræmi hlýtur að þurfa að vera í þessu, ef menn ætla ekki að halda áfram skattpíningu eins og raunar verið hefur.

Það er út af fyrir sig rétt, sem hér hefur komið fram, að tekjur sveitarfélaganna hafi verið að rýrna vegna þess ástands sem hefur verið í þjóðfélaginu á undanförnum árum. Það er rétt. En kjör gjaldþegnanna hafa líka verið að rýrna. Það þarf líka að taka tillit til þeirra þegar verið er að tala um álögurnar. Það er ekki nóg að hafa bara annað sjónarmiðið með í þeirri mynd.

Ég vil sem sagt að lokum vísa alfarið á bug þeim orðum sem hæstv. félmrh. viðhafði hér áðan, þegar hann ætlaði að kenna þingflokki Alþfl. um það, hvernig þessi mál eru nú komin. Það er á ábyrgð hæstv. félmrh. sjálfs, hvernig hann hefur klúðrað þessu máli, annaðhvort óafvitandi eða vísvitandi. Það verður hann sjálfur að skýra, hvort heldur er. En ástæðan og sökin er hans.